<strong>Grannaslagur</strong> Páll Kristinsson sækir að körfu Keflvíkinga þar sem Jarryd Cole er til varnar.
Grannaslagur Páll Kristinsson sækir að körfu Keflvíkinga þar sem Jarryd Cole er til varnar. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Njarðvík Skúli B. Sigurðsson sport@mbl.is Loksins, loksins kom að því að nágrannarimma Reykjanesbæjarliðanna í úrvalsdeildinni í körfubolta stóð undir nafni, en gárungar eru byrjaðir að kalla leiki liðanna „El Clásico“.

Í Njarðvík

Skúli B. Sigurðsson

sport@mbl.is

Loksins, loksins kom að því að nágrannarimma Reykjanesbæjarliðanna í úrvalsdeildinni í körfubolta stóð undir nafni, en gárungar eru byrjaðir að kalla leiki liðanna „El Clásico“. Úrslit síðustu leikja milli þessara liða hafa nánast verið ráðin snemma í fjórða fjórðungi, jafnvel fyrr, en það kom að því að spennuleikur kæmi upp og það var svo sannarlega upp á teningnum í gær þegar liðin mættust í Ljónagryfjunni. Svo fór að Njarðvíkingar enduðu með 95:93 sigur eftir háspennu á síðustu sekúndum leiksins.

Augljóst markmið Njarðvíkinga að þessu sinni var að stöðva Magnús Þór Gunnarsson sem hefur verið driffjöðurin í leik Keflvíkinga í vetur. Í raun er hægt að tengja tapleiki liðsins í vetur við frammistöðu hans, svo mikilvægur er hann liði sínu og hefur í vetur verið að spila óhemjuvel fyrir lið sitt. Þetta kvöldið hreyfði hann sig varla án þess að Njarðvíkingur væri límdur við hann.

En við keflinu tók Arnar Freyr Jónsson sem er að koma sterkur til baka úr meiðslum. Hann spilaði sinn allra besta leik í vetur, lék á stundum Njarðvíkinga grátt með frábærri boltatækni og virðist vera að komast í fyrra form. Keflvíkingar virtust vera á góðri leið með að taka rothögg á Njarðvíkinga þegar hinn 16 ára Maciej Baginski kom svellkaldur af bekknum og smellti þremur þristum á örfáum mínútum.

Þetta gaf Njarðvíkingum sjálfstraustið sem þurfti til og stáltaugar á vítalínunni undir lok leiks tryggðu þeim svo loksins sigur. Keflvíkingar voru í dauðafæri að jafna leikinn þegar brotið var á Magnúsi Þór Gunnarssyni í þriggja stiga skoti með 2 sekúndur eftir á klukkunni. Líkast til fóru þjálfarar Njarðvíkur rækilega yfir það í leikhléinu á undan að brjóta alls ekki á leikmanni í þriggjastigaskoti, og hvað þá Magnúsi. En þetta var einfaldlega ekki kvöldið hans Magnúsar því þessi afbragðs vítaskytta klikkaði á fyrsta vítinu og þar með var björninn unninn.

Náðum góðu áhlaupi

Njarðvíkingar fóru með þessum sigri langt í land með að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Vegsama verður einnig Travis Holmes sem skilaði enn einum stórleiknum með 41 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar, geri aðrir betur.

„Þeir byrja leikinn betur en við náum góðu áhlaupi í seinni hálfleik og náum að klára þetta á lokasprettinum. Við vorum mjúkir á þá í fyrri leiknum í vetur og því þurftum við að mæta til leiks og spila líkamlega á þá tilbaka og vera sterkir fyrir. Nú þurfum við að taka Fjölni og koma okkur í úrslitakeppnina,“ sagði Elvar Már Friðriksson lafmóður eftir leik.

Fengum hárblásarann frá Sigga

Fyrirliði Keflvíkinga var daufur eftir leik og sagðist eiga betri minningar úr Keflavík en frá þessu kvöldi. „Við fengum hárblásarann frá Sigga þjálfara eftir leik eins og við áttum skilið. Við klúðrum þessu í seinni hálfleik og leyfðum þeim að komast inn í leikinn. Við ætluðum náttúrulega bara að gera það sem er búið að vera að æfa alla vikuna en það gekk ekki eftir. Þetta var skelfilegt hjá okkur,“ sagði Magnús Þór Gunnarsson eftir leik.