Íslenskum stjórnvöldum og ESB ber ekki saman um viðræðurnar

Íslensk stjórnvöld segjast vilja ljúka viðræðum við Evrópusambandið sem fyrst. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, hefur til að mynda talað á þennan veg upp á síðkastið eftir að þrýstingur hefur aukist á hann meðal eigin flokksmanna að hafa málið ekki hangandi yfir flokknum í næstu alþingiskosningum.

Þetta tal er líka viðbrögð við þeirri gagnrýni að þegar þingmenn voru þvingaðir til að samþykkja umsókn að Evrópusambandinu var því haldið fram að viðræður myndu ganga hratt fyrir sig og ferlinu ljúka á methraða. Þetta hefur augljóslega ekki gengið eftir og þá reyna stuðningsmenn umsóknarinnar að finna skýringar. Og þegar engar góðar finnast virðist vera að þær séu búnar til.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur haldið því fram að ástæða þess að viðræður um sjávarútvegsmál hefjast ekki sé að endurskoðun sé í gangi hjá Evrópusambandinu á sameiginlegu fiskveiðistefnunni. „Af þeim ástæðum er ESB ekki á þessu stigi í stakk búið að hefja viðræðurnar. Þannig að ég get ekki sagt til um það hvenær þær byrja,“ sagði Össur á nefndarfundi Alþingis í nóvember í fyrra.

Í sama streng tók Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, í viðtali við Morgunblaðið í febrúar sl. Hann sagði Ísland hafa lagt áherslu á að „erfiðu kaflarnir“ yrðu opnaðir sem fyrst en ESB hefði sitt verklag. Sambandið væri ekki tilbúið til að opna sjávarútvegskaflann að sinni vegna endurskoðunar á sjávarútvegsstefnu þess.

Morgunblaðið leitaði til Stefans Füle, stækkunarstjóra ESB, til að fá fram afstöðu sambandsins og þá reyndist hún allt önnur en íslensk stjórnvöld hafa lýst. Spurður að því hvort bíða þyrfti eftir að endurskoðun ESB á fiskveiðistefnunni lyki áður en hægt væri að hefja viðræður um sjávarútvegsmál í tengslum við umsókn Íslands sagði Füle: „Nei, við þurfum ekki að bíða eftir endurskoðun fiskveiðistefnu ESB.“

Skýrara gat það ekki verið, en þá stendur eftir spurningin um hver segir satt og hver ósatt. Íslensk stjórnvöld segjast vera að bíða eftir Evrópusambandinu, en sambandið segir að ekki standi á neinu sín megin.

Því miður fyrir Íslendinga verður að viðurkenna að hingað til hefur Evrópusambandið reynst sannsöglara um gang og eðli aðlögunarviðræðnanna en íslensk stjórnvöld. Auk þess hafa þau nú orðið ákveðið orðspor þegar kemur að sannleikanum, þannig að gera má ráð fyrir að þau segi einnig ósatt um þetta efni. En hvers vegna? Hvað fær íslensk stjórnvöld til að afvegaleiða í sífellu umræðuna hér á landi um aðlögunarviðræðurnar? Hvers vegna þola þessar viðræður ekki sannleikann?