<strong>Frumkvöðull</strong> Ilan Volkov aðalstjórnandi SÍ og listrænn stjórnandi Tectonics, mun stjórna SÍ á fimm tónleikum á hátíðinni
Frumkvöðull Ilan Volkov aðalstjórnandi SÍ og listrænn stjórnandi Tectonics, mun stjórna SÍ á fimm tónleikum á hátíðinni — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Við munum nýta Hörpu til fullnustu þessa þrjá daga sem hátíðin stendur og leika í hinum ýmsu rýmum hússins, þar með taldir allir salir sem og anddyrið,“ segir Sigurður Nordal, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, um tónlistarhátíðina Tectonics sem hefst nk. fimmtudag og stendur í þrjá daga. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin, en Ilan Volkov, aðalhljómsveitarstjóri SÍ og listrænn stjórnandi hátíðarinnar, hefur látið hafa eftir sér að ætlunin sé að gera hátíðina að árlegum viðburði hér eftir. Nú þegar liggur ljóst fyrir að vorið 2013 verður hátíðin haldin bæði í Reykjavík og í Glasgow í samvinnu við BBC Scottish Symphony Orchestra.

„Það er að mörgu leyti einstakt hjá sinfóníuhljómsveit að fara þessa leið, þ.e. að halda tónlistarhátíð þar sem við köllum til tónlistarmenn úr ýmsum geirum tónlistar, s.s. raf- og spunageiranum,“ segir Sigurður og tekur fram að Sinfóníuhljómsveitin verði auðvitað í miðpunkti á hátíðinni. „Með þessu erum við bæði að tengja hljómsveitina inn í það nýjasta sem er að gerast í tónlist óháð tónlistarstefnu og jafnframt er þetta hátíð þar sem ný íslensk tónlist er sett inn í alþjóðlegt samhengi. Við fáum þannig erlenda tónlistarmenn til að koma fram ásamt fjöldanum öllum af íslenskum tónlistarmönnum, auk þess sem við köllum til listamenn úr öðrum listgreinum, s.s. dansi og myndlist. Þetta verður því einn allsherjar spennandi suðupottur,“ segir Sigurður, en meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni eru breski píanóleikarinn John Tilbury, ástralski gítarleikarinn Oren Ambarchi, hljómsveitirnar Slowblow, Stilluppsteypa og Reptilicus, Kristín Anna Valtýsdóttir og myndlistarmaðurinn Ragnar Kjartansson.

Að sögn Sigurðar verða tvö tónskáld í sérstökum brennidepli á hátíðinni, annars vegar Bandaríkjamaðurinn John Cage sem hefði orðið 100 ára í ár, hefði hann lifað, og hins vegar Magnús Blöndal Jóhannsson sem er einn helsti frumkvöðull íslenskrar raftónlistar. „Þeir eru tveir af frumlegustu tónhugsuðum seinni hluta 20. aldar. Báðir þessir menn fóru nýjar leiðir í sinni tónlist og tengdu tónlist sína öðrum listgreinum, m.a. myndlist og heimspeki. Þetta er tónlist sem er enn fersk og ný og verður gaman að heyra í samhengi við það sem er nýjast að gerast í listum,“ segir Sigurður og bendir í því samhengi á að þrennir tónleikar verða helgaðir tónlist Magnúsar, þar af einir þar sem tónlist hans verður sett í nýtt samhengi en þá hljóma fjögur ný verk, innblásin af tónlist hans sem pöntuð voru sérstaklega fyrir tilefnið.