Vörn Lögregla átti oft undir högg að sækja í janúar 2009.
Vörn Lögregla átti oft undir högg að sækja í janúar 2009. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Pálmason runarp@mbl.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að orð sín um að tilteknir þingmenn hafi haft áhrif á staðsetningu mótmælenda og harðan framgang, hafi eingöngu átt við mótmælin í miðborg Reykjavíkur 20. og 21. janúar 2009, en þá var mikil harka í mótmælunum. Geir Jón segir að það hafi verið upplifun lögreglunnar að það hafi orðið einhver hreyfing og breyting á mótmælunum sem menn hafi sett í samband við að einhver skilaboð og ábendingar hafi farið á milli. Ekki hefði verið hvatt til ofbeldis. „Það hef ég aldrei sagt,“ sagði Geir Jón í samtali við Morgunblaðið.

Geir Jón vinnur nú að skýrslu um mótmæli undanfarin ár, að beiðni lögreglustjóra, og mun skila henni í vor. Geir Jón segir að í skýrslunni verði að finna staðreyndir um mótmælin, s.s. um fjölda lögreglumanna að störfum, skipulag, hvað hafi komið upp á og umsagnir og upplifun lögreglumanna. „Ég er að vinna upp úr lögreglukerfunum til að hafa þetta allt á einum stað,“ sagði hann. Í umsögnum lögreglumanna liggi fyrir ákveðnar upplýsingar um þátt þingmanna og þar komi nöfn þeirra fram. Hann vildi ekki segja hvort margir þingmenn væru nefndir. Þetta væri ekki rannsókn og enginn hefði verið yfirheyrður.

Í Morgunblaðinu í gær sagði Geir Jón að ljóst væri að þingmennirnir hefðu haft áhrif „bæði á staðsetningu mótmælenda og harðan framgang“. Aðspurður hvað hann ætti við með hörðum framgangi sagði Geir Jón að þau orð vísuðu til mótmælanna 20. og 21. janúar. Þá hefðu orðið ákveðnar breytingar á mótmælunum. „Það varð hreyfing og einhver breyting á sem menn upplifðu og settu í samband við að einhverjar ábendingar hefðu farið fram,“ sagði hann. Þær hefðu lotið að því að færa sig til á Austurvelli. Lögregla hefði á þeim tíma ekki vitað hvað hefði farið á milli þingmanna og mótmælenda en upplýsingar um það hefðu síðar komið fram, m.a. á opinberum vettvangi. „Það sem við héldum fyrst að hefði verið upplifun hefur verið staðfest í okkar eyru,“ sagði Geir Jón, bæði með samtölum og því sem hefði komið fram opinberlega.

Geir Jón sagði að skýrslan væri vinnugagn og það væri lögreglustjóra að ákveða hvort hún yrði birt.

RANNSAKI ALLT SAMAN

Fjarstæða og alvarlegt mál

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði á Alþingi í gær að það væri mjög alvarlegt að halda því fram að einhverjir tilteknir þingmenn, sem ekki væru nafngreindir, hefðu fjarstýrt mótmælunum. Það væri fjarstæðukennd hugmynd. Annað og öllu alvarlegra væri ef menn létu að því liggja að þessir þingmenn hefðu reynt að hafa áhrif á hvernig mótmælin færu fram þannig að það gerði lögreglu erfiðara um vik eða stofnaði henni í hættu. „Ef svona ásakanir verða uppi eða dylgjur sem ég kýs að kalla það þá skulum við rannsaka það og þá líka allt saman. Og við þurfum þá væntanlega að rannsaka mótmælin sem héldu áfram og urðu hér við þingsetningu í fyrra og hittifyrra og hverjir tengdust þeim,“ sagði Steingrímur m.a.