Stundum heyrist að fjölmiðlafólk sé vægast sagt upptekið af sjálfu sér og þá sérstaklega fólk á ljósvakamiðlum.

Stundum heyrist að fjölmiðlafólk sé vægast sagt upptekið af sjálfu sér og þá sérstaklega fólk á ljósvakamiðlum. Hvað sem því líður tekur Víkverji eftir því að nokkrir fyrrverandi og núverandi starfsmenn sjónvarps og útvarps telja sig eiga erindi á Bessastaði og leyna því ekki að margar séu áskoranirnar um að þeir bjóði sig fram til embættis forseta Íslands. Sjálfsagt er þetta allt hið ágætasta fólk, þó Víkverji skilji ekki hvað til þess að gera nýskriðið fólk úr skóla getur stundum haft mikið sjálfsálit, en hann hefur reyndar ekki fundið fyrir þessum meinta þrýstingi því til stuðnings nema hjá öðru fjölmiðlafólki.

En sjónvarpsfólk er ekki aðeins upptekið af sjálfu sér. Talsmenn þess hafa réttilega bent á þröngsýnina að leyfa ekki beinar útsendingar frá landsdómsmálinu í Þjóðmenningarhúsinu, en til þessa talað fyrir daufum eyrum. Helstu rökin fyrir leyndinni eru sögð vera þau að beinar útsendingar trufli gang mála. Víkverji efast um að mönnum hafi dottið slík rök í hug þegar beinar útsendingar voru frá nýlegum réttarhöldum í Bandaríkjum vegna andláts poppgoðsins Michaels Jacksons, svo eitt dæmi af mörgum sé tekið, en stundum má ætla að Íslendingar búi enn í rafmagnslausum torfkofum sambandslausir við allt og alla.

Meðan ekki gefst tækifæri til þess að fylgjast með landsdómi í beinni verða landsmenn að sætta sig við að heyra skýringar fréttamanna á gangi mála. Þeir koma fram ábúðarmiklir í sjónvarpi, taka viðtal hver við annan og virðast bera byrði heimsins á herðum sér. Víkverji bíður spenntur eftir því að heyra hver verður fyrstur til þess að vekja athygli á því að vitni dagsins hafi verið með strípur í hárinu og litað hár að auki. Það gæti reynst viðkomandi dýrmætt veganesti og veitt honum forskot í kapphlaupinu um að komast á Bessastaði, þar sem reyndar fyrrverandi sjónvarpsmaður situr sem fastast.