„Mér finnst að eftir hrunið sé fólk miklu duglegra að fylgjast með miðunum sínum en áður,“ segir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár.

„Mér finnst að eftir hrunið sé fólk miklu duglegra að fylgjast með miðunum sínum en áður,“ segir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að síðasti stóri vinningurinn sem ekki var sóttur kom upp í lottói árið 2008, en hann var upp á 17 milljónir króna. Vinningurinn rann því ári síðar til starfsemi eigenda fyrirtækisins. Á síðasta ári greiddu lottó og víkingalottó samtals um 1.276 milljónir í vinninga.

Stefán segir að allra vinninga í getraunum sé vitjað, en í lottóleikjunum séu um 5% af smærri vinningum, þúsund króna og minni, ekki vitjað. Hann segir að fólk fylgist vel með og fyrirtækinu sé umhugað um að minna fólk á skoða miðana sína. Að auki spili stór hluti viðskiptavina á netinu og þar sé auðveldara að fylgjast með því hvort fólk sæki vinninga sína.

Á morgun, laugardag, verður lottóvinningurinn fjórfaldur og með marfgföldum vinningum eykst þátttaka. Stefán segir að fjöldi margfeldisvinninga sé í samræmi við reiknilíkan og fátt sem komi á óvart. Undantekningin frá reglunni sé þó ofurtalan sem ekki gekk út í rúmar 30 vikur í fyrra. Líkanið gerir ráð fyrir að hún sé dregin út á 6-8 vikna fresti.

Sú tala sem oftast hefur verið dregin út í íslenska lottóinu frá upphafi þess árið 1982 er talan 21, sem Ásdís Rán minnti rækilega á í sjónvarpsauglýsingum. aij@mbl.is