Landsvirkjun bárust um 250 umsóknir um störf háskólanema fyrir sumarið en ekki hefur verið ákveðið endanlega hve margir verða ráðnir. Sumarið 2011 voru um 50 háskólanemar við ýmis störf hjá fyrirtækinu, m.a. tengd námi og við verkstjórn í sumarvinnu unglinga.
Misskilnings gætti í umfjöllun í Morgunblaðinu í gær um sumarstörf ungmenna og gefið í skyn að Landsvirkjun hefði auglýst eftir 160 lausum sumarstörfum fyrir bæði unglinga og háskólanema. Hið rétta er að 160 laus störf eru fyrir ungmenni á aldrinum 16-20 ára, fædd árin 1992-1996. Háskólanemar eru ekki inni í þeirri tölu og er beðist velvirðingar á misherminu. Eins og fram kom í blaðinu í gær bárust Landsvirkjun um 450 umsóknir um störf unglinga, þannig að samanlagt eru þetta um 700 umsóknir sem bárust, en umsóknarfrestur rann út 20. febrúar sl.