Bóndinn Ingveldur Guðmundsdóttir bregður sér í mörg hlutverk og segist hafa gaman af því að hafa nóg að gera.
Bóndinn Ingveldur Guðmundsdóttir bregður sér í mörg hlutverk og segist hafa gaman af því að hafa nóg að gera.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Hrognavertíð á Akranesi eykur annir hjá Ingveldi Guðmundsdóttur, sauðfjárbónda í Stórholti í Saurbæ og oddvita í sveitarstjórn Dalabyggðar. Hvernig þá? mætti spyrja.

Viðtal

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Hrognavertíð á Akranesi eykur annir hjá Ingveldi Guðmundsdóttur, sauðfjárbónda í Stórholti í Saurbæ og oddvita í sveitarstjórn Dalabyggðar. Hvernig þá? mætti spyrja. Jú, ástæðan er sú að Arnar Eysteinsson, bóndi hennar, heldur þá ásamt flokki Dalamanna til vinnu á Skaganum þar sem unnið er meðan þarf að vinna í 3-4 vikur.

Á meðan sinnir Ingveldur ein börnunum og búinu, auk þess að vera í starfi á heilsugæslunni í Búðardal og leiða störfin í sveitarstjórn.

„Það er sannarlega nóg að gera þessar vikur, en mér finnst gaman að hafa nóg að gera,“ segir Ingveldur. Suma dagana er hún komin í húsin, þar sem eru um 600 fjár, fyrir klukkan sex á morgnana og það kemur fyrir að hún líti til kindanna um eða eftir miðnætti. „Ég viðurkenni að saumaklúbbar og sjónvarpsgláp komast ekki að þessa dagana, prjónaskapurinn bíður betri tíma og venjuleg félagsstörf eru í lágmarki.“

Grípa vinnuna á Akranesi feginshendi

Fastur kjarni Dalamanna hefur í rúman áratug farið til vinnu við frystingu loðnuhrogna hjá HB Granda á Akranesi á hverjum vetri. Arnar heldur utan um þennan hóp og Ingveldur segist aðstoða hann við að skipuleggja vaktir og halda utan um tímafjölda. Þá sé gott að geta haft samskipti á netinu og unnið á tölvunni.

Unglingar úr Dölum, Borgarfirði og Snæfellsnesi sem sóttu nám í Fjölbrautaskólanum á Akranesi hafa gjarnan fengið nokkrar vaktir í törninni. Nú eru mörg þessara ungmenna komin á þrítugsaldur og sum hafa lokið háskólanámi, en grípa vinnuna á Akranesi feginshendi og taka þátt í törninni á Akranesi. Þeirra á meðal eru eldri börn Ingveldar og Arnars, þau Kristján Ingi og Ásdís Helga.

„Þarna er unnið allan sólarhringinn ef því er að skipta, en svo koma brælur og þá getur fólkið stundum slakað á,“ segir Ingveldur. „Þetta er ekki ósvipað og var í gamla daga þegar fólk fór á vertíðir fjórðunga á milli. Það geta allir notað peningana sem svona vinna gefur af sér.“

Í humátt á eftir skólabílnum

Dagurinn hjá Ingveldi í Stórholti byrjar oft á því að hún kemur við í fjárhúsunum, en síðan er að gera synina tvo klára í skólabílinn. Þeir Steinþór Logi og Albert Hugi eru átta og þrettán ára gamlir og eru sóttir upp úr klukkan hálfátta. Grunnskólinn er núna í Búðardal og þangað eru um 40 kílómetrar frá Stórholti. Ingveldur keyrir nokkru síðar í humátt á eftir þeim og er komin til vinnu á heilsugæslunni klukkan 9 og vinnur þar til klukkan 16.

„Oddvitastörfunum sinni ég á milli, stundum hleyp ég yfir á skrifstofu sveitarfélagsins og hádegin geta verið drjúg,“ segir Ingveldur. „Í þessu eins og öðru er mismikið að gera og þegar um ákveðna fundi er að ræða er hægt að skipuleggja sig. Stundum kem ég þó ekki heim fyrr en um kvöldmat og þá hef ég verið í símasambandi við strákana og svo er ekki langt á milli bæja. Þá er eftir að sinna heimilinu og líta í fjárhúsin, en gjafagrindur sem við erum með auðvelda störfin þar.“

Reikna má með að loðnuvertíð ljúki eftir viku til tíu daga og þá bíða Arnars ýmis verkefni heima í Stórholti. Auk þess að gera upp loðnutörnina þarf að rýja féð og svo styttist í sauðburð þannig að hvert verkefnið rekur annað hjá þeim hjónum.

Átta nýir Dalamenn

Hún segir að mannfjöldi hafi nokkurn veginn staðið í stað í Dalabyggð síðustu ár, en þar búa um 700 manns.

„Hér eins og annars staðar í sveitum landsins mætti vera meira af ungu fólki, en það er einstakt gleðiefni að útlit er fyrir fjölgun og að fyrir mitt þetta ár hafi átta Dalabörn fæðst hér á árinu,“ segir Ingveldur.

MARGVÍSLEG VERKEFNI

Átta skólabílar á ferðinni

Sem oddviti þarf Ingveldur að fjalla um ýmis mál sveitarfélagsins og oddvitastarfið kallar auk þess á margvíslegar nefndarsetur. Þar er uppbygging búnaðarskólans í Ólafsdal ofarlega í huga hennar.

Ingveldur segir verkefnin í Dalabyggð sjálfsagt svipuð og hjá öðrum sveitarfélögum, en nefnir samgöngumál sérstaklega. „Við höfum lengi barist fyrir betri vegum um Laxárdalsheiði og betri tengingu við Snæfellsnes um Skógarströnd og eins þyrfti að lagfæra vegi innan sveitarfélagsins. Hér er gífurlegur skólaakstur og ekki færri en átta skólabílar sem koma að því verkefni.“