Pálmey Ólafía Kristjánsdóttir fæddist á Látrum í Aðalvík 5. desember 1918. Hún lést 19. febrúar 2012.
Foreldrar hennar voru María Arnfinnsdóttir og Kristján Guðnason. Systir hennar var Arnfríður f. 24. maí 1907, d. 5. desember 1976. Eiginmaður Pálmeyjar var Hannes Jónsson f. 7. apríl 1912, d. 21. ágúst 1984. Dóttir þeirra er Bára Hannesdóttir, f. 30. ágúst 1941, maki Gunnar Jakobsson, f. 28. júlí 1936. Dætur þeirra eru: 1) Hanna Pálmey f. 20. ágúst 1959, maki Ragnar Oddsson, f. 3. ágúst 1959, börn þeirra Haukur, f. 13. september 1980, Signý Bára, f. 8. október 1988. 2) María Kristín, f. 16. mars 1962, maki Smári Baldursson, f. 18. september 1957, synir þeirra Hannes, f. 24. 1991, Kristján Pálmi, f. 30. ágúst 1997. 3) Þórunn Margrét, f. 7. desember 1968, maki Bolli Ófeigsson, f. 12. september 1970, börn þeirra Gunnar, f. 27. mars 1992, Hildur Margrét, f. 3. desember 2002, og Bára María, f. 12. febrúar 2005.
Jarðarför Pálmeyjar fór fram í kyrrþey 24. febrúar 2012.
Elsku mamma mín, nú ert þú laus við sjúkdóminn og komin á góðan stað.
Mamma ólst upp á Látrum við gott atlæti og gekk í barnaskólann þar. Hún hefur sagt mér margar sögur af uppvextinum í þessari dásamlegu vík. Þarna var friður og ró og mikið frelsi fyrir börn.
Hún var aðeins sextán ára þegar hún trúlofaðist Hannesi Jónssyni. Þau gengu í hjónaband 1939, settust að á Ísafirði og bjuggu þar til 1950, þá fluttu þau suður til Reykjavíkur.
Fyrsta veturinn fyrir sunnan var stofnað Átthagafélag Sléttuhrepps sem starfaði af miklum krafti og gerir enn. Mamma og pabbi unnu mikið fyrir það félag og höfðu gaman af.
1960 fóru mamma og pabbi að vinna hjá Flugfélagi Íslands. Þar unnu þau í 12 ár, eða þar til flugskýlið brann. Þarna var eldaður allur matur í millilandaflugvélar F.Í. og oft mikið að gera. Það var mikið og gott félagslíf hjá Flugfélagi Íslands, sem þau tóku fullan þátt í. t.d. spilakvöld tvisvar í mánuði. Mamma hafði mjög gaman af að spila og kom oftast heim með verðlaun. Skipuleggjendurnir voru farnir að spyrja hana hvað hana vantaði eða hvað hana langaði í í verðlaun. Þegar það brann hjá F.Í. fluttu þau sig yfir til Loftleiða en þá voru flugfélögin að sameinast.
Þau fóru norður í Aðalvík flest sumur eftir 1967 og fengum við fjölskyldan oft að fljóta með, það voru dásamlegar stundir. 1962 fluttu pabbi og mamma í Stóragerði 10, þar sem þau bjuggu þar til 1984. Þar áttu þau góðan tíma, eignuðust fyrsta bílinn og fóru margar ferðir út á land á sumrin. Oft var farið í Hreyfilshúsið á gömlu dansana, þeim fannst svo gaman að dansa.
Árið 2004 var hún greind með langt genginn Alzheimerssjúkdóm, það var mikið áfall. Hún fékk inni á Roðasölum 2005 og síðar á Hrafnistu í Kópavogi. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem önnuðust mömmu mína og vil sérstaklega nefna starfsfólkið á Hrafnistu í Kópavogi.
Einn er sá sem öllum gefur
óskahvíld á hinstu stund.
Líknarfaðmi veika vefur,
veitir sæta hvíld og blund.
(Guðrún Magnúsdóttir.)
Hvíl í friði, elsku mamma mín. Ég veit að strengurinn á milli okkar er og verður sterkur um alla tíð.
Þín dóttir,
Bára.
Hvernig er hægt að þakka,
það sem verður aldrei nægjanlega þakkað.
Hvers vegna að kveðja,
þann sem aldrei fer.
Við grátum af sorg og söknuði
en í rauninni ertu alltaf hér.
Höndin sem leiddi mig í æsku
mun gæta mín áfram minn veg.
Ég veit þó að víddin sé önnur
er nærveran nálægt mér.
Og sólin hún lýsir lífið
eins og sólin sem lýsti frá þér.
Þegar að stjörnurnar blika á himnum
finn ég bænirnar, sem þú baðst fyrir mér.
Þegar morgunbirtan kyssir daginn,
finn ég kossana líka frá þér.
Þegar æskan spyr mig ráða,
man ég orðin sem þú sagðir mér.
Vegna alls þessa þerra ég tárin
því í hjarta mínu finn ég það,
að Guð hann þig amma mín geymir
á alheimsins besta stað.
Ótti minn er því enginn
er ég geng áfram lífsins leið.
Því með nestið sem amma mín gaf mér,veit ég að gatan hún verður greið.
Og þegar sú stundin hún líður
að verki mínu er lokið hér.
Þá veit ég að amma mín bíður
og með Guði tekur við mér.
(Sigga Dúa)
Hanna Pálmey,
María Kristín, Þórunn Margrét og fjölskyldur.
Ég gleymi því aldrei þegar ég fór sjö ára gömul með mömmu „suður“ til Pöllu og Hannesar og borðaði besta graut sem ég á ævi minni hafði smakkað. Það var hrísmjölsgrautur með rúsínum og kanilsykri sem Hannes hafði eldað. Ég minnist þess einnig þegar ég suðaði og suðaði í henni að lána mér hrátt egg , því ég ætlaði mér að gera kraftaverk á eldhúsgólfinu á Baugsvegi 7. Það skyldi koma ungi og ég lá í gólfinu eins og hæna í dágóðan tíma þangað til ég varð að játa mig sigraða því auðvitað datt ég á eggið og braut það. „Þvílíkur þrái í stelpunni,“ sagði Palla frænka. „Hvaðan hefur stelpan þetta?“ Núna veit ég hvaðan sá þrái kom, því ég átti ekki lengra að sækja það en til hennar sjálfrar. Palla frænka var mjög ákveðin og hispurslaus kona. Hún lét allt flakka og ég dáðist að henni hvað hún var laus við alla tilgerð og kom ætíð til dyranna eins og hún var klædd. Hún hafði forystuhæfileika og vann alltaf sín verk af dugnaði og elju þar til hún varð að hætta sökum aldurs.
Síðustu æviárin voru henni mjög erfið vegna veikinda . Hún reyndi samt að halda virðingu sinni og reisn allt til dauðadags. Ég átti með henni margar ljúfar stundir og mikið fannst mér gott að geta hjúfrað mig upp að henni og talað við hana. Ekki veit ég hvort hún meðtók allt sem ég sagði, en hún strauk mér ávallt um vangann og horfði blítt til mín. Nú er Drottinn búinn að taka hana í faðm sér og strjúka henni um vangann. Hún er komin til Hannesar og ég er viss um, að það hafa verið miklir fagnaðarfundir. Að lokum vil ég senda Báru, Gunna og afkomendum innilegar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning elsku Pöllu frænku.
Guðbjörg María Jóelsdóttir (Gugga Maja).
Ég bjó á heimili þeirra um tveggja ára skeið. Þá bjuggu þau í blokk við Stóragerði. Íbúðin var ekki stór, eitt svefnherbergi og samliggjandi stofa og borðstofa. Þau settu upp skilrúm milli stofu og borðstofu og sváfu í borðstofunni en ég fékk besta herbergið, svefnherbergið, til eigin nota.
Þeim var umhugað um að ég hefði það sem allra best og sinnti mínu námi. Hannes var matreiðslumeistari og lengst af vann Palla frænka við hlið hans í veitingahúsum eða mötuneytum, lengst hjá Flugfélagi Íslands á Reykjavíkurflugvelli. Heima skiptu þau eldamennskunni milli sín og naut ég góðs af því, hafði reyndar stundum á tilfinningunni að þau væru bara að elda fyrir mig.
Það var oft glatt á hjalla í Stóragerðinu því bæði voru þau hjónin glaðsinna og Hannes mikill grallari en Palla frænka kunni vel að meta smágrín og óvænt uppátæki. Þau höfðu gaman af því að spila á spil og oft var gripið í spil þegar gesti bar að garði. Stundum fékk Hannes lánaða harmonikku og spilaði með tilþrifum og ef bræður hans, Sölvi eða Snorri, sem báðir gátu spilað, voru viðstaddir þurfti Palla stundum að hafa hemil á spilamennskunni. Palla var kraftmikil kona og hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum. Hún sagði sína meiningu skýrt og skorinort, hvar og hvenær sem var, sama hver átti í hlut. Okkur samdi alltaf vel og aldrei bar skugga á okkar samskipti. Vegna búsetu hvors á sínu landshorninu voru samskiptin mest símleiðis sl. 35 ár, en alltaf þegar ég kom í heimsókn fannst mér Palla frænka taka mér eins og sínum einkasyni. Ég mun alltaf minnast Pöllu frænku með þakklæti og hlýhug fyrir það sem hún gerði fyrir mig. Ég sendi Báru og fjölskyldu einlægar samúðarkveðjur.
Hjálmar Jóelsson.