Grímur Guðmundsson, stofnandi og fyrrv. forstjóri Íspan glerverksmiðju, fæddist í Reykjavík 15. ágúst 1925. Hann lést á elli- og hjúkrunarheimilinu Seljahlíð í Reykjavík 27. nóvember sl.
Útför Gríms fór fram frá Digraneskirkju 9. desember 2011.
Stóísk ró hans var aðdáunarverð, höfðingi í allra garð, alltaf glaður í bragði, alltaf með hugann við reksturinn, alltaf með hugann við velferð starfsmanna sinna, alltaf með hugann við stöðugleika og árangur, alltaf í dansi með listagyðjunni með því að virkja málverk og höggmyndir eftir kunna íslenska listamenn sem umgjörð og hvatningu í fyrirtæki sínu Íspan.
Grímur Guðmundsson var magnaður athafnamaður, en hann stofnaði fjölskyldufyrirtæki sitt 1969. Fyrirtæki hans komst fljótlega í fremstu röð og hefur haldið því striki síðan með vönduðum vinnubrögðum, einstakri lipurð í allri þjónustu og stöðugri framþróun og endurnýjun, einstakt fjölskyldufyrirtæki sem hefur aldrei reist sér hurðarás um öxl byggt á metnaði og reisn höfðingjans Gríms Guðmundssonar
Það var aldrei skortur á umræðuefni þegar maður leit við hjá Grími. Hann var spjallari af Guðs náð og lagði alltaf gott til málanna, glaður og þægilegur, brattur sama hvaðan blés í hversdagsbaráttunni. Hann var einkar félagslyndur en hélt þó sínu striki og kvikaði ekkert til eða frá, vanur að ígrunda í botn áætlun og aðferðir. Að hitta hann minnti oft á meðtöku fræðslupistla því saman fór verkvit, reynsla og áræði og endalaus leikgleði.
Ég hygg að það sé ekkert fyrirtæki á Íslandi sem er eins umvafið listaverkum og Íspan í Breiddinni í Kópavogi, helst Hótel Holt. Metnaður Íspans er að tryggja vinsamlegt og gefandi vinnusvæði, skapa metnaðarfullt og skapandi andrúm í glerverksmiðjunni og Grímur var ekki síst í essinu sínu yfir kakóbolla í kaffistofu Íspans þar sem menn og málefni voru krufin til mergjar á léttu nótunum með þeim áherslunótum að lífið á að vera skemmtilegt. Á seinna fallinu þegar Grímur slakaði á klónni í daglegum rekstri og fjölskylda hans sigldi skútunni farsællega þá naut hann þess þó til fulls að vera með um borð, finna lyktina, taktinn og rennslið sem öllu skiptir í góðum rekstri. Hann þurfti ekki að hafa áhyggjur, systkynin voru við stýrið.
Grímur var einstaklega traustur og tryggur og vinur vina sinna í hvívetna. Í fyrsta sinn sem ég hitti hann vegna þess að mig vantaði gler fyrir um 30 árum, þá tókum við langt spjall, en í lok spjallsins sagði hann: „Ég hef fylgst með þér, þú gerir góða hluti. Haltu áfram“. Mér peyjanum fannst þetta skrítið, en þetta var hlý og dýrmæt hvatning. Þannig var Grímur í Íspan, hann hvatti menn til dáða, það fylgdu honum góðir straumar, öflug ára og trú á lífinu. Þannig er stemmningin í fjölskyldufyrirtæki hans. Grímur í Íspan er einn af þessum mönnum sem maður hugsar oft til vegna þess að hans er saknað.
Það er gott að eiga minningarnar um hann sem haldreipi í lífsins öldusjó sem lygnum og straumböndunum álfareiðanna í sléttum sjó. Minningin um Grím í Íspan er bakhjarl sem styrkir og hvetur til dáða.
Megi góður Guð styrkja eftirlifandi ástvini hans og vini og varðveita hina stóisku ró athafnaskálds sem með eðalgleri sínu opnaði tæra sýn út í heiminn, bæði heima og handan.
Árni Johnsen.