Unnar Sæmundur Friðlaugsson (Sigurtryggvason) fæddist á Litlu-Völlum í Bárðardal 18. maí 1927. Hann lést á Vífilsstöðum 28. febrúar 2012.

Hann var sonur Friðlaugs Sigurtryggva Tómassonar, f. 3. júlí 1863 á Litlu-Völlum, d. 1. mars 1935, og seinni konu hans Sigríðar Daníelsdóttur, f. 16. janúar 1890 á Steinsstöðum í Skagafirði, d. 3. mars 1979. Systkini Sæmundar, börn Sigurtryggva og Sigríðar, eru: Sigurður Eyvald, f. 1916, látinn, Gísli, f. 1918, látinn, Tryggvi, f. 1919, látinn, Rannveig Elín, f. 1920, Valgerður, f. 1922, látin, Daníel, f. 1924, Ingimar Rósar, f. 1928, látinn, Baldvin, f. 1930, látinn, andvana stúlkubarn, f. 1935.

Sæmundur kvæntist 10. janúar 1952 Þuríði Guðmundsdóttur ljósmóður, f. 8. feb. 1929 á Efri-Steinsmýri Meðallandi, dáin 29. sept. 1975. Þau eignuðust sjö börn. 1) Sigríður húsmóðir, f. 8. apríl 1952, maki Eyþór Trausti Sigurðsson, búsett á Eyrarbakka, þeirra sonur er Sigmundur Unnar, maki Olga Hrafnsdóttir, dætur þeirra Salka, Embla og Myrra. 2) Emilía verslunarmaður, f. 1. júlí 1953, búsett í Reykjavík. Maki var Kristján Þorbjörnsson, þau skildu, börn þeirra eru a. Þuríður Björg, sambýlismaður Gottskálk Ágústsson, þeirra börn Ragnhildur Emilía og Þórður Ágúst. b. Kristjana Emma, sonur Arnar Freyr, sambýlismaður Sigurjón Björgvinsson. c. Heiðbrá Hrund, sonur Kristján Freyr, d. Sigurður Eyvald. 3) Heiðbrá hjúkrunarfræðingur, f. 3. sept. 1954, maki Þórður Þórðarson, búsett í Kópavogi, börn Þórunn og Þórður. 4) Tryggvi sjómaður, f. 4. des. 1955, búsettur í Grindavík, maki Steinunn Gestsdóttir, börn Tryggvi Þór, Daníel Gestur og Drífa Mjöll. 5) Unnur kennari, f. 25. mars 1957, maki Aðalsteinn Örnólfsson, búsett í Garðabæ, börn þeirra Hulda Þuríður og Tómas Freyr. 6) Kristófer lögreglumaður, f. 16. des. 1958, maki Þóra Valsdóttir, búsett í Kópavogi, þeirra dóttir Sigurbjörg Bára. 7) Guðmundur sjómaður, f. 12. mars 1960, maki Ingibjörg Jónsdóttir, búsett á Akranesi. Þeirra börn Lilja Dögg, Harpa Lind og Jón Unnar. Sonur Sæmundar og Dagbjartar Guðmundsdóttur er Guðmundur bílstjóri, f. 27. maí 1949, maki Kristín Sveinsdóttir, búsett í Kópavogi, börn þeirra: Kristján Geir, Unnar Þór, Brynjar Már og Sveindís Ósk, sem er látin. Seinni kona Sæmundar var Guðrún Jóhannsdóttir, f. 21. júní 1958, þau skildu, börn þeirra: 1) Davíð Brár, sonur Alexander Vilberg. 2) Hanna Sigga, dóttir Hafdís Alda.

Sæmundur ólst upp í Bárðardal við sveitastörf með foreldrum, systkinum og frændfólki á tvíbýli á Litluvöllum. Eftir andlát föður flytur hann á Bjarnastaði í Bárðardal og síðar í Mývatnssveit ásamt móður sinni og Ingimar, bróður sínum. Hann flytur eftir fermingu með Páli, þá bónda á Grænavatni í Mývatnssveit, að Hesti í Borgarfirði.

Um tvítugt flytur hann til Reykjavíkur og hefur störf hjá Sæmundi í Borgarnesi við akstur ferðamanna um sveitir landsins og hálendi, akstur hjá Strætisvögnum Reykjavíkur og Bifreiðastöðinni Hreyfli. Á Blönduósi starfar hann við hin ýmsu störf til starfsloka. Seinustu æviárin dvelur hann á Héraðshælinu á Blönduósi og seinustu mánuðina á Holtsbúð/Vífilsstöðum í Garðabæ.

Útför Unnars fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 9. mars 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku pabbi minn og afi okkar er farinn frá okkur.

Stóri, handsterki afi okkar sem við ólumst upp með frá því við vorum lítil. Hann hafði alltaf nóg fyrir stafni og var sjaldan á sama stað lengi. Hann bar út póstinn á Blönduósi og alltaf var jafngaman að hitta hann á götunum með pósttöskuna. Ef hann var ekki með pósttöskuna gangandi þá var hann keyrandi um götur bæjarins og sveitina. Við dáðumst að því hvað hann var duglegur, hann elskulegi afi okkar.

Það er skrítið að hafa hann ekki lengur hjá okkur, að geta ekki heimsótt hann lengur og segja honum frá deginum okkar og frá barnabörnunum hans. Og ekki fannst honum leiðinlegt þegar maður sagði honum sögur af litlu krílunum, prakkarastrikunum og hvað þau væru að flýta sér að stækka. Honum fannst skemmtilegt að fá alla í heimsókn, sérstaklega litlu krílin. Hann var svo glaður þegar þau settust í fangið hans og kysstu hann á kinnina, þá brosti hann blítt.

Það er alltaf erfitt að sjá á eftir þeim sem manni þykir vænt um, en efst er okkur þó í huga þakklæti fyrir þau ár sem við nutum samvista við afa okkar. Minningarnar ylja okkur um hjartarætur og gera kveðjustundina léttbærari.

Við söknum þín, afi okkar og pabbi minn. Við hugsum til þín og þú munt ávallt eiga sérstakan stað í okkar hjarta.

Hvert sem leiðin þín liggur

um lönd eða höf;

berðu sérhverjum sumar

og sólskin að gjöf.

Þín dóttir og barnabörn,

Emilía, Þuríður,

Kristjana, Heiðbrá og Sigurður.

Unnar Sæmundur var pabbi, tengdapabbi og afi. Það virðist ekki skipta máli hvað aldurinn segir til um, við andlát kemur söknuður og minningar skjóta upp kolli um liðna tíð. Þegar ég hugsa til pabba og lít til baka er hugurinn fullur af minningum, góðum minningum.

Minningin um pabba er að hann var heiðarlegur, reglusamur, duglegur og góður maður sem hugsaði um heilsu enda alla tíð verið hraustur. Göngur og útivera var eitthvað sem ekki mátti vera án. Hann var ekki auðugur að dauðum hlutum og sóttist ekki eftir að eignast þá. Þó var hann ríkur maður sem sýnir sig í afkomendum sem telja rúmlega 50 stykki í 10 börnum, 20 barnabörnum, 22 barnabarnabörnum. Það er ríkidæmi.

Minning úr uppeldinu er hve þú pabbi varst liðtækur á heimilinu, hvort sem var í eldhúsinu eða tiltektinni. Minning um hve gott var að fá lánað lærið þitt til að sitja á, sem oft var upptekið af tveimur eða fleirum sem þótti gott að sitja í fangi þínu. Minningin um það þegar þú komst heim af kvöldvakt og gafst þér tíma til að breiða sængina yfir börnin þín og bjóða okkur góða nótt, það eru góðar minningar.

Minningin um hvað þér þótti gott að vera einn en um leið að vera með fólkinu þínu. Oft varstu þrjóskur en samt eftirgefanlegur, þú nenntir ekkert að rífast um hlutina, „svona, svona“ sagðir þú, „hvaða læti eru þetta?“ Það var merki um að nú ættum við að hætta að þræta.

Minning um hve þér þótti landið okkar fagurt og að þú sóttist eftir að keyra um sveitirnar og að fara með fjölskylduna í ferðalag til að njóta fegurðar landsins og vera saman. Minning um að fara í Vatnsdalinn, keyra niður gömlu Kambana og fara í sveitina fyrir austan, fara í Landmannalaugar, jú eða upp í Heiðmörk, það eru ljúfar minningar.

Minningar um bíla sem voru í uppáhaldi og natnina sem fólst í því að þrífa og bóna bílinn, þó oft hafi heyrst óánægjutónn þegar við krakkarnir nenntum ekki að bíða meðan þú þvoðir og bónaðir, en minningin er ljúf.

Minning um að heyra einhvern segja: „Mikið er hann pabbi þinn myndarlegur maður.“ Þessa setningu fékk maður oft að heyra og varð ég þá svolítið montin yfir því að eiga svona flottan pabba, þó varstu bara pabbi. Þegar ég hugsa til baka þá er mikill sannleikur í þessari setningu sem maður heyrði svo oft, þú varst sannarlega myndarlegur maður, snyrtilegur og fallegur.

Ekki er langt síðan ég klippti hár þitt í síðasta sinn, þá þótti þér þú vera orðinn dálítið úfinn og það þótti þér ekki gott, svo brostir þú út að eyrum þegar þú leist í spegilinn, nýklipptur og vel greiddur, þá leið þér vel.

Minningarnar er miklu fleiri og jafn góðar en nú hefur þú skilað þínu dagsverki og komið að kveðjustund. Nú ertu kominn í annan heim þar sem þú hittir aftur mömmu og þið haldist hönd í hönd og horfið niður á krakkaskarann og brosið yfir hópinn ykkar, sem sannarlega er myndarleg arfleifð.

Takk fyrir allt, elsku pabbi minn, minningin um þig lifir. Guð geymi þig.

F.h. systkina,

Unnur Sæmundsdóttir.

Elsku tengdapabbi. Nú ertu farinn í þína hinstu ferð, þér leiddist nú ekki að ferðast, keyra um sveitir landsins, þar leið þér best, enda mikið náttúrubarn. Þú þurftir að sjá til fjalla enda alinn upp á milli fjalla í Bárðardalnum. Og á ég einmitt góða minningu þegar við fórum í sveitaferð. Við fórum dagsferð um sveitir Suðurlands, þú vísaðir veginn og sagðir sögur, stundum sagðir þú mér til við aksturinn enda gamall leigubílstjóri, strætóbílstjóri og vörubílstjóri. Við enduðum svo á Skógum og skoðuðum safnið og þar fékk ég góða leiðsögn. Lengsti tíminn fór þó í að skoða bílasafnið enda áhugamaður um bíla þar á ferð.

Sæmundur eignaðist 10 börn og var mjög stoltur af öllum sínum afkomendum, sem nú er orðinn stór hópur. Og komum við nú mörg saman um aðventuna og hafði Sæmundur gaman af og börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin eiga góðar minningar um þá samveru. Þú hafðir svo gaman af börnum, það var yndislegt að koma með litlu Hildi Þóru í heimsókn til þín, þú fékkst að halda á henni og þið skríktuð bæði jafnmikið.

Þú varst tilbúinn að yfirgefa þetta jarðríki og fara á vit nýrra ævintýra, á þann stað þar sem við öll hittumst að lokum. Ég veit að það verða fagnaðarfundir þegar þú hittir konuna þína hana Þuríði sem þú misstir fyrir 37 árum.

Kæri Sæmundur, megi Guð vera með þér. Þú varst okkur góður pabbi, afi og langafi. Takk fyrir allt og allt.

Þín tengdadóttir,

Þóra.

Í dag er jarðsunginn Unnar Sæmundur Sigurtryggvason frá Litlu-Völlum í Bárðardal. Sæmundur var einungis átta ára gamall þegar faðir hans lést, þá á 73. aldursári. Heimilið sundraðist að miklu leyti og fóru flest barna þeirra Sigurtryggva og Sigríðar til ættingja og vina. Unnar Sæmundur fór til frændfólks síns að Neslöndum í Mývatnssveit og síðar að Grænavatni, en flutti svo suður að Hesti í Borgarfirði og vann á tilraunabúinu. Þaðan lá leið hans suður til Reykjavíkur og hóf hann fljótlega akstur stætisvagna hjá SVR og starfaði þar um þrjátíu ára skeið. Margar voru þær ungu stúlkurnar í Reykjavík á þeim árum sem þekktu hann undir nafninu „Sæmundur sæti á Kleppshraðferðinni“. Það sagði mér móðursystir mín sem vel mundi eftir honum ungum og glæsilegum pilti. Eins og aðrir þingeyskir piltar, var honum tamt að glíma og stundaði hann þá íþrótt nokkuð áfram eftir að til Reykjavíkur kom. Hann keppti fyrst fyrir UMFR 1948 og var þá í þriðja sæti í flokkaglímu Reykjavíkur. Hann gekk síðar til liðs við KR og keppir fyrst fyrir félagið 1950. Þar vann hann sæmdarheitið glímukappi ársins árin 1951 og 1952 og ári síðar vann það Ingimar bróðir hans. Sæmundur var formaður Glímudeildar KR árið 1953. Hann kvæntist Þuríði Guðmundsdóttur ljósmóður 1951. Í þeim blundaði alltaf draumur um búskap og tók fjölskyldan sig upp eitt árið og flutti austur að Hlíð í Grafningi til að láta drauminnn rætast. En ekki fór það sem skyldi, rigningasumarið 1972 var erfitt til heyskapar og náðu þau litlum sem engum heyjum og var þá búskapnum sjálfhætt. Hann hóf aftur akstur hjá SVR, en þegar Þuríður svo veiktist alvarlega, var yngsta barnið rétt af fermingaraldri. Heimilið var stórt og aukavinnu þurfti til. Sæmundur vann ýmis störf meðfram akstrinum og var framkvæmdastjóri Sendibílastöðvarinnar hf. eitt árið.

Þegar ég kynnist Sæmundi 1978, var hann einnig bústjóri á Gunnarshólma við Suðurlandsveg. Þar sá hann um fé og hross. Í maí það ár flytjum við svo norður á Blönduós. Sæmundur átti systur þar sem hafði verið húsfreyja á fegursta bletti húnvetnskra lenda, sjálfum Vatnsdalnum. Emilía dóttir hans var þá einnig orðin tengdadóttir Ellu. Hann hafði því tvær ástæður til að vilja flytja norður. Það voru sterkar taugar á milli þeirra systkinanna og held ég að Sæmundur hafi í raun ekki verið minni Húnvetningur í sér, en Þingeyingur. Sveitin heillaði hann alltaf og losnaði hann aldrei fyllilega við þá bakteríu.

Frá öllum heimsins hörmum,

svo hægt í friðar örmum

þú hvílist hels við lín. –

Nú ertu af þeim borinn

hin allra síðstu sporin,

sem þér unnu og minnast þín.

(Einar Benediktsson) Ég vildi að ég kæmist suður að fylgja honum síðasta spölinn.

Elsku börnin mín, Davíð Brár og Hanna Sigga, eldri börn Sæmundar; Gummi, Sigga, Emma, Heiðbrá, Tryggvi, Unnur, Diddi, Gúndi, tengdabörn og barnabörnin öll. Ég sendi ykkur öllum mínar innilegustu samúðaróskir og bið algóðan guð að blessa minningu góðs manns og föður í hjörtum ykkar allra.

Guðrún Jóhannsdóttir.