Nýtt Ísland var mörgum hugleikið eftir bankahrunið. Þessi nýja, hreina og tæra uppfærsla skyldi rísa úr rústum hins gamla og gjörspillta lands.

Nýtt Ísland var mörgum hugleikið eftir bankahrunið. Þessi nýja, hreina og tæra uppfærsla skyldi rísa úr rústum hins gamla og gjörspillta lands. Allir í sauðalitina, endurvekja átti huggulegar heimsóknir á síðkvöldum; enginn hafði lengur efni á að fara á jólahlaðborð í Köben. Gott ef einhver lagði ekki til að stórfjölskyldur myndu sameinast um trillukaup og skrapa saman fyrir pungaprófi handa hraustum fjölskyldumeðlimi, sem síðan skyldi sendur á skak.

Siginn fiskur í hvert mál og parmesanostur og dádýrslundir kvödd með trega. Félagsfræðingar spáðu aukinni almennri góðmennsku landsmanna. Það yrðu nefnilega allir svo jafnir eftir hrunið að neikvæðar tilfinningar eins og öfundsýki og illgirni í garð náungans myndu þurrkast út.

Svo sögðu uppeldisfræðingar að þetta bankahrun væri kannski bara besta mál. Fólk gæti þá kannski farið að vera meira með börnunum sínum.

Þetta og margt annað forvitnilegt kemur í ljós þegar þriggja og hálfs árs gömul dagblöð eru skoðuð. Mikið er maður fljótur að gleyma, eða hver man annars eftir því að gengi íslensku krónunnar var sagt vera lægra en gjaldmiðilsins í Simbabve? Man einhver eftir tillögu Steingríms J. Sigfússonar um að læsa forystumenn stjórnmálanna, fjármálalífsins, verkalýðs og atvinnurekenda og annarra mikilvægra heildarsamtaka inni í Höfða, þar til „þetta mesta örlagaverkefni í sögu þjóðarinnar“ væri leyst? Sem betur fer tók enginn mark á honum, líklega væri vesalings fólkið þarna ennþá.

En það var ekki bara talað um að daglegur lífsstíll almennings tæki breytingum, heldur varð stjórnmálamönnum tíðrætt um að nú yrði upp tekið gagnsæi, gagnrýn hugsun og heiðarleiki.

Já, og svo átti að líka sækja menn til saka fyrir að hafa komið okkur á kaldan klaka. Ekki er hægt að kvarta yfir skorti á efndum þar, því þessa dagana er fyrrverandi forsætisráðherra fyrir Landsdómi, ákærður um að hafa borið ábyrgð á hruninu, einn manna. Þjóðin fær ekki einu sinni að fylgjast almennilega með réttarhöldunum og verður að treysta á lýsingar blaðamanna sem sitja á eldhússtólum með fartölvur í fangi og skrifa eins og óðir væru (þ.e.a.s. þeir sem eru svo heppnir að fá sæti í dómssalnum). Þetta er uppgjörið. Gjörið þið svo vel.

Engum datt þó í hug á þessum örlagatímum í október 2008 að spá því að þingmaður myndi rúmum þremur árum síðar útskýra fólskulega og lífshættulega árás á blásaklausan mann, sem var að sinna starfi sínu, með þjóðfélagsástandinu. Að setja slíkt ofbeldi í samhengi við þjóðfélagsaðstæður er því miður dæmi um þau öngstræti sem trausti rúnir stjórnmálamenn álpast í.

Er þetta Íslandið nýja? Sé svo, er nokkur furða að fólk skuli flýja land unnvörpum? Muldrandi út í annað kveðjuorðin: Ísland, nei takk. annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir