Hlaupár Íbúar Íslands voru 317.630 talsins 1. janúar 2010 og þeir sem eiga afmæli 29. febrúar alls 208. Þetta jafngildir því að 1 af hverjum 1.527 íbúum landsins eigi afmæli á hlaupársdegi.
Hlaupár Íbúar Íslands voru 317.630 talsins 1. janúar 2010 og þeir sem eiga afmæli 29. febrúar alls 208. Þetta jafngildir því að 1 af hverjum 1.527 íbúum landsins eigi afmæli á hlaupársdegi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Árið í ár er alveg sérstakt fyrir 208 Íslendinga en á morgun fá þeir að halda upp á „alvöru“ afmæli, hlaupársdaginn 29. febrúar. Samkvæmt þjóðskrá frá 1.

Baksvið

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Árið í ár er alveg sérstakt fyrir 208 Íslendinga en á morgun fá þeir að halda upp á „alvöru“ afmæli, hlaupársdaginn 29. febrúar. Samkvæmt þjóðskrá frá 1. janúar 2010 búa 208 einstaklingar á Íslandi sem fæddir eru þennan sérstaka dag, sem rennur upp á fjögurra ára fresti til að samræma lengd almanaksársins og árstíðaársins.

Í pistli um reglur um hlaupár á vefsvæði Almanaks Háskóla Íslands segir Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur og annar umsjónarmanna almanaksins, meðal annars: „Árstíðaárið ræðst af gangi jarðar um sólu og er sem stendur 365 dagar 5 stundir 48 mínútur og 45 sekúndur að meðaltali. Lengd almanaksársins er eins og allir vita ýmist 365 eða 366 dagar, en meðallengdin er venjulega talin 365 dagar 5 stundir 49 mínútur og 12 sekúndur. Samkvæmt þessu er almanaksárið að meðaltali 27 sekúndum lengra en árstíðaárið. Þessi munur verður að einum degi á um það bil 3200 árum.“

Deilt með 4 og 400

Mismunandi reglur gilda um hlaupár eftir því hvaða tímatali er farið eftir en samkvæmt hinu gregoríanska tímatali, sem tekið var upp á Íslandi í nóvember árið 1700, geta þeir sem vilja skipuleggja sig langt fram í tímann borið kennsl á hlaupár með því að deila tölunni 4 í viðkomandi ártal. Sérstök regla gildir þó um aldamótaár en þau eru aðeins hlaupár ef talan 400 gengur upp í ártalið, til dæmis var árið 2000 hlaupár en árið 2100 verður það ekki.

Á vefsvæði Vísindavefsins má finna ýmsan fróðleik um hlaupár en þar rifjar Guðrún Kvaran meðal annars upp íslenska minnisvísu sem finna má í rímtali Guðbrands biskups Þorlákssonar frá 1597 en flestir kannast við í yngri útgáfu:

Ap, jún, sept, nóv þrjátíu hver.

Einn til hinir kjósa sér.

Febrúar tvenna fjórtán ber

frekar einn þá hlaupár er.

Þá svarar hún því einnig hvers vegna hlaupár ber það nafn og segir: „Heitið hlaupár er talið dregið af því að margir merkisdagar í árinu eftir hlaupársdag hlaupa yfir einn vikudag.“

Lesa má meira um hlaupár á vef Almanaks Háskóla Íslands www.almanak.hi.is og á vef Vísindavefs Háskóla Íslands www.visindavefur.is.

FÆDDIST 29. FEBRÚAR 1952

Gaman að vera öðruvísi

Kristján Guðjónsson, lögfræðingur og sviðsstjóri viðskiptasviðs Sjúkratrygginga Íslands, er einn þeirra sem eru fæddir á hlaupársdeginum 29. febrúar og verður hann sextugur á morgun.

„Já, þetta verður fimmtándi afmælisdagurinn minn en ég hef annars nýtt 1. mars sem afmælisdag,“ segir Kristján.

En hvernig er að eiga bara afmæli fjórða hvert ár?

„Ég náttúrlega þekki ekki annað en mér finnst ágætt að vera ekki eins og aðrir og fell því vel í þennan hóp,“ svarar Kristján.

Hann segir þetta heldur ekki hafa truflað sig þegar hann var ungur, sérkennilegheitin hafi gert það að verkum að allir mundu eftir afmælinu og það hafi alltaf verið tilhlökkunarefni þegar kom að „alvöru“ afmælisdegi.

„Á seinni árum hef ég síðan haft það fyrir reglu að halda almennilega upp á þetta þegar ég á tugaafmæli og „alvöru“ afmæli, það er 20, 40 og 60 ára,“ segir Kristján.

Því verði útvöldum aðilum boðið til veislu í ár og þemað verði í takt við aldurinn, segir hann: Bítlar og blómabörn.