Jens G. Helgason
Jens G. Helgason
Eftir Jens G. Helgason: "Nú þarf að vinna að endurreisn eftir rústastörf stjórnarinnar sem þykist bjóða upp á dýrasta brandara sögunnar „gegnsæ vinnubrögð og norræna velferð“."

Það vita flestir að Sjálfstæðisflokkurinn er og hefur verið leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum frá stofnun sinni 1929. Undir forystu sjálfstæðismanna hefur íslensk þjóð brotist út úr höftum, einangrun og fátækt til atvinnufrelsis, alþjóðlegrar samvinnu og aukins kaupmáttar fyrir launafólk. Sjálfstæðismenn skilja að forsendur hagvaxtar og farsældar verða aðeins leystar úr læðingi undir öflugri forystu sjálfstæðismanna.

Það þarf ekki nema að horfa á sundurlyndi og innbyrðis átök núverandi meirihluta til að sjá að þjóðinni er nú steypt þverhnípt niður á botninn. Það er orðið aðkallandi fyrir landsmenn að Sjálfstæðisflokkurinn komist í rikisstjórn til að snúa þessari öfugþróun við heildinni til heilla.

Í Sjálfstæðisflokknum eru um 50 þúsund flokksmenn úr öllum landshlutum og geirum samfélagsins sem hafa sameiginlega sýn á öfluga framtíð og úrlausn á ótal álögum sem núverandi meirihluti hefur lagt á allan almenning. Á landsfundi flokksins koma trúnaðarmenn flokksins saman og móta stefnuna sem forystan og þingflokkurinn vinna eftir á milli landsfunda.

Mikil undirbúningsvinna var lögð í skýrslu framtíðarnefndar flokksins sem fjölmargir flokksfélagar víðsvegar að af landinu komu að og lögðu til ákveðnar hugmyndir og breytingar á skipulagsreglum flokksins m.a. með kosningu 2. varaformanns. Eitt meginhlutverk hins nýja varaformanns er að halda utan um innra starf flokksins, en þar er mikið verk að vinna. Það þarf að ná til grasrótar flokksins um land allt, styrkja allt félagsstarf sjálfstæðisfélaga og fulltrúaráða vítt og breitt um landið. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér sem 2. varaformaður Sjálfstæðisflokksins til þess að sinna hinum almenna flokksmanni og vinna með öllum þeim mikla fjölda hæfileikafólks sem leiðir flokksstarfið vítt og breitt um Ísland.

Mikil orka hefur farið í skýrslugerðir og aðra pappírsvinnu en nú er komið að því að bretta upp ermar og láta verkin tala og ná til almennra flokksmanna, virkja og hvetja nýtt stuðningsfólk úr öllum stéttum til að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.

Framundan eru tvennar mikilvægar kosningar til Alþingis og sveitarstjórna. Prófkjör og val á fulltrúum til að leiða lista flokksins eru framundan og búast má við því að einhverjir lúti í lægra haldi í kosningum og enn aðrir komi nýir og þróttmiklir inn í kosningum. Við verðum núna að finna fjöldann allan af efnilegu og lífsreyndu fólki á öllum aldri sem er tilbúið til að vinna að endurreisn þjóðfélagsins eftir þriggja ára rústastörf vinstri stjórnarinnar sem þykist bjóða upp „gegnsæ vinnubrögð og norræna velferð“. Það er öllum ljóst að þetta er dýrasti brandari Íslandsögunnar.

Það verður aðalverkefni 2. varaformanns að fara út á meðal flokksmanna um land allt, þétta raðir þeirra, miðla málum þar sem vík hefur skapast á milli vina og byggja upp jákvætt, þróttmikið og gefandi flokksstarf.

Það hefur alltaf verið helsti styrkur okkar sjálfstæðismanna að í stefnu og starfi flokksins finna sjómaðurinn, bóndinn, skrifstofumaðurinn, kennarinn, fiskverkakonan, atvinnurekandinn og iðnaðarmaðurinn sameiginlegan vettvang til að berjast fyrir hugsjóninni um frelsi til athafna, orðs og æðis. Hver og einn á að njóta afraksturs svita síns andlits og frumkvæðis. Munum að Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur allra stétta. Til embættis 2. varaformanns er mikilvægt að velja einstakling sem hefur reynslu af störfum fyrir flokkinn, hefur sterka tengingu við hinn almenna flokksmann, þekkir vel undirstöðuatvinnuvegina og hefur reynslu, bakgrunn og þekkingu á atvinnulífinu umhverfis landið. Þess vegna ákvað ég að bjóða mig fram til 2. varaformanns til að starfa með og fyrir allt sjálfstæðisfólk á landinu okkar, Íslandi.

Höfundur er formaður bæjarráðs í Fjarðabyggð.