Svandís Stefánsdóttir fæddist á Litlu-Hámundarstöðum í Árskógshreppi 27. september 1943. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 8. febrúar 2012.

Útför Svandísar fór fram frá Akureyrarkirkju 17. febrúar 2012.

Með sorg í hjarta kveð ég Dísu og hugur minn leitar til ykkar; elsku Númi, Elva Dögg, Telma Hrönn, Tolli, Atli og yndislegu ömmu- og afabörn.

Fréttin af andláti Dísu tók mikið á mig. Með hógværð sinni og látlausu yfirbragði skilur hún eftir sterkar og fallegar minningar.

Þegar við bjuggum í Heiðarlundi var mikill samgangur á milli íbúðanna og vinabönd mynduðust strax. Dísa sat oft í kaffi hjá mömmu en við stelpurnar hlupum hiklaust á milli íbúðanna og vorum hálfgerðir heimagangar.

Það lék flest í höndunum á Dísu. Til dæmis tók hún að sér að greiða mér fyrir fermingarmyndatöku sem þurfti að endurtaka því myndirnar eyðilögðust hjá ljósmyndaranum. Mér eru minnisstæð fallegu fötin sem hún saumaði á Elvu Dögg og fékk ég eitt sinn föt, saumuð af Dísu, lánuð fyrir árshátíð. Þegar ég fór að eignast börn gaf hún þeim fallega prjónaðar flíkur sem ég á enn.

Í seinni tíð fór ég stundum upp í Heiðarlund í kaffi til Dísu og Núma þegar systurnar voru í heimsókn hér fyrir norðan. Oft hittumst við Dísa í Skógarlundinum, ég skokkandi og hún í göngutúrnum sínum, og alltaf stoppuðum við til að spjalla. Dísa sagði mér fréttir af stelpunum og barnabörnunum en ég sagði fréttir af mömmu og pabba. Annars var Dísa dugleg að heimsækja foreldra mína og alltaf lét hún sjá sig á afmælisdaginn hennar mömmu. Oft kom hún með myndir af fjölskyldunni til að sýna þeim.

Dísa, ég þakka þér fyrir stuðninginn sem þú veittir mér í sumar þegar pabbi veiktist og mamma slasaðist. Það var gott að tala við þig.

Númi, Elva Dögg og Telma Hrönn, Guð veiti ykkur stuðning í sorg ykkar. Eftir standa minningar um konu með hógværa framkomu en stórt hjarta. Blessuð sé minning hennar.

Fanný María Brynjarsdóttir.

Kæra vina.

Það er sárt að sjá svona fljótt á eftir þér, það var okkar gæfa að vera meðal þinna bestu vina um áratuga skeið. Að eiga góða vini er ómetanlegt. Í öll þessi ár höfum við átt saman margar góðar og glaðar stundir. Að fá að ganga með ykkur Núma, Elvu og Telmu er ein af stóru gjöfum lífsins. Dísa var sterk og dugleg kona sem við bárum mikla virðingu fyrir, hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum en bar um leið virðingu fyrir skoðunum annarra. Hún hafði stórt hjarta og mikla hlýju, og sást það best á ástinni og kærleikanum sem hún umvafði maka sinn, börn og barnabörn.

Fyrir nokkrum árum er þú greindist með krabbamein og gekkst undir mikla aðgerð varstu svo ákveðin að sigrast á sjúkdómnum, þú varst sterk og dugleg og kvartaðir aldrei. Þegar við sáum og fundum æðruleysi þitt var það skjöldur til að standa af okkur storminn. Í nokkur ár varst þú frísk og hress, en svo tóku veikindin sig upp á ný og nú svífur þú guðs um geim, laus við allar þjáningar. Síðasta samverustund vinahópsins var í nóvember, en þá komum við saman í matarveislu í Heiðarlundinum hjá ykkur hjónum og áttum þar yndislegt kvöld. Við erum óendanlega þakklát fyrir þessa síðustu samverustund, þín verður sárt saknað úr vinahópnum. Samferðin hefði mátt vera miklu, miklu lengri, það var svo margt sem við áttum eftir að gera saman, en um slíkt er ekki spurt. Við ráðum ekki sjálf hvernig og hvenær vegferðinni lýkur.

Elsku Númi, Elva Dögg, Thelma Hrönn og barnabörnin sem Dísa var svo stolt af því hún var yndisleg amma. Guð styrki ykkur og verndi og leiði ykkur í ljósið á ný. Elsku Dísa okkar, við þig viljum við segja, þú sem í fjarlægð bak við himininn dvelur, hafðu ævinlega þökk fyrir vináttuna og hlýjuna. Við höldum utan um Núma og fjölskylduna þína. Öllum ástvinum Dísu sendum við dýpstu samúðarkveðjur. Fljúgðu burt í hæstu hæðir í átt til guðs og sólar sem allt græða. Samúðarkveðjur.

Heiða og Hafþór,

Gunnborg og Pétur,

Rósa og Þóroddur

og fjölskyldur.