Ólafur Helgi Friðjónsson fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 5. apríl 1933. Hann lést á Landspítalanum 10. febrúar 2012.

Útför Ólafs fór fram frá Hafnarfjarðarkirkju 21. febrúar 2012.

Fyrstu kynni mín af Óla Abu voru, skiljanlega, þegar ég kynntist dóttur hans. Ég var þá háseti á varðskipinu Ægi, og mér fannst að Óla fyndist það heiður að geta starfað hjá Gæslunni. Ég var og er stoltur af því að hafa starfað hjá Gæslunni og skil Óla að því leytinu mjög vel.

Þetta ár, 1997, bauðst Óli til að aka mér á Bessastaði, þar sem áhöfnin á varðskipinu Ægi átti að taka við viðurkenningu frá forseta Íslands vegna björgunartilraunar á fraktskipinu Vikartind.

Hann skutlaði mér á Patrol sem hann átti og ég sá að ýmislegt við þennan Patrol hafði verið virkilega vel útfært í þeim breytingum sem Óli hafði gert á honum. Þetta var stuttur Patrol með stóru vélinni, 3500 cc diesel að mig minnir, og karlinn hafði gert bílinn jöklafæran. Ég sá að maðurinn var handverksmaður af ástríðu.

Ég átti eftir að sjá ýmislegt fleira frá væntanlegum tengdaföður mínum og þar af nokkuð sem ég átti ekki von á.

Óli var leikari af Guðs náð og samdi og lék í nokkrum auglýsingum. Þar á meðal auglýsingu um Abu-veiðivörur. Í þeirri auglýsingu sést Óli standa úti í hver og veiða lax. Maður kemur að honum og spyr hvernig þetta sé hægt og Óli svarar: „Nú, auðvitað með Abu!“

Þessi auglýsing gaf honum viðurnefnið Óli Abu.

Þegar ég var sjö ára lenti ég í því að falla í hver og brenna mig illa. Þegar ég var spurður hvað ég hefði verið að þvælast út í hverinn svaraði ég í hálfgerðu gríni: „Ég var bara að reyna að veiða lax eins og maðurinn í auglýsingunni!“

Ég hafði ekki hugmynd um, að þessi maður sem ég vitnaði í átti eftir að verða tengdafaðir minn.

Þegar ég læt hugann reika um kynni mín af Óla kemur alltaf bros hjá mér. Hann var bara skemmtilegur og virkilega þægilegt að hafa hann nálægt sér.

Hann kenndi mér t.d. hvernig ætti að búa til prestakaffi: „Nú, það er þannig gert að fyrst tekur þú kaffibolla og setur krónu í botninn á bollanum. Síðan hellirðu kaffi í bollann þangað til krónan hverfur. Þá tekurðu vodka eða íslenskt brennivín og hellir í bollann þangað til krónan kemur í ljós. Þá ertu kominn með prestakaffi!“

Oft kom það fyrir að við ræddum þjóðmálin. Umburðarlyndi hans gagnvart þjóðníðingum, ónytjungum og öðrum liðleskjum, sem áberandi hafa verið í umhverfi okkar, var aðdáunarvert og man ég ekki til að hafa heyrt hann tala illa um neina manneskju, sama hvað viðkomandi hafði gert af sér. Þetta segir mér allt sem segja þar um þann kærleika sem einkenndi þennan mann.

Kærleikurinn var smitandi frá honum og það voru börnin og dýrin sem fundu hvað mest fyrir honum. Þau löðuðust að honum eins og segli. Dóttir mín dýrkaði hann og báðir labradorhundarnir sem við hjónum höfum átt vildu hvergi annars staðar vera en við fætur hans þegar hann kom í heimsókn. Þetta segir mér allt sem segja þarf um Óla Abu, tengdaföður minn, sem ég kveð nú með söknuð í brjósti en samt með bros á vör. Eins ótrúlegt og það hljómar.

Guð geymi þig, kæri vinur, og við hittumst í fyllingu tímans.

Kærar þakkir fyrir allt.

Olgeir Gestsson.