Andrés Jóhannesson fæddist á Sturlu-Reykjum í Reykholtsdal, Borgarfirði 20. desember 1931. Hann lést á Fossheimum 1. febrúar 2012.

Útför Andrésar fór fram frá Grensáskirkju 10. febrúar 2012.

Að búa við gott nágrenni er gott veganesti út í lífið og nú þegar komið er að kveðjustund rifjast ósjálfrátt upp ýmislegt frá liðnum tíma þegar ég var að alast upp í Ásgarði. Eins og gerist og gengur var stundum fengið að láni eitthvað sem vanhagaði um á bæjunum. Ég man eftir að hafa verið send að skila grófu salti í krukku sem fengið hafði verið að láni á Stóra-Kroppi. Þegar ég rétti krukkuna til Andrésar datt hún á bæjarhelluna og brotnaði. Ekki var ég upplitsdjörf þar sem ég horfði á saltið og glerbrotin á stéttinni en klapp á öxl og hlýtt bros og nokkur vel valin orð um að þetta gerði nú bara ekkert til bættu heldur um hjá mér. Svo var mér boðið í bæinn og inn í eldhúsið sem hafði svo sterkan, fallegan rauðan lit og glansaði af hreinlæti eins og allt á þessu heimili þeirra Andrésar og Siggu. Heldur var ég brattari þegar ég fór heim aftur eftir þessar hlýlegu móttökur. Ég man líka eftir sundnámskeiði í Reykholti og við krakkarnir á nágrannabæjunum sem vorum á líku reki vorum keyrð og sótt til skiptis á gulum eða bláum Skoda. Þessir gulu og bláu Skodar voru líklega sjaldnast á dekkjum sem þurftu til að komast leiðar sinnar í hálku upp Rjúpnalautarbrekkuna og því skjóta upp í kollinum, minningabrot frá því að horfa á þá viðureign. Ég man líka löngu seinna þegar þau hjónin komu að heimsækja mig nýkomna heim með frumburðinn og gáfu mér peysu og galla á strákinn. Frá því að alast upp á næsta bæ við þau Andrés og Siggu man ég ekkert nema gott viðmót glæsilegra hjóna sem bjuggu góðu búi og voru góðir nágrannar.

Fyrir hönd okkar sem áttum heima í Ásgarði vil ég þakka fyrir það allt. Sigga, Dedda, Kristleifur, Sóley, Steini og fjölskyldur, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur, gott veri með ykkur.

Kolbrún Sveinsdóttir.