Námskeið Frá barnanámskeiði á félagssvæði Fáks í Víðidal.
Námskeið Frá barnanámskeiði á félagssvæði Fáks í Víðidal. — Morgunblaðið/Ernir
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Nýliðanámskeið sem Hestamannafélagið Fákur er að undirbúa eru ætluð til að opna leið fyrir unglinga inn í hestamennskuna. Unglingarnir fá aðgang að hesti með öllum búnaði og reiðkennara.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Nýliðanámskeið sem Hestamannafélagið Fákur er að undirbúa eru ætluð til að opna leið fyrir unglinga inn í hestamennskuna. Unglingarnir fá aðgang að hesti með öllum búnaði og reiðkennara.

„Hestamennskan er dýrt sport og reynslan sýnir að ekki eru margir krakkar að byrja sem eru ótengdir hestafólki,“ segir Rúnar Sigurðsson, varaformaður Fáks, um ástæðu þess að félagið er að hefja nýliðanámskeið með stuðningi ÍTR. „Markhópurinn er krakkar með brennandi áhuga á hestum, hafa jafnvel sótt námskeið að sumri til, en eiga erfitt með að komast áfram.“

Nýliðanámskeiðin eru fyrir unglinga á aldrinum 14 til 17 ára og standa yfir í 3 til 4 mánuði. Unglingarnir hafa aðgang að hesti tvo daga í viku, þannig að hver hestur nýtist þremur krökkum. Fákur útvegar hnakk og beisli og ungmennin hafa aðgang að kennara í þrjá tíma á dag.

„Þetta er fyrsta skrefið, að gefa börnunum kost á að komast inn í hestamennskuna. Þau sem eru dugleg og áhugasöm geta haldið áfram og fyrirhugað er að vera með framhaldsnámskeið næsta haust. Þau geta síðan orðið að fullgildum Fáksmönnum með tíð og tíma, fengið leigða aðstöðu hjá hestamanni og jafnvel hjálpað til við hirðingu. Ég veit að margir Fáksmenn myndu þiggja slíka hjálp,“ segir Rúnar.

ÍTR styður Fák fjárhagslega í þessari tilraun. Námskeiðsgjald er 15 þúsund kr. á mánuði. Frístundakort ÍTR getur gengið upp í gjaldið. Fákur á hesthús sem félagið getur nýtt og hyggst byggja stærra hús og skapa betri aðstöðu ef verkefnið þróast eins og vonir standa til. Til samanburðar má geta þess að það kostar nokkur hundruð þúsund að byrja í hestamennsku og reksturinn kostar tugi þúsunda á mánuði.