Halldór Fannar fæddist í Reykjavík 28. apríl 1948. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 15. febrúar 2012.

Útför Halldórs fór fram frá Hallgrímskirkju 24. febrúar 2012.

Okkur systkinin langar til að minnast Halldórs Fannars í nokkrum orðum. Það eru væntanlega margir sem sitja með hnút í maganum á biðstofu tannlæknis síns og bíða eftir að verða kallaðir inn. Við minnumst þess ekki að hafa haft þessa tilfinningu heldur ríkti smá eftirvænting, þar sem Halldór tók alltaf svo yndislega á móti okkur og verðlaunaði okkur alltaf með dóti að skoðun lokinni. Hann var svo hlýlegur og góður við okkur, átti væntanlega pínulítið í okkur. Því var ekkert undarlegt að við fórum sjálf með börnin okkar til hans þegar þau fóru að poppa upp kollinum.

Hann fylgdist alltaf með því sem við vorum að gera og var aðdáandi Snorra bróður nr. 1. Mætti á alla tónleika hans og keypti báðar plöturnar hans! Á síðustu útgáfutónleikum Snorra í haust mætti Halldór að sjálfsögðu. Það var eitthvað lítið um sæti og þeir félagar, pabbi og hann, brugðu á það ráð að deila sæti. Sátu sem sagt til skiptis í fanginu á hvor öðrum til að spara hnén.

Það er enn óraunverulegt fyrir okkur að hann sé fallinn frá. Við viljum þakka Halldóri fyrir alla hlýjuna og stuðninginn í gegnum árin og sendum okkar innilegustu samúðarkveðju til fjölskyldu hans.

Hinsta kveðja,

Bryndís, Pétur, Heiða

Kristín og Snorri Helgabörn og fjölskyldur.

Þú varst og ert og verður alltaf minn besti vinur.

Takk fyrir alla hreindýraveiðitúrana, alla fiskiveiðitúrana, allar Þórsmerkurferðirnar, allar útilegurnar og allar vísurnar.

Takk fyrir allar stundirnar þar sem við ræddum um lífið og glöddumst yfir lífinu.

Þú og ég og Sanderman.

Friðsælt er á feigðar þingi

fengum enga – ég og Ingi

öxlin er því ekkert marin

enda gæs að mestu farin.

(Halldór Fannar.)

Hvíl í friði, elsku vinur.

Ingi Þór Jakobsson.

Það voru sorgartíðindi þegar mér barst sú frétt að Halldór Fannar frændi minn hefði látist fyrr um morguninn þann 15. febrúar sl. Viku áður hafði ég setið í stólnum hjá honum, við rætt hans nýlegu veikindi og spítalavist, en líka hversu heppinn hann hefði verið að ná undir læknishendur í tæka tíð. Hann virtist sprækur og hress og hafa aldrei liðið betur, eins og hann sagði sjálfur. En lífið er hverfult og enginn veit sína ævi fyrr en öll er.

Fæstum þykir það sjálfsagt skemmtilegt að setjast í stól hjá tannlækni. Það var hins vegar ekki tilfellið þegar Halldór átti í hlut. Skemmtilegar sögur og fréttir af frændfólki fengu mann til að gleyma stundum stund og stað. Í upphafi var ég líka hluti af kandidatsverkefninu hans með brotna framtönn, eða eins og hann sagði sjálfur „En spennandi, bara eins og Bjöggi“!

Engan þekki ég sem átt gæti betur við að teldist vera „hrókur alls fagnaðar“ á mannamótum. Halldór hafði líka þann mikilvæga eiginleika að láta fólki líða vel í sinni návist. Það var einfaldlega útilokað að vera í fýlu í návist þessa manns. Upp í hugann koma skemmtilegar stundir eins og þegar ég sá hann í fyrsta skipti með Ríó Tríói í Hallormsstaðaskógi um árið, ættarmótin fyrir austan með frumsömdum lögum eins og „Sól á Sandbrekku....“ og afmælin í ættinni þar sem Halldór hélt uppi stuðinu með gítar og söng. Ættarmótin verða ekki söm og áður. Það var með ólíkindum hvað þér tókst vel að lyfta þessum frændgarði upp til aukinnar gleði. Þín verður sárt saknað.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

Eg veit einn

að aldrei deyr:

dómur um dauðan hvern.

(Úr Hávamálum.)

Ég kveð þig með virðingu og söknuði. Ég vil að lokum votta Hönnu móður hans, Soffíu, Höllu, Halldóri, Róberti og öllum aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveður á þessum erfiðu tímum. Blessuð sé minning frábærs frænda.

Hreinn Jakobsson.

Það er búin að vera mikil sorg í hjarta okkar Grétars síðan við fréttum um andlát kærs vinar, Halldórs Fannars. Mikið eigum við eftir að sakna hans, nærvera hans var einstök. Skemmtilegur maður svo ekki sé meira sagt.

Alltaf gaman þegar vitað var að Dóri yrði með í fjallaferð eða gönguferð eða að hann ætlaði að eyða með okkur helgi í bústaðnum. Það var bara ekki hægt að láta sér leiðast með Dóra í för. Aldrei sá ég hann í leiðu eða vondu skapi né að hann hallmælti neinum, bara jákvæður. Við geymum minningarnar um þig, kæri vinur, og eigum eftir að sakna þín mikið.

Grétar Árnason og

Elísabet Jónsdóttir.