Orka Deilt er um sölu eigna REI.
Orka Deilt er um sölu eigna REI.
Innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar og borgarlögmaður munu fara yfir söluferli vegna eignarhluta Orkuveitu Reykjavíkur í Enex Kína og Envent Holding.

Innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar og borgarlögmaður munu fara yfir söluferli vegna eignarhluta Orkuveitu Reykjavíkur í Enex Kína og Envent Holding. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óskuðu formlega eftir úttektinni á fundi borgarráðs í gær.

Í svari við fyrirspurn fulltrúa minnihlutans lagði Jón Gnarr borgarstjóri til að forsvarsmenn fyrirtækisins yrðu kallaðir á fund borgarráðs til að kynna sölu eignanna. Í kjölfar þess yrði ákveðið hvort ástæða væri til að skoða málið betur. Minnihlutinn lagði eigi að síður fram ósk sína um úttekt, eins og hann á rétt á, og fer hún fram. S. Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra, telur eigi að síður að forsvarsmenn fyrirtækisins muni kynna sjónarmið sín í borgarráði á næstunni.

Verja eigin gjörðir

Minnihlutinn gagnrýnir það að eignir Orkuveitunnar hafi verið seldar án auglýsingar og eðlilegra upplýsinga til stjórnarmanna í OR. Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, segir að viðbrögð meirihlutans og stjórnenda Orkuveitunnar komi á óvart. Þeir reyni að réttlæta gjörðir sínar í stað þess að viðurkenna mistök. „Við teljum að meirihlutinn sé ekki að standa vörð um hagsmuni almennings heldur verja gjörðir stjórnenda fyrirtækisins,“ segir Hanna Birna. Hún vekur athygli á því að sömu starfsmenn Orkuveitunnar fari fyrir því að réttlæta og rökstyðja ákvörðunina og tóku hana og framkvæmdu sem stjórnarmenn í dótturfélagi OR. „Við teljum mikilvægt að fá álit þriðja aðila en fólkið sé ekki að gefa eigin störfum einkunn,“ segir hún.

S. Björn segir að greinargóð svör hafi fengist frá Orkuveitunni um þetta mál. Þeir telji að sala eignanna hafi verið farsæl lausn og meirihlutinn hafi enga ástæðu til að rengja það. Í yfirlýsingu frá Haraldi Flosa Tryggvasyni, stjórnarformanni OR, kom fram að salan hafi verið samþykkt af fyrri stjórnendum, fyrir tveimur árum. helgi@mbl.is