Gunnlaugur Briem Pálsson vélaverkfræðingur fæddist í Reykjavík 19. júní 1932. Hann andaðist á heimili sínu 2. mars 2012.

Hann var sonur hjónanna Gyðu Sigurðardóttur, f. 1910 í Reykjavík, og Páls Björns Einarssonar frá Reykholti í Borgarfirði, f. 1905 í Gaulverjabæ í Flóa.

Gunnlaugur kvæntist Ingu Ingibjörgu Guðmundsdóttur landfræðingi 1. ágúst 1953 í Englandi. Þau hófu búskap sinn í Gautaborg þar sem Gunnlaugur var í námi og þar fæddust tvö fyrstu börnin. Eftir nám og störf í Svíþjóð fluttu þau heim og bjuggu í Goðheimum í Reykjavík og fluttu árið 1968 í Bröttubrekku í Kópavogi og bjuggu þar æ síðan. Börn þeirra eru Páll verkfræðingur, f. 1954, Anna Gyða hjúkrunarfræðingur, f. 1956, og Jóhanna mannfræðingur, f. 1964 í Reykjavík. Börn Páls með fv. eiginkonu, Björgu Evu Erlendsdóttur, eru Logi sálfræðinemi, Edda nemi í læknisfræði og Iðunn fermingarstúlka. Inga Hlíf nemi í læknisfræði er dóttir Önnu Gyðu og fv. eiginmanns hennar, Melvins McInnis læknis í Bandaríkjunum. Marín Ingibjörg nemi í Menntaskólanum við Hamrahlíð er dóttir Jóhönnu og Colms McGinley frá Írlandi. Fósturdóttir Gunnlaugs og Ingu frá sex ára aldri, hálfsystir Ingu, er Edda Þórðardóttir Karlson, f. 1948. Börn hennar og Rolands Karlson eru Anders, Annelie og Agne, eru þau öll búsett í Svíþjóð.

Systir Gunnlaugs er Margrét Sigríður Pálsdóttir, f. 3. júní 1941 á Laugarbökkum í Ölfushreppi, Árnessýslu. Eiginmaður hennar fv. er Magnús Gústafsson forstjóri í Bandaríkjunum. Börn þeirra urðu fjögur, Björn, Sigfús, Einar og Jórunn.

Gunnlaugur ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950 og járnsmíðaprófi frá Iðnskólanum vorið 1951. Um haustið hóf hann nám í vélaverkfræði við Chalmers TH í Gautaborg og lauk þaðan burtfararprófi 1956. Réðst hann þá til starfa hjá Svenska Turbin Aktiebolaget í Norrköping þar til fjölskyldan flutti heim til Íslands 1958. Gunnlaugur starfaði eftir heimkomuna við fölbreytt verkfræðistörf og stofnaði með nokkrum verkfræðingum fyrirtækið Varma hf. sem sérhæfði sig í lausnum með tæknibúnaði í loftræsingum, hita- og kælikerfum. Hann varð einkaeigandi Varma árið 1970 og starfaði þar sem framkvæmdastjóri til æviloka. Einnig rak hann með föður sínum fyrirtækið Stilli hf. sem Páll faðir hans stofnaði árið 1943. Sonur Gunnlaugs, Páll vélaverkfræðingur, réðst til starfa með föður sínum í Varma árið 1989 og störfuðu þeir óslitið saman þar til Gunnlaugur lést.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 9. mars 2012, kl. 13.

„Þarftu ekki að fara að gera eitthvað?“ sagði pabbi minn við mig þegar ég settist niður hjá honum daginn áður en hann lést en þá var að verða nokkuð ljóst í hvað stefndi. Það grátbroslega var að ég hafði af skyldurækni fengið mér að borða svo ég héldi dampi. Þá kom setningin fljúgandi og hitti mig fyrir ofurviðkvæma yfir ástandi hans. Hvar er nú stóra samhengið? – hugsaði ég með mér og fannst þetta alveg einkennandi fyrir manninn sem aldrei nokkurn tímann sló slöku við. Sl. mánuði hafði pabbi nefnilega útfært með okkur fjölskyldunni breytingar á íbúðinni og eins og hans var von og vísa fannst honum mikið varið í hvernig allt var að ganga upp. Sökum veikindanna gat hann ekki lengur komið á Sjafnargötuna til okkar barnanna, þaðan af síður upp á 3. hæð til mín. Því var ég farin að taka myndir af öllum verkstigum svo hann gæti fylgst með. Hann var vel með á nótunum, óendanlega ráðagóður við að finna bestu lausnirnar og að benda á hvað ætti að gerast næst. Hamraði stöðugt á að kaupa alltaf það besta upp á endinguna.

Sem ég velti fyrir mér „stóra samhenginu“ sá ég að það var náttúrulega hann sem var með það á hreinu. Frá fyrsta degi veikindanna var viðkvæðið ávallt að við skyldum sjá til hvað læknarnir segðu, hvað kæmi út úr rannsóknunum eða hvað gerðist í næstu törn. Endalokin nefndi hann aldrei, heldur snerist allt um að fá sem mest út úr því sem væri í boði meðferðarlega séð. Það sem hann meinti þarna daginn áður var „þarftu ekki að fara gera eitthvað fyrir þig?“. Ég átti ekki að vera að hanga yfir honum þegar ég gæti verið að koma verkefnunum í íbúðinni áfram. Pabbi ásamt sinni dyggu stoð mömmu sýndi takmarkalaust æðruleysi þetta hálfa ár sem baráttan stóð yfir. Þótt henni sé lokið fyrir honum hafa hann og mamma komið áleiðis dýrmætum lærdómi til okkar afkomendanna um hvernig eigi að takast á við vonlausar aðstæður, nefnilega að gefa öllu gaum og tækifæri sem mögulega getur bætt stöðuna og umfram allt að lifa í núinu.

Takk fyrir allt pabbi minn.

Jóhanna.

Þegar við barnabörn afa Gulla ákváðum að skrifa minningargrein um hann kom ótal margt í hugann. Afi var alltaf svo virðulegur og flottur hvort sem hann var á leiðinni niður í Varma á Cherokeenum sínum með brúnu skjalatöskuna undir hendinni eða að greiða brúartoll með vinum og fjölskyldu á leið inn í Goðdal. Afi var mikill spekúlant, sérstaklega þegar kom að tækjum og öllu sem krefst verkvits sem hann bjó yfir í ríkum mæli. Ég hef ekki séð þann síma, myndavél, stjörnusjónauka eða GPS-tæki sem hann gæti ekki lært á. Alltaf þegar við heimsóttum afa og ömmu var nóg um að vera í kringum þau, sama hvort það var í Goðdal, Tortu eða heima í Bröttubrekku. Þá sá maður afa oft niðursokkinn í leiðbeiningar með nýjasta tækinu, eða með nefið ofan í National Geographic meðan amma rýndi í jarðfræðitímarit og galdraði fram dýrindismáltíðir handa allri fjölskyldunni. Þau áttu sér mörg sameiginleg áhugamál sem við fjölskyldan fengum að njóta með þeim. Ekkert okkar mun nokkurn tíma gleyma þegar afi kenndi okkur krökkunum að veiða. Við munum alveg hvernig við létum ef það beit ekki á helst strax og höfum örugglega reynt á þolrifin í honum. En hann varð aldrei þreyttur á okkur nema kannski þegar við vorum í þykjustuleik þar sem við rákum veitingahús í kjallaranum í Bröttubrekku og tókst að hella vatni yfir National Geographic-blöðin hans. Okkur mun heldur ekki líða úr minni skíðaferðirnar sem við fórum í saman. Þar eins og annars staðar var afi á heimavelli og hélt áfram að skíða svo lengi sem hann lifði enda var hann ótrúlega vel á sig kominn þrátt fyrir að vera kominn á fullorðinsár.

Annað sem þau hjón áttu sameiginlegt var að sýna öllu sem viðkom okkur barnabörnunum áhuga, hvort sem það var námið, vinnan, tónlistin eða áhugamál. Það er til dæmis aðdáunarvert hvernig afi fylgdist með tónlistarnáminu hjá okkur öllum þó tónlist væri kannski ekki hans helsta áhugamál. Þau mættu alltaf þegar þau gátu og var ekki óvanalegt að sjá afa standa fremstan í salnum með upptökuvélina á lofti. Ef maður sagði afa frá einhverju sem manni lá á hjarta gat maður verið viss um að hann myndi velta því fyrir sér og oft finna einhvern flöt á málinu. Afi var ekki maður aðgerðaleysis og orðaflaums, þaðan af síður að hann vorkenndi sér nokkurn tímann. Hann trúði á mátt okkar sjálfra til að breyta og bæta líf okkar og tók hverju því sem lífið rétti að honum sem verkefni til að leysa. Þannig tók hann á veikindum sínum og hélt sinni virðingu og reisn allt fram á síðustu mínútu. Hann var Kletturinn í fjölskyldunni og fyrirmynd allra sem hlutu þann heiður að kynnast honum. Rétt eins og þrotlaust starf hans við að hugsa um jarðirnar í Tortu og Goðdal mun minna á hann, munum við heiðra minningu afa okkar með því að reyna að hlúa að fræjum þeirra mannkosta sem hann innrætti í okkur.

Edda Pálsdóttir, Iðunn Pálsdóttir, Inga Hlíf Melvinsdóttir, Logi Pálsson, og Marín Ingibjörg Colmsdóttir.

Virðing kemur fyrst í hugann þegar Gunnlaugs Pálssonar er minnst. Hann markaði spor og vel rudda braut í tilverunni fyrir afkomendur sína. Systkinin Logi, Edda og Iðunn og hin afabörnin Inga Hlíf og Marín eiga eftir að búa að því alla ævi að eiga þennan afa og þessa ömmu, sem eru engum lík. Margt gott lærði ég af Gunnlaugi og Ingu á árunum sem við vorum samferða.

Gunnlaugur gekk á undan í flestu eins og hinn sjálfsagði leiðtogi, tilbúinn að takast á við hvert verkefni og vanda af krafti og mikilli nákvæmni. Reyndar var aldrei talað um vanda í þessari fjölskyldu, heldur aðeins um verkefni og leiðir. Bjartsýni og dugnaður ríkti og einlægur áhugi á öllu sem fyrir lá. Inga brosandi, léttlynd og hugmyndarík við hliðina á Gulla sem var ævinlega með fjölbreytilegustu áform uppi fyrir þau og stórfjölskylduna alla.

Setið var við að skipuleggja tómstundir og frí út í ystu æsar með hjálp nýjustu tækni sem Gunnlaugur lá yfir þar til ekkert fór á milli mála. Barnabörnunum var fylgt eftir á tónlistaræfingar og tómstundaverkefni og full virðing borin fyrir öllum þeirra gjörðum og áhugamálum. Fjölskyldan var mikið saman á skíðum, í ferðum, í veislum, í Goðdal og seinna í Tortu. Alltaf var afinn mættur með stuðninginn, myndavélarnar og stórbrotnar áætlanir fyrir næstu afrek og ævintýri.

Varla getur verið algengt að fólk haldi fullum afköstum jafnt í vinnu sem frístundum svo langa ævi. En Gunnlaugur hélt æskuþreki og ótrúlegum viljastyrk til að lifa lífinu til góðs og gleði með sínum nánustu alla tíð. Nýrri í hópnum gat fundist nóg um að farið væri á fætur klukkan átta í fríi til þess svo að fylgja Gunnlaugi eftir allan daginn í rauðum og svörtum skíðabrekkum, án þess að kunna á skíði. En skipulagið var gott og námskeið í að nýta stundirnar og njóta samt lífsins, eins og Gulli var sérfræðingur í, skyldi enginn afþakka.

Inga sagði oft að það ætti að setja skemmtanaskatt á mann sem væri alltaf í vinnunni löngu kominn á eftirlaunaaldur. En þótt Gunnlaugur hafi mætt af miklum áhuga í vinnunna, nánast til hinsta dags, voru skemmtanirnar ekki bara þar. Mestar voru þær með Ingu og fjölskyldunni, eins og sást á því hve samrýnd þau voru, á umhverfinu sem þau bjuggu sér og á óeigingjörnum stuðningi þeirra við vini sína og stórfjölskyldu. Það er sem ungur maður hafi fallið frá, en gott er að hugsa til þess að Gunnlaugur lifði síungur og í blóma lífsins í nærri áttatíu ár.

Björg Eva Erlendsdóttir.

Í dag kveð ég mikla hetju með söknuð í hjarta.

Ég kynntist Gulla árið 2006 þegar við Logi byrjuðum að vera saman. Þegar ég hugsa til baka streyma í huga minn margar góðar minningar. Öll ferðalögin í Goðdal, Tortu-ferðirnar, laufabrauðsgerð, skötuveislur og margt fleira.

Ég tel mig vera mjög lánsama að fá að koma inn í þessa dásamlegu fjölskyldu þar sem mér hefur verið tekið svo vel. Þegar ég fór fyrst í fjölskylduferð í Goðdal var mér tekið strax eins og einni af fjölskyldunni, ekki síst af Ingu og Gulla, sem hafa alltaf verið mér svo hlý og góð og tóku mér eins og sjötta barnabarninu, eða þannig líður mér allavega.

Gulli var dásamlegur maður sem hugsaði vel um fólkið sitt og gerði allt fyrir okkur. Minningarnar lifa í hjarta mínu.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Ég sakna þín.

Erna Þórey Jónasdóttir.

Upp á fjall, yfir skarð, niður kamba, yfir stórfljót og vegleysur. Akandi, gangandi eða skíðandi. Grafa skurði, leggja rör, saga timbur, steypa og byggja hús eða brú. Veiða, slægja og leggja brauð í hver. Framkvæmdagleði og umhyggja. Myndavél í hendi sem festi allt listilega á filmu. Hlátur eins og enginn hlær og raddblær. Minningar mínar um Gulla hennar Ingu frænku hópast saman; hann hávaxinn, sterkbyggður og athugull maður sem virtist aldrei falla verk úr hendi.

Inga og Gulli og mamma og pabbi hafa alltaf verið eins og eitt sett og óaðskiljanlegir vinir. Við krakkarnir þeirra ólumst saman upp og því engin furða að stundum komu skrítnar spurningar hver væri mamman og hver væri pabbinn. Fyrir okkur var þetta ríkidæmi. Að alast upp við samveru í Hveró, Goðdal, í ótal tjaldferðalögum og skíðaferðum er ómetanlegt. Einhvern veginn komumst við öll fyrir í bílnum með allt hafurtaskið sem fylgdi og ferðagleði réð ríkjum. Ég þakka Gulla fyrir að hafa átt svo ríkan þátt í að gefa mér svona margar góðar og skemmtilegar minningar.

Elsku Inga, Páll, Anna Gyða, Jóhanna og fjölskyldur, ég og fjölskyldan mín biðjum góðan Guð að styrkja ykkur og blessa.

Edda Gunnars.

Margt leitar á hugann þegar góður vinur og félagi kveður eftir rúmlega hálfrar aldar vinskap. Minningar streyma fram, allar skemmtilegar. Ánægjustundirnar í Goðdal með þeim hjónum eru ofarlega, hvort sem voru vinnuferðir á vorin þar sem hver stund var skipulögð af Gulla eða glaðst yfir góðu dagsverki að kvöldi og notið hvíldar.

Sumar- og haustferðirnar eftirminnilegar, veiddur silungur og stundum lax, fullt af berjum á haustin, já, margt var engu líkt í Goðdal. Það liggja margar vinnu- og ánægjustundir hjá Gulla í þessum friðsæla dal. Það er örugglega hljótt í dalnum núna þegar svo tryggur „bóndi“ kveður.

Minningabrot líða fram í ótal myndum: Dyngjufjalladalur, ótrúlega seinfarinn en stórkostlegur, komum í undraheim fegurðar í Suðurárbotnum, tjaldað á Rifshafnartanga í miðnætursól. Svona var ferðast og Ísland í uppáhaldi hjá okkur öllum. Sátum einu sinni föst í Syðri-Ófæru í septembermánuði, umferð lítil, við einbíla. Bronkóinn að fyllast af vatni, 30 km til byggða og útlitið ekki gott, en úr rættist. Svona gátu sum ferðalögin orðið með ævintýrablæ. Sofið var í tjöldum eða í gömlum og nýjum fjallakofum. Það var sannarlega ánægjulegt að ferðast með Ingu og Gulla, við vorum svo innilega samhent í öllu þessu brölti. Alltaf stóísk ró yfir Gulla, yfirvegaður og skipulagður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, hefði líklegast getað tekið vélina í bílnum í sundur og sett hana saman aftur á staðnum. Hann var góður skíðamaður og margar góðar skíðaferðirnar voru farnar innanlands og utan. Svona gætum við haldið áfram, en minningarnar lifa.

Gunnlaugur Pálsson var góður maður og vandaður. Það er sárt að missa slíkan vin en ljúft að minnast hans með hlýhug og þakklæti.

Hulda og Jónas Hallgrímsson.

Torta í Biskupstungum heitir ein hjáleiga Haukadalstorfunnar. Fyrir um tuttugu árum stofnuðu landeigendur með sér félagsskap, Landeigendafélag Tortu. Gunnlaugur Briem Pálsson hefur verið einn stjórnarmanna frá upphafi. Landeigendur hafa notið nákvæmra vinnubragða, alúðar og útsjónarsemi hans í þessum störfum. Gróðurfar í Tortulandi er til vitnis um það.

Við meðstjórnarmenn þökkum Gunnlaugi samstarf og samveru um leið og við vottum Ingu og fjölskyldu þeirra okkar dýpstu samúð.

Pétur Guðfinnsson og

Garðar Eiríksson.

Mig langar að kveðja Gulla með örfáum orðum. Hann hefur verið hluti af lífi mínu frá því ég man eftir mér, ekki frændi en samt eins og frændi. Pabbi Palla frænda míns, besta vinar og æskufélaga. Heimili Ingu og Gulla nánast mitt annað á löngum stundum, ávallt velkominn. Gulli var eins og kletturinn, alltaf til staðar, traustur og yfirvegaður en um leið hlýr og umhyggjusamur. Gat verið strangur en aldrei ósanngjarn. Allt til enda var Gulli svona, sterkur og tókst á við veikindi sín af sama krafti og ásetningi og um alla aðra hluti. Það var einhvern veginn aldrei neitt ómögulegt, hvort sem var framkvæmdir, ferðalög eða skíðaferðir. Þetta var bara gert, síðan var tími til að njóta þess. Fram á síðustu stundu hélt Gulli sínu striki í veikindunum, ætlaði en var ekki bænheyrður því miður. Gulli kvaddi jarðvistina með reisn eins og hans var vani. Hann var góður maður og við Dóra nutum ávallt gestrisni og umhyggju Ingu og Gulla, aldrei komið að tómum kofanum þar. Við Dóra vottum ykkur kæra fjölskylda innilega samúð á þessari stundu og kveðjum Gulla sorgmædd í hjarta en með þökk fyrir samfylgdina með sálmi eftir Gísla á Uppsölum:

Þegar raunir þjaka mig

þróttur andans dvínar

þegar ég á aðeins þig

einn með sorgir mínar.

Gef mér kærleik, gef mér trú,

gef mér skilning hér og nú.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

Gylfi Gunnarsson.

Gunnlaugur B. Pálsson, mágur okkar og svili, er látinn eftir skammvinn veikindi. Við eigum erfitt með að gera okkur grein fyrir þeirri staðreynd.

Kynni okkar hófust á skólaárum í MR 1950 og bundumst við strax mjög sterkum vináttuböndum ekki síst vegna samveru Gunnlaugs og Ingu Ingibjargar. Kirkjubrúðkaup þeirra var síðan haldið nokkru seinna í Plymouth, Englandi, 1953. Þar vorum við gestir og sáum til þess að brúðurin var leidd í faðm Gunnlaugs. Eftir heimkomu frá námi var okkur öllum sameiginlegt að hugsa um börnin og húsnæði. Svo vantaði bíl. Saman keyptum við sjö manna „limousine“ sem skipt var á milli vikulega. Á þennan hátt tókst okkur að fara saman um helgar í ferðalög, veiði, á skíði og þess háttar. Síðar komu frábærar skíðaferðir bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Aldrei munum við gleyma yndislegum stundum á ári hverju með Gunnlaugi og Ingu í bústað þeirra í Goðdal.

Þegar litið er yfir farinn veg erum við svo þakklát Gunnlaugi og Ingu fyrir alla þá ástúð, velvild og gleði sem við og börnin okkar höfum fengið að njóta í 60 ár.

Við biðjum almættið að blessa Gunnlaug og vernda Ingu Ingibjörgu, börn þeirra, tengdabörn og barnabörn.

Sigríður og Gunnar Bernhard.