Stjórnarmenn Þorkell Sigurlaugsson, Auður Hallgrímsdóttir og Birna Einarsdóttir á fundi um betri stjórnarhætti í gær á Hilton Reykjavík Nordica.
Stjórnarmenn Þorkell Sigurlaugsson, Auður Hallgrímsdóttir og Birna Einarsdóttir á fundi um betri stjórnarhætti í gær á Hilton Reykjavík Nordica. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is 128 af 285 stærstu fyrirtækjum landsins eru með að lágmarki 40% hlut kvenna í stjórnum sínum án þess að nokkurt lagaboð hafi gert það að verkum.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

128 af 285 stærstu fyrirtækjum landsins eru með að lágmarki 40% hlut kvenna í stjórnum sínum án þess að nokkurt lagaboð hafi gert það að verkum. Þetta var eitt af því sem kom fram á mjög fjölmennum fundi sem mörg fagfélög í viðskiptum héldu í gær á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni: Fjölbreytni í forystu og góðir stjórnarhættir skipta máli .

Í september 2013 taka gildi ný lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns verði aldrei lægra en 40% í stjórnum fyrirtækja með 50 eða fleiri starfsmenn.

Þrátt fyrir að bæklingurinn sem var dreift, Stjórnarhættir fyrirtækja , byði upp á ýmis umræðuefni var mest talað um kynjakvótann.

Af mörgum ræðumönnum má meðal annars nefna Auði Hallgrímsdóttur, stjórnarformann Sameinaða lífeyrissjóðsins sem talaði um hrunið sem eitt dýrasta námskeið Íslandssögunnar. Fólk ætti að hafa lært af því að samfélagsleg ábyrgð skiptir máli og samfélagslega ábyrgar fjárfestingar skila á endanum mesta arðinum.

Birna Einarsdóttir, formaður SFF (Samtök fjármálafyrirtækja) og bankastjóri Íslandsbanka, talaði um góða stjórnarhætti og deildi með fundinum hvernig þau notuðust um þessar mundir við nýtt kerfi í bankanum þar sem farið væri í gegnum allar ákvarðanatökur starfsmanna þar og skoðað hvort ástæða væri til að fleiri kæmu að hverri ákvörðun eða ekki.

Hún talaði einnig um kynjakvótann og sagði að kannski hefðu hlutirnir ekki farið svona illa ef bankinn Lehman Brothers hefði frekar verið Lehman Sisters.

Hún sagðist ekki hafa verið fylgjandi kynjakvóta í fyrirtækjum þegar hún var ung og eina konan í stjórn fyrirtækis. Þegar hún væri nú orðin elst í þessari stjórn og enn eina konan væri hún orðin hlynnt kynjakvóta.

Konur nú flestar námsmanna

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, sagði aðra sögu enda eru 40% stjórnarmanna í því fyrirtæki konur. Hann sagði þetta val hafa orðið vegna verðleika fólksins og þurfti ekkert valdboð frá ríkinu til þess enda teldi hann tilmæli frá ríkisstjórninni vera heppilegri.

Hann talaði einnig um niðurstöður úr nokkrum rannsóknum Journal of Financial Economics sem sýndu að stjórnir með óháða stjórnarmenn eru líklegri til að reka forstjóra ef rekstur fyrirtækis gengur illa. Þær eru líka líklegri til að bera hag hluthafa fyrir brjósti þegar yfirtökutilboð berst. Rannsóknir sýndu einnig að ef óháðir stjórnarmenn sitja í of mörgum stjórnum þá hefur það neikvæð áhrif á virði félaganna sem þeir sitja í. Þá virtust fámennari stjórnir virka betur en fjölmennari.

Í lokin sneri hann sér aftur að umræðunni um kynjakvótann og sagði að ástæður þess að fleiri karlmenn væru í stjórn væru kannski eðlilegar enda hefðu karlmenn alltaf verið yfirgnæfandi meirihluti námsmanna í viðskiptafræðinni. Það hefði fyrst snúist um aldamótin, þannig að í framtíðinni munu karlmenn kannski þakka fyrir kynjakvótann.

Kynjakvóti fyrirtækja
» Lögin um kynjakvótann taka gildi í september 2013.
» Undir löggjöfina falla 285 fyrirtæki.
» Fjöldi fyrirtækja sem þegar uppfylla skilyrðin eða vantar aðeins eina konu upp á er 249.
» Aðeins eitt fyrirtæki þarf að bæta 3 konum við en 34 fyrirtæki vantar 2 konur í stjórn.