Ljótu hálfvitarnir Ekki bara sætir heldur líka góðir á litla gítara.
Ljótu hálfvitarnir Ekki bara sætir heldur líka góðir á litla gítara. — Ljósmynd/Hjalti St. Kristjánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Strax í upphafi voru flestar reglur bragfræðinnar teknar föstum tökum og ákveðið að það tæki því ekki að yrkja á íslensku ef ekki væri eftir kúnstarinnar reglum.

Af hálfvitum

Hjalti St. Kristjánsson

hjaltistef@mbl.is

Tjah, Það er nú ekki mikið á manninn,“ heyrðist einn af markaðsmeisturum íslensks tónlistarlífs, Einar Bárðarson, segja þegar Ljótu hálfvitarnir stigu á svið á degi íslenskrar tónlistar árið 2008. Þessi þá hóflega þekkta hljómsveit hafði fyrst vakið athygli með sigri í sjómannalagakeppni Rásar 2 árinu áður og var óðum að sækja í sig veðrið. Fyrsta platan, samnefnd hljómsveitinni, leit dagsins ljós stuttu eftir sigurinn í sjómannalagakeppninni og var stóri smellurinn „Sonur hafsins“, sigurlagið sjálft.

Hljómsveitin var sett saman haustið 2006 eftir örfáar hrókeringar úr hljómsveitunum Ripp, Rapp og Garfunkel og Ljótu hálfvitunum. Í upphafi voru helstu yrkisefnin drykkja, bjór og stuð. Írskættaðir samsöngvar með trallköflum og öfgakendir pönkskotnir ofsapolkar voru einkennandi en þó mátti finna stöku ballöðu um ættingja og aðstandendur, vini og velunnara. Strax í upphafi voru flestar reglur bragfræðinnar teknar föstum tökum og ákveðið að það tæki því ekki að yrkja á íslensku ef ekki væri eftir kúnstarinnar reglum og þá voru línurnar lagðar. Það liggur í augum uppi að það er ekki til neins að leggja af stað með níu manna hljómsveit ef ekki eru allir tilbúnir að leggja jafnmikið á sig og ef á að fara af stað með hljómsveit sem ber sig þurfa allir að leggja sig 140% fram. Það er svo skemmst frá því að segja að þetta þrælsmall saman og vinsældir fyrstu plötunnar voru stoðir undir farsælt samstarf. Önnur platan, samnefnd hljómsveitinni, var svo gefin út tæpu ári eftir þá fyrstu. Og ekki minnkuðu vinsældirnar. Lagið „Lukkutroll“ sló rækilega í gegn enda frábær samsuða hnyttins texta og líflegs og skemmtilegs lags. Hálfvitarnir eyddu meira og minna öllu sumrinu í það að ferðast um landið og trylla lýðinn og jukust vinsældirnar eftir því. Þriðja platan, samnefnd hljómsveitinni, var svo gefin út réttu ári eftir plötu númer tvö. Þar mátti greina mun vandaðri lagasmíðar og stórbætta spilamennsku og þó svo að stuðið og tryllingurinn væru ekki í forgrunni var það kannski þörf þróun.

Ljótu hálfvitarnir tóku sér pásu fyrir rúmu einu og hálfu ári og sneru sér að öðrum verkefnum, Skálmöld og A band on stage sem dæmi. Var það þarft enda auðvelt fyrir litla þjóð að fá leiða á hljómsveit sem er jafndugleg að spila. Þeir eru hins vegar komnir saman aftur og ef dæma má af fyrstu tónleikunum sem fram fóru á Rósenberg um liðna helgi hafa þeir engu gleymt – ef eitthvað er orðnir miklu betri en þeir voru. Þeir ætla að eyða marsmánuði í að sýna sig og sjá aðra og verða nú um helgina á Græna hattinum og það ætti enginn að láta þá framhjá sér fara. Hafirðu ekki séð Ljótu hálfvitana á sviði skaltu drífa þig af stað. Annað væri tómur hálfvitaskapur.