Komin saman Stjórnlagaráð á blaðamannafundi í fyrrasumar.
Komin saman Stjórnlagaráð á blaðamannafundi í fyrrasumar. — Morgunblaðið/Sigurgeir
Sigrún Rósa Björnsdóttir sigrunrosa@mbl.is Tuttugu fulltrúar Stjórnlagaráðs mættu til fundar ráðsins í gær til að fara yfir þær athugasemdir sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fól því að fara yfir.

Sigrún Rósa Björnsdóttir

sigrunrosa@mbl.is

Tuttugu fulltrúar Stjórnlagaráðs mættu til fundar ráðsins í gær til að fara yfir þær athugasemdir sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fól því að fara yfir. Nefndin mun svo funda með stjórnlagaráði í dag og fara yfir spurningar sem hafa vaknað við vinnuna, að sögn Þorsteins Fr. Sigurðssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra stjórnlagaráðs. Ari Teitsson, sem var varaformaður stjórnlagaráðs, tók við formennsku í gær af Salvöru Nordal sem er í útlöndum. Katrín Fjeldsted var kjörin varaformaður. Tuttugu og tveir fulltrúar höfðu boðað komu sína en Gísli Tryggvason og Örn Bárður Jónsson gátu ekki tekið þátt í gær. Þeir koma á fund ráðsins í dag.

Verkefni stjórnlagaráðsins er að fara yfir athugasemdalista stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Listanum var skipt efnislega niður á milli umræðuhópa sem eiga að forma svör við því efni sem farið er yfir.

Ná samstöðu um svör

„Allur hópurinn kemur svo saman til að ræða þau og ná samstöðu um svarið,“ segir Þorsteinn en efnislega sé um að ræða tíu meginatriði. Eitt þeirra snúi t.d. að því hvort kosningakaflinn eigi að vera ítarlegur í stjórnarskránni eða hvort það eigi einfaldlega að kveða á um hann í almennum lögum. Einnig sé komið inn á ákvæði um embætti forseta Íslands, auðlindaákvæði ofl.

Hópurinn hefur fjóra daga til verksins og segir Þorsteinn tímann verða vel nýttan. Spurður hvort það náist einhver efnisleg niðurstaða á þessum tíma, segir hann að það verði að svara þeim spurningum sem komu frá nefndinni.