Hörður Ægisson
hordur@mbl.is
Mikil eftirvænting ríkir á meðal evrópskra fjárfesta og fjármálastofnana fyrir útboð Evrópska seðlabankans á morgun, en bankinn mun þá bjóða fjármálafyrirtækjum – í annað skipti á aðeins tveimur mánuðum – að sækja sér lánsfjármagn til þriggja ára á aðeins 1% vöxtum. Spár greinenda gera ráð fyrir því að upphæðin sem bankarnir muni taka að láni verði á bilinu um 500-1000 milljarðar evra. Í fyrsta útboði bankans í desember fengu 523 fjármálastofnanir lán að andvirði samtals 489 milljarða evra.
Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, segist vænta þess að bankarnir muni að þessu sinni nota féð í meira mæli til að auka hjá sér útlán til raunhagkerfisins. Eftir útboðið í desember héldu bankar að sér höndum og reyndu fremur að styrkja hjá sér lausafjárstöðuna í ljósi þess að þeir glíma margir hverjir við gríðarlega þunga endurfjármögnunarstöðu. Á fyrsta fjórðungi þessa árs þurfa bankar að standa skil á lánum að andvirði 230 milljarða evra og ljóst er að fáar – ef nokkrar – fjármálastofnanir eru í þeirri aðstöðu að geta selt skuldabréf til fjárfesta við núverandi aðstæður á markaði.
Greinendur eru ekki á einu máli um hversu mikil eftirspurn verður í útboðinu á morgun. Samkvæmt meðalspá 28 greinenda sem Bloomberg-fréttaveitan leitaði til má reikna með því að fjármálastofnanir muni sækja sér 470 milljarða evra. Bandaríska matsfyrirtækið Standard & Poor's gerir hins vegar ráð fyrir því að upphæðin verði um þúsund milljarðar evra.
Sérfræðingar eru sammála um að aðgerð Evrópska seðlabankans hefur skipt sköpum fyrir fjármálastöðugleika á evrusvæðinu og afstýrt þeirri hættu – minnsta kosti til skamms tíma – að stór banki færi í greiðsluþrot. Hlutabréfavísitala Bloomberg fyrir banka- og fjármálafyrirtæki hefur hækkað um 18% á þessu ári og skuldatryggingaálagið á helstu banka Evrópu hefur að sama skapi lækkað skarpt.
Það eru hins vegar ekki aðeins bankarnir sem hafa notið góðs af ódýru lánsfé Evrópska seðlabankans. Flest bendir til þess að evrópsk fjármálafyrirtæki hafi einnig notað lánsféð í þeim tilgangi að kaupa upp evrópsk ríkisskuldabréf – ekki síst verst stöddu evruríkjanna – og þar með aðstoðað þau ríki sem eru í aðþrengdri fjárhagsstöðu.