Margrét Sighvatsdóttir fæddist í Ártúnum á Rangárvöllum 23. maí 1930. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð í Grindavík 3. febrúar 2012.

Útför Margrétar var gerð frá Grindavíkurkirkju 10. febrúar 2012.

Hún var ekki aðeins stórkostleg manneskja með litríkan persónuleika, hún var listaverk í sjálfri sér, glæsileg, fögur og hlý með einkennandi aðalsmerki, bros sem bræddi allra hjörtu og bar í sér gleði og fjör. Það fór aldrei á milli mála að Margrét Sighvatsdóttir dró dám af sínu fólki, harðdugleg, traust og kunni einstaklega vel að rækta vinarþel. Hin lífsglaða sveitastelpa var alla tíð hispurslaus, ófeimin og áræðin,en aldrei fylgdi hún neinni hugmynd með hávaða. Hún var einkar félagslynd og var meðal annars stofnandi að björgunarfélaginu Þórkötlu í Grindavík og kvenfélagi Grindavíkurkirkju.

Ung kynntist hún mannsefni sínu Páli Péturssyni skipstjóra og útgerðarmanni og leiðin þeirra var löng og farsæl alla tíð. Þau voru eins og sköpuð fyrir hvort annað, eins og klettar í mannlífinu sem veittu mörgum skjól í mannlega vindhörpuslagnum. Magga var ein af þessum burðarásum sem kunnu ekkert nema gott og þess vegna geislaði endalaust af henni hvort sem var í sólargeislum á kinn eða sólstöfum minninganna.

Einn mesti hagyrðingur Íslandssögunnar, Sigurður Breiðfjörð, orti:

Þegar ég ráfa og hengi haus

þið haldið það skáldadrauma,

en þá er ég svo þankalaus

sem þorskurinn lepur strauma.

Magga Sighvats var skáld og tónlistarmaður af Guðs náð og aldrei þankalaus. Í hversdagsþönkunum brakaði stanslaust í hugsun hennar, sköpunargáfan og sköpunargleðin voru sífellt að og jafnt í stemningu innri hugans og sjálfri náttúrukvikunni, var hún að skapa ljóð eða lag til dýrðar lífsins djásnum, Palla sínum, fólkinu sínu.

Magga var frábær söngkona og túlkaði með dýpt þroskans og hjartanu sjálfu. Upptökurnar með söng hennar, tónlist hennar, eru perlur í djásnasafni Íslands. Með reynslu og menntun eins og gerist hjá heimskunnum söngvurum hefði Margét Sighvatsdóttir átt heima á hvaða sönglistasviði sem er í heiminum. Svo sterkum karakter bjó hún yfir, tærri einlægni og sönggleði. Þessa Guðsgjöf ræktaði hún með börnunum sínum og barnabörnum enda er fjölskyldan öll mikið söngfólk og kann svo sannarlega að nýta þær gjafir sem söngurinn er hverjum og einum í blíðu og stríðu.

Það var alltaf hátíð að hitta Möggu Sighvats, alltaf skemmtileg, alltaf gefandi því hún var dæmigerð fyrir það að geta breytt dimmu í dagsljós með brosinu sínu. Frænkur hennar, börn Lilju Jónsdóttur og Filippusar Tómassonar minnast frænku sinnar fyrir yndi og kærleik, góða áru í lífsins melódí og þannig hygg ég að allir hugsi sem kynntust gleðigjafanum Möggu Sighvats.

Megi góður Guð varðveita ástvini hennar í starfi og leik, styrkja þá í athöfnum og átökum til heilla landi og þjóð.

Það er sagt að það sé bjartara en bjart í himnaranninum. Þegar Magga mætir á engin eilífu mun birta enn meir af stórkostlegri manneskju og litríkum persónuleika.

Árni Johnsen.