Bestur Kevin Durant faðmar LeBron James, stigahæsta leikmann liðs austurdeildarinnar, í leikslok í fyrrinótt.
Bestur Kevin Durant faðmar LeBron James, stigahæsta leikmann liðs austurdeildarinnar, í leikslok í fyrrinótt. — Reuters
Úrvalslið vesturdeildarinnar hafði betur gegn úrvalsliði austurdeildarinnar, 152:149, í hinum árlega stjörnuleik í NBA í körfuknattleik sem háður var í 61. sinn í Orlando í fyrrinótt.

Úrvalslið vesturdeildarinnar hafði betur gegn úrvalsliði austurdeildarinnar, 152:149, í hinum árlega stjörnuleik í NBA í körfuknattleik sem háður var í 61. sinn í Orlando í fyrrinótt.

Kevin Durant, leikmaður Oklahoma, var valinn besti leikmaður stjörnuleiksins en hann skoraði 36 stig, tók 7 fráköst og átti 3 stoðsendingar í leiknum.

„Þetta er draumur sem er að rætast. Strákarnir mötuðu mig og ég er afar glaður að fá þennan titil,“ sagði Durant eftir að hafa tekið á móti viðurkenningu sinni en þetta er í fyrsta skipti sem hann hlýtur þessa viðurkenningu.

Kobe Bryant skoraði 27 stig fyrir vesturliðið og hann er þar með orðinn stigahæsti leikmaður í sögu stjörnuleikjanna. Hann bætti stigamet goðsagnarinnar Michael Jordans. Bryant hefur skorað 271 stig í þeim 13 stjörnuleikjum sem hann hefur tekið þátt í en Jordan skoraði 262 stig. Russell Westbrook sýndi frábær tilþrif í lið vesturdeildarinnar en hann skoraði 21 stig og átta stiganna skoraði hann með glæsilegum troðslukörfum.

LeBron James var atkvæðamestur í liði austurdeildarinnar en hann skoraði 36 stig og þar af skoraði hann sex þriggja stiga körfur. James tók 6 fráköst og átti 7 stoðsendingar í leiknum. Dwayne Wade kom næstur með 24 stig og þá tók hann 10 fráköst og átti 10 stoðsendingar.

Leikurinn var hin besta skemmtun og fengu áhorfendur að sjá mörg glæsileg tilþrif. Lið austurdeildarinnar fékk tækifæri til að jafna metin undir lok leiksins en þriggja stiga skot frá Dwayne Wade rataði ekki rétta boðleið og leikmenn úr vestrinu fögnuðu sigri.

gummih@mbl.is