Listasmíð Frá námskeiði unglinga við Myndlistaskóla Reykjavíkur.
Listasmíð Frá námskeiði unglinga við Myndlistaskóla Reykjavíkur.
Myndlistarskólinn í Reykjavík stendur fyrir námskeiði fyrir ungmenni á aldrinum 16 til 18 ára sem eru án atvinnu og stunda ekki nám. Kallast námskeiðið Vorlaukar en kennt verður í mislöngum vinnutörnum á nokkrum vikum.

Myndlistarskólinn í Reykjavík stendur fyrir námskeiði fyrir ungmenni á aldrinum 16 til 18 ára sem eru án atvinnu og stunda ekki nám. Kallast námskeiðið Vorlaukar en kennt verður í mislöngum vinnutörnum á nokkrum vikum. Mikil áhersla verður lögð á sjálfstæð vinnubrögð og munu nemendur skila af sér verkefnum á netinu og vinna á skapandi hátt með netmiðla. Munu nemendur nýta sér þau tæki sem þeir hafa til umráða svo sem stafrænar myndavélar og síma og vinna með þeim ljósmyndir og vídeó ásamt því að vinna hópverkefni í spjallformi og texta. Áhersla verður lögð á að skoða þekkt umhverfi út frá mismunandi forsendum og sjá nýja möguleika í hversdagsleikanum.

Á námskeiðinu vinna þátttakendur bæði einstaklingsverkefni og hópverkefni. Í kennslustundum í Myndlistaskólanum í Reykjavík gera nemendur ýmsar verklegar æfingar og farið verður í vettvangsferðir. Í tímum eiga nemendur kost á einkaviðtölum þar sem verkefni hvers og eins verða þróuð frekar.

Nemendur þurfa ekki að hafa neinn bakgrunn í listum, einungis áhuga á skapandi vinnubrögðum. Verkefnið er styrkt af framtakinu Ódýrar frístundir á vegum Reykjavíkurborgar og er námskeiðið því ókeypis fyrir þátttakendur. Fyrsta vinnutörn hefst hinn 19. mars næstkomandi en nánari upplýsingar og skráning fer fram á vefsíðu skólans, myndlistaskolinn.is, eða í síma 551-1990.