<strong>Atkvæðamiklir</strong> Ólafur Hrafn Björnsson (92), Pétur Maack (90), Daniel Kolar (12), Robbie Sigurdsson (18) skoruðu allir fyrir SR í gærkvöldi.
Atkvæðamiklir Ólafur Hrafn Björnsson (92), Pétur Maack (90), Daniel Kolar (12), Robbie Sigurdsson (18) skoruðu allir fyrir SR í gærkvöldi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Egilshöll Kristján Jónsson kris@mbl.is Deildameistarar SR jöfnuðu metin 1:1 í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí í gærkvöldi.

Í Egilshöll

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Deildameistarar SR jöfnuðu metin 1:1 í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí í gærkvöldi. SR-ingar sóttu þá sigur á heimavöll Bjarnarins í Egilshöllinni 7:4 en vinna þarf þrjá leiki til þess að verða Íslandsmeistari. SR á heimaleikjaréttinn og fari svo að oddaleik þurfi til að ná fram úrslitum, þá mun hann fara fram í Laugardalnum. Þar verður jafnframt næsti leikur leikinn á laugardaginn.

SR byrjaði leikinn með látum og skoraði eftir einungis 50 sekúndur en Birkir Árnason, fyrirliði Bjarnarins, lét reka sig út af í tvær mínútur eftir örfáar sekúndur. SR nýtti sér það og Tékkinn Daniel Kolar skoraði en sá hefur verið afskaplega drjúgur í vetur. Meiri kraftur virtist vera í SR-ingum enda máttu þeir illa við því að tapa leiknum og leikmenn Bjarnarins virtist vanta það hugarfar sem þeir höfðu í fyrsta leiknum í rimmunni. Pétur Maack bætti við öðru marki fyrir SR strax á 8. mínútu og SR hafði forystu í leiknum allt frá fyrstu mínútu leiksins. Björninn komst næst því að jafna leikinn í stöðunni 1:0 þegar Birkir átti stangarskot. SR-ingar áttu einnig ófá stangarskotin í leiknum og sköpuðu sér á heildina litið mun fleiri dauðafæri en Björninn.

Sjöunda markið var lykilmark

Fyrsti leikhluti var mjög skemmtilegur en Ólafur Hrafn Björnsson minnkaði muninn á 14. mínútu en Kolar skoraði sitt annað mark þegar aðeins átta sekúndur voru eftir af leikhlutanum. Birninum tókst að hleypa spennu í leikinn á ný þegar Hjörtur Geir Björnsson skoraði eftir einstaklingsframtak á 24. mínútu. SR náði hins vegar alltaf að svara fyrir sig og fjórum mínútum síðar skoraði Robbie Sigurdsson. Staðan var 4:2 fyrir síðasta leikhlutann og þá var þetta eiginlega orðið spurning um hvorum megin næsta mark myndi lenda.

SR náði að skora næsta mark og þá var spennan nánast farin úr leiknum. Pétur Maack skoraði sitt annað mark á 42. mínútu en Birkir Árnason svaraði fyrir Björninn tveimur mínútum síðar og þá voru enn sextán mínútur eftir. Svavar Steinsen og Robbie Sigurdsson komu SR í 7:3 áður en Hjörtur Geir Björnsson minnkaði muninn undir lokin með sínu öðru marki. Robbie skoraði einnig sitt annað mark í leiknum en mark Svavars var snyrtilegt og kom eftir einleik fyrir framan mark Bjarnarins.

Liðin eru nú aftur komin á byrjunarreit. Staðan er aftur orðin jöfn og SR á fleiri heimaleiki eftir. SR lék án Gauta Þormóðssonar sem er meiddur en hann hefur verið lykilmaður í sóknarleik liðsins í mörg ár. Þrátt fyrir það tókst liðinu að skora sjö mörk enda ýmis vopn í vopnabúri SR. SR-ingar voru í basli með að nýta tækifærin þegar Björninn missti menn út af í tvær mínútur í fyrsta leiknum. Þeim tókst betur upp í þeim efnum í gærkvöldi. Björninn átti erfitt með að setja SR undir verulega pressu eftir að þeir lentu 2:4 undir og þeim tókst ekki að nýta hraða sóknarmanna sinna eins vel og í fyrsta leiknum.

Mörk/stoðsendingar Björninn : Hjörtur Geir Björnsson 2/0, Ólafur Hrafn Björnsson 1/0, Birkir Árnason 1/0, Birgir Jakob Hansen 0/2, Matthías Skjöldur Sigurðsson 0/1, Sergei Zak 0/1.

Mörk/stoðsendingar SR : Daniel Kolar 2/2, Pétur Maack 2/0, Robbie Sigurdsson 2/0, Svavar Steinsen 1/0, Egill Þormóðsson 0/2, Snorri Sigurbjörnsson 0/1, Steinar Páll Veigarsson 0/1, Björn Róbert Sigurðarson 0/1.

• Á mbl.is/sport er að finna myndbandsviðtöl við Úlfar Jón Andrésson úr Birninum og Pétur Maack úr SR.