Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
„Orðrómur um að dýr hafi horfallið á Mýrunum vegna harðæris passar ekki alveg,“ sagði Skarphéðinn G. Þórisson, hreindýrasérfræðingur á Náttúrustofu Austurlands. Hreindýr hafa haldið sig mikið á láglendi frá Hamarsfirði og suður á Mýrar. Frá Hvalnesi og suður úr var mikill klaki yfir öllu í desember og janúar. Fólk óttaðist að hreindýr hefðu fallið mikið vegna jarðbanna. Skarphéðinn fór og skoðaði nokkur hræ.
„Það hafa allmörg dýr drepist þar,“ sagði Skarphéðinn. Skoðunin sýndi að nokkuð mörg dýr höfðu orðið fyrir bílum. Skarphéðinn taldi að sum þeirra hefðu slasast við ákeyrslu en komist í burt og drepist.
Tveir dauðir tarfar voru neðan við Flatey á Mýrum, báðir mjög fullorðnir og horaðir. „Þeir fara með sig á fengitímanum. Þegar þrengir að eins og nú þá þola dýr sem eru veil fyrir það síst og hrökkva upp af,“ sagði Skarphéðinn. Hann sagði ekki hægt að tala um horfelli hreindýra en segja mætti að í einhverjum tilfellum hefðu svellalögin flýtt fyrir dauða lélegra dýra. Þá hefðu dýrin hangið lengi niðri í byggð undanfarna vetur og yrðu þá frekar fyrir bílum, einkum í skammdeginu.
Skarphéðinn sagði að hreindýr hefðu varla sést uppi á Héraði í vetur. „Þau hafa lítið komið niður og maður aðeins hitt á hópa á Jökuldalsheiði út undir Vopnafirði og allt gott um þau að segja,“ sagði Skarphéðinn. Dýrin þar eru í mjög góðum holdum. Hreindýrin yfirgáfu Fljótsdalsheiðina að mestu fyrir um tveimur árum og er fátt um dýr þar. Dýrin hafa flutt sig austar og eru mikið inni á Öxi, inn af Skriðdal, í Breiðdal, á Fossárfelli og í Hamarsdal.
Orsakir dauða dýranna
» Tæpur þriðjungur 35 dauðra dýra í vetur drapst af ókunnri ástæðu. Tíu drápust sannarlega eftir að hafa orðið fyrir bíl. Sex drápust eftir að flækjast í girðingum við Flatey á Mýrum.
» Tveir ellimóðir tarfar drápust eftir fengitímann. Tvö dýr voru líklega skotin ólöglega og eitt hrapaði.