[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Búið er að veiða vel yfir 50% af aflamarki í þorski og ýsu á fiskveiðiárinu og sömu sögu er að segja um fleiri bolfisktegundir.

Fréttaskýring

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Búið er að veiða vel yfir 50% af aflamarki í þorski og ýsu á fiskveiðiárinu og sömu sögu er að segja um fleiri bolfisktegundir. Um mánaðamótin verður árið hálfnað samkvæmt tímatali sjómennskunnar og fregnir berast af því að farið sé að skerðast um kvóta hjá mörgum. Árlegt togararall er framundan, en rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson taka þátt í því ásamt þremur togurum.

Björn Ævarr Steinarsson, sviðsstjóri á veiðiráðgjafarsviði Hafrannsóknastofnunar, segir að nú fari í hönd vinna hjá stofnuninni við að vinna úr og safna gögnum, sem lögð verða til grundvallar aflaráðgjöf á næsta fiskveiðiari. Togararallið hefst nú í byrjun mars, en það byggist á reynslu frá árinu 1985 og er þessi mæliröð eitt mikilvægasta tæki Hafrannsóknastofnunar til að meta þróun á stofnstærð, útbreiðslu og líffræði botnfiska við landið. Að þessu sinni taka togararnir Bjartur, Jón Vídalín og Ljósafell þátt í rallinu ásamt skipum Hafró.

Við stofnmat eru einnig notaðar upplýsingar um aflasamsetningu og gögn úr afladagbókum höfð til hliðsjónar. Þá hefur verið farið í netarallið svonefnda í aprílmánuði í sextán ár og tóku sex bátar þátt í því í fyrra. Niðurstöður netaralls hafa ekki verið notaðar beint til samstillingar á stofnmati, en eru hafðar til hliðsjónar. Í júní er síðan að vænta skýrslu stofnunarinnar um ástand nytjastofna og aflahorfur á næsta fiskiveiðiári.

Þorskstofninn byggður upp, en samdráttur í ýsu

Þorskkvótinn var aukinn um 10% á þessu fiskveiðiári, en við ákvörðun aflamarks í þorski er stuðst við svokallaða aflareglu.

Björn Ævarr segir að það komi sér ekki á óvart að fregnir berist af góðum aflabrögðum á vertíðinni. „Á undanförnum árum hefur verið dregið úr sókn í þorskinn og stofninn farið vaxandi,“ segir Björn. „Árangur hefur náðst við uppbyggingu stofnsins og því hefur reynst auðveldara að ná aflamarkinu en áður.

Varðandi ýsuna gegnir öðru máli. Árgangurinn frá 2003 var mjög sterkur og leiddi til þess að aflamark fór yfir 100 þúsund tonn. Sá árgangur er að fara í gegn og eftir þokkalegan árgang 2007 komu þrír mjög lélegir árgangar í röð 2008, 2009 og 2010. Það er fyrirséð að verulegur samdráttur verður í ýsu á næstunni. Það er hins vegar töluvert síðan að við sáum breytingu á útbreiðslu ýsunnar samfara breyttum umhverfisskilyrðum Hún fer í auknum mæli norður fyrir land,“ segir Björn.

Hafrannsóknastofnun hefur ekki talið ástæðu til endurskoðunar á fyrri tillögum sínum um aflamark í ýsu fyrir þetta fiskveiðiár. Sjávarútvegsráðuneytið beindi því til stofnunarinnar fyrr í vetur að hún skoðaði grunn ráðgjafar sinnar hvað varðaði ýsu. Ráðuneytið vísaði til umfjöllunar um aukna gengd ýsu á grunnslóð.

Í svari Hafrannsóknastofnunar segir m.a.: „Úthlutað heildaraflamark er 45 þús. tonn eða um 22% hærra en tillaga stofnunarinnar. Frekari aukning á afla nú mun því væntanlega leiða til að stofninn minnki hraðar en ella og auka líkur á að hrygningarstofn ýsu fari niður fyrir sögulegt lágmark og skilgreind hættumörk. Afli ýsu á sóknareiningu, samkvæmt afladagbókum, hefur farið minnkandi á undanförnum árum.“

ÚTVEGSBÆNDUR ÁLYKTA

Meiri þorsk, ýsu og ufsa

Á stjórnarfundi í Útvegsbændafélaginu Heimaey í Vestmannaeyjum á föstudag, sem skipstjórnarmenn innan vébanda félagsins sátu einnig, var samþykkt ályktun þar sem skorað er á ráðherra að auka þegar úthlutun í þorski, ýsu og ufsa svo ekki þurfi að binda skip vegna kvótaskorts á miðju fiskveiðiári.

Frá því að Hafrannsóknastofnunin lagði til að 20% aflareglu yrði fylgt við þorskveiðar hafi komið í ljós að ástand stofnsins sé betra en reiknað var með, segir m.a. um þorskinn. Margt bendi til að vöxtur þorskstofnsins sé allt að þremur árum á undan því sem áætlanir gerðu ráð fyrir.

Ýsustofninn virðist sterkari en talið hefur verið og sjómenn hafi nánast verið á flótta undan henni. Síðustu vikur hafi allt of lítill kvóti í ýsu og ufsa aukið mjög á erfiðleika við að stýra botnfiskveiðum.