Kristján Jónsson kjon@mbl.is Fjármagnstekjur hafa dregist mikið saman hjá ellilífeyrisþegum síðustu árin og er það ein ástæða þess að hlutfall aldraðra sem fá ýmsar bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins hefur hækkað.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Fjármagnstekjur hafa dregist mikið saman hjá ellilífeyrisþegum síðustu árin og er það ein ástæða þess að hlutfall aldraðra sem fá ýmsar bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins hefur hækkað. Þeim fjölgaði um 4,7% milli 2010 og 2011. Fjármagnstekjur voru að miklu leyti verðbætur og snarlækkuðu því þegar verðbólgan dvínaði eftir bankahrunið. Þeim sem fá sérstaka uppbót hefur fjölgað um liðlega 70%.

Grunnlífeyrir hefur frá 2009 verið skertur á móti lífeyristekjum og hafi menn yfir 346 þúsund á mánuði er skerðingin 100%. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að þótt breytingin 2009 hafi hjálpað mörgum séu slíkar ívilnanir varasamar. Þær séu tímabundnar en oft sé erfitt að vinda ofan af slíkum hlutum, þær dragi úr hvata til að greiða í lífeyrissjóði. TR er nú með innan við helming lífeyris á sinni könnu.

„Stjórnvöld falla þá í freistni, af því að það er núna tiltölulega ódýrt, að hjálpa þeim sem fá greiðslur frá TR, þeir eru hlutfallslega færri en áður,“ segir Hannes „Sjálfstætt lífeyriskerfi er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að stjórnvöld ákveði lífeyrisréttindin, þannig tryggjum við stöðugleika í kerfinu. Réttindin mega ekki fara bara eftir efnahagsástandinu eða forgangsröðun stjórnmálamanna hverju sinni.“

Hækkandi hlutfall aldraðra hjá TR 20