Það er ómögulegt að spjalla við afmælisbarn dagsins, Mats Wibe Lund, án þess að enda samtalið brosandi út að eyrum.

Það er ómögulegt að spjalla við afmælisbarn dagsins, Mats Wibe Lund, án þess að enda samtalið brosandi út að eyrum. Raunar er það Mats sem endar samtalið því hann á alltaf síðasta orðið en ljósmyndarinn og lífskúnstnerinn er lífsglaður með afbrigðum og á að eigin sögn voðalega erfitt með að halda sig á alvarlegu nótunum.

„Lífið verður miklu skemmtilegra ef maður slær á létta strengi. Eitt sem mér finnst til dæmis svakalega skemmtilegt er þegar fólk hringir í mig í vitlaust númer. Þá reyni ég að stoppa það af og spyr hvaðan það er og býð því mynd,“ segir Mats skellihlæjandi og fullyrðir að þannig hafi honum tekist að selja nokkrar myndir. „Þetta er spurning um rétta tóninn,“ segir hann íbygginn.

Mats hefur á löngum ferli tekið þúsundir loftmynda bæði af þéttbýli og dreifbýli og er alls ekki sestur í helgan stein. „Nú vinn ég að því að skanna inn og skrásetja en ég á myndir af nánast hverri einustu bújörð á landinu og töluvert af eyðibýlum líka. Og það er ásetningur minn að skilja eftir heimildasafn af öllum þeim stöðum á Íslandi þar sem búið hefur verið undanfarin 200 ár eða svo,“ segir afmælisbarnið stórtæka. holmfridur@mbl.is