Síminn Starfsmaður sendur í leyfi vegna hlerunarmáls.
Síminn Starfsmaður sendur í leyfi vegna hlerunarmáls. — Morgunblaðið/Kristinn
Sigrún Rósa Björnsdóttir sigrunrosa@mbl.is Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tilkynnti lögreglu í gær meint brot Símans og starfsmanns hans gegn fjarskiptalögum. „Við tilkynntum lögreglunni að starfsmaður Símans hefði skoðað þessi gögn.

Sigrún Rósa Björnsdóttir

sigrunrosa@mbl.is

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tilkynnti lögreglu í gær meint brot Símans og starfsmanns hans gegn fjarskiptalögum. „Við tilkynntum lögreglunni að starfsmaður Símans hefði skoðað þessi gögn. Við báðum lögregluna líka um það, tækju þeir mál starfsmannsins til rannsóknar að taka þá einnig þátt Símans, sjálfs í málinu til skoðunar,“ segir Björn Geirsson, forstöðumaður lögfræðideildar PFS. Það sé hins vegar ekki þeirra að kæra í málinu.

PFS telur Símann hafa gert sig sekan um ámælisvert athafnaleysi og brotið gegn fjarskiptalögum, með því að rannsaka ekki kvörtun frá konu um hugsanlega ólögmæta hlerun fyrrverandi eigimanns hennar, sem starfar hjá félaginu, fyrr en um ári eftir að kvörtunin barst því. Einnig að upplýsa konuna ekki um að maðurinn hafi með ólögmætum hætti kynnt sér upplýsingar um símnotkun hennar. Telur PFS að Símanum hafi borið að tilkynna lögreglu að starfsmaðurinn hafi nýtt sér ólögmætan aðgang að upplýsingum um símtöl fyrrverandi konu sinnar.

Tvö aðskilin mál

Í raun hér um að ræða tvö aðskilin mál. Annars vegar er PFS að tilkynna viðbrögð Símans til lögreglu þ.e. athafnaleysi í þeirri stöðu sem upp var komin. Ákvörðun stofnunarinnar sem birt var í gær sneri að skyldum fjarskiptafyrirtækisins. Hins vegar er um að ræða brot starfsmannsins gegn einkalífi konunnar og kemur fram að Síminn segist hafa leiðbeint konunni að leita til lögreglu vegna málsins. Væntanlega er það konunnar sem brotaþola að kæra ef hún vill. Síminn hefur sent starfsmanninn í ótímabundið leyfi.

Brot gegn 47. gr. fjarskiptalaga, þar sem kveðið er á um öryggi og þagnarskyldu geta varðað sektum eða allt að tveggja ára fangelsi, teljist brotin mikil eða ítrekuð.

Síminn virðist hafa túlkað beiðni PFS og konunnar um málið þannig að þar væri eingöngu verið að tala um hlerun. Maðurinn hafi ekki haft aðgang til að getað hlerað í rauntíma. Heldur að hann hafi skoðað upplýsingar um fjarskiptaumferð. Það virðist þýða að hann hafi getað séð í hverja var hringt, hvenær og hve símtölin stóðu lengi. Í raun að hann virðist hafa vitað allt, nema hvað henni og fólkinu sem hún talaði við fór á milli.

PFS vísar til þessa og segir svör fyrirtækisins hafa verið misvísandi og til þess fallin að villa um fyrir stofnuninni.

Síminn viðurkennir í yfirlýsingu sem send var í gær að fyrirtækið hafi gert mistök. Í síðustu viku hafi fyrirtækið fundað með lögreglu og þar hafi komið skýrt fram af hálfu lögreglu að því hafi verið óheimilt að afhenda öðrum en lögreglu eða ákæruvaldi umbeðnar upplýsingar.

Síminn segir málið þýða að farið verði yfir ferla og vinnubrögð innanhúss til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki og staðinn verði vörður um einkalíf viðskiptavina.

Njósnaði um fyrrverandi
» Konan sendi fyrirspurn til Símans haustið 2008 vegna gruns um að fyrrverandi eiginmaður hleraði símtöl hennar.
» Eftir ítrekun barst konunni svar ári seinna. Maðurinn hefði ekki hlerað síma hennar. Var henni vísað á lögreglu.
» Konan sendi PFS kvörtun vegna svarsins í júní 2010.
» Niðurstaða PFS er að bæði Síminn og starfsmaðurinn hafi brotið gegn fjarskiptalögum.