Fjör Það er jafnan mannmargt við hreystivellina enda gaman að spreyta sig á þrautunum.
Fjör Það er jafnan mannmargt við hreystivellina enda gaman að spreyta sig á þrautunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Síðastliðin ár hafa verið byggðir nokkrir leikvellir sem nefndir eru hreystivellir, en hreystivöllur er útileikvöllur sem líkir eftir keppnisvellinum í Skólahreysti og aðstaða er þar til að framkvæma allar greinar keppninnar.

Vellirnir eru á skólalóðum eða almenningssvæðum og þá hægt að nota bæði í æfingar og leiki.

Hugmyndin með hreystivöllum er fyrst og fremst að skapa vettvang þar sem börn og fullorðnir geta stundað heilbrigða og skemmtilega leiki í öruggu umhverfi. Í sjónvarpsþáttunum um Skólahreysti sjá börn og unglingar hvernig á að leysa þrautirnar í keppninni og geta þau síðan farið út á hreystivöll og leikið kúnstirnar eftir. Tveir notendur geta farið í gegnum þrautirnar í einu og röð greina og keppnisreglur eru sýndar á skiltum á myndrænan hátt.

Þrautirnar reyna á allan líkamann og auka styrk, úthald, samhæfni, jafnvægi og hugrekki. Vellirnir henta því til alhliða líkamsræktar þar sem hægt er að setja upp stöðvaþjálfun og æfa úthald, sprengikraft og hreyfigetu í þrautabraut. Hreystivöllur hentar einnig vel sem alhliða leikvöllur þar sem krakkar geta notað eigið hugmyndaflug og búið til eigin leiki.

Hreystivöllur er hannaður í grunninn eins og keppnisvöllur Skólahreysti. Nú þegar er búið að útfæra minni einingar af leik- og æfingavöllum þar sem hægt er að byrja á að taka hluta af hreystivellinum. Hægt er sem dæmi að byrja á fyrsta hluta hraðabrautarinnar sem inniheldur dekkjaþrautina og apastigann með rimlunum og ránni, en á þeim hluta eru líka æfingatækin fyrir upphífingar, dýfur og hreystigreip. Það er síðan auðvelt að bæta öðrum hlutum við fyrstu eininguna auk þess sem hægt er að flytja einingar til ef t.d. þarf að stækka svæðið sem völlurinn tekur.

Margþætt notagildi og öruggt umhverfi

Eins og áður segir er hreystivöllur hannaður sem leik- og æfingavöllur fyrir alla, þó ber að athuga að börn yngri en 8 ára þurfa að vera í fylgd með fullorðnum á vellinum. Reynslan hefur sýnt að þar sem hreystivellir eru í dag hafa íþróttakennarar notað þá til útikennslu í íþróttatímum og til undirbúnings keppnisliða fyrir Skólahreystimótin. Það var t.a.m. stutt út á næsta völl fyrir sigurvegara Skólahreysti á síðasta ári, Holtaskóla í Reykjanesbæ. Fullorðnir geta líka farið með krökkum sínum út á völl og sýnt gott fordæmi og farið í skemmtilega leiki við börnin. Einnig geta þjálfarar úr öðrum greinum íþrótta notað aðstöðuna fyrir líkamsþjálfun fyrir sína iðkendur.

Öryggis gætt á alla vegu

Hreystivöllur uppfyllir allar grunnkröfur um öryggi leikvalla og leikvallatækja auk reglna um íþróttatæki á opnu svæði sem og undirlag þeirra. Úttekt er gerð reglulega og áhersla lögð á viðhald til að hámarka öryggi þeirra sem þar eru við leik og æfingar. Leikvellirnir hafa verið í stöðugri þróun og endurbótum í rúm fimm ár og metnaður lagður í útlit, gæði og ekki síst öryggi þeirra. Hægt er að fá allar nánari upplýsingar um hreystivelli og annað sem við kemur Skólahreysti með því að senda tölvupóst á skolahreysti@skolahreysti.is

jonagnar@mbl.is