Vitni Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, dró upp nokkuð dökka mynd af Fjármálaeftirlitinu eins og það blasti við honum þegar hann tók við sem forstjóri 2005.
Vitni Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, dró upp nokkuð dökka mynd af Fjármálaeftirlitinu eins og það blasti við honum þegar hann tók við sem forstjóri 2005. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samantekt Egill Ólafsson egol@mbl.is Jónas Fr.

Samantekt

Egill Ólafsson

egol@mbl.is

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að þó að allir hefðu gert sér grein fyrir að bankarnir ættu við lausafjárvanda að stríða á árinu 2008 hefði hann ekki átt von á að alvarlega reyndi á hvort bankarnir gætu fjármagnað sig fyrr en vorið 2009 en þá voru stórir gjalddagar hjá bönkunum. Haustið 2008 hefði hins vegar skollið á alþjóðleg bankakreppa og bankar um allan heim hefðu fallið í kjölfarið.

Jónas kom fyrir sem vitni í málinu gegn Geir H. Haarde í Landsdómi í gær. Það var nokkuð dökk mynd sem hann dró upp af Fjármálaeftirlitinu eins og það blasti við honum þegar hann tók við sem forstjóri 2005. Aðeins 35 manns hefðu starfað hjá stofnuninni, starfsmannavelta verið geysileg og upplýsingakerfið lélegt. Sú hugsun hefði flögrað að sér að forða sér, en hann hefði valið þann kost að takast á við að byggja stofnunina upp. Hann hefði lagt áherslu á að efla upplýsingakerfið, en eftir á að hyggja hefði stofnunin ekki vaxið nægilega hratt. Búið hefði verið að efla hana verulega á árinu 2008, en hann benti á að í dag störfuðu mun fleiri hjá FME en fyrir hrun.

Vissi um gjaldeyrisskiptasamninginn

Jónas sagði að framan af ári 2008 hefði hann átt einn fund með Geir H. Haarde. Fundirnir urðu síðan tíðari eftir að bankarnir féllu um haustið.

Fundurinn með Geir var í mars 2008, en Geir var þá á leið til útlanda til að halda erindi um stöðu bankanna. Á fundinum fullvissaði Jónas Geir um að hann treysti upplýsingum bankanna og að staða þeirra væri traust en setti þó þann fyrirvara að bankarnir gætu verið að leyna upplýsingum með glæpsamlegum hætti.

Markús Sigurbjörnsson, dómsstjóri Landsdóms, spurði Jónas um gjaldeyrisskiptasamning við norrænu seðlabankana og samkomulag stjórnvalda í tengslum við það. Hann sagði að samkvæmt samkomulaginu hefði FME tekið að sér ákveðin verkefni og spurði hvort hann hefði ekki vitað af þessu samkomulagi. Jónas sagði að Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóri, hefði hringt í sig og spurt sig hvort ekki væri óhætt að setja inn í þetta samkomulag að FME myndi vinna að því að minnka bankakerfið. Jónas samþykkti þetta enda væri það í samræmi við það sem menn væru að vinna að. Hann sagði hins vegar að hann hefði ekki fengið sjálfan samninginn enda var hann gerður milli seðlabankanna.

Jónas sagðist hafa verið óánægður með að viðlagaæfing gegn fjármálaáfalli var stöðvuð, en æfingin átti sér stað í september 2007. Andri Árnason, verjandi Geirs, spurði Jónas um mat hans á því hvort stjórnvöld hefðu getað gert eitthvað meira til að búa sig undir fjármálaáfall. Jónas sagðist ekki telja að þörf hefði verið á fleiri skýrslum eða að draga hefði þurft upp fleiri sviðsmyndir. Aðalatriðið hefði verið að sjá fyrir sér stóru myndina og hvernig hugsanlegt fjármálaáfall myndi birtast.

Andri spurði Jónas hvaða þýðingu það hefði haft að reyna að ákveða fyrirfram hvað hefði átt að setja mikla peninga í einstaka banka ef þeir tækju að falla. Hann vitnaði í orð Baldurs Guðlaugssonar fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis þar sem hann talaði um að slíkt væri eins og að leggja krossapróf fyrir stjórnvöld.

Jónas sagðist vera þeirrar skoðunar að það hefði verið gagnlegt fyrir stjórnvöld að nálgast erfiðar spurningar og reyna að svara þeim.

Krónan var ákveðið vandamál

Jón Þór Sturluson, fyrrverandi aðstoðarmaður Björgvins G. Sigurðssonar, sagði í Landsdómi að það hefði að sínu áliti hjálpað bönkunum ef Ísland hefði orðið hluti af stærra myntsvæði. Hann hefði lagt það til á árinu 2008.

Jón Þór sagði að eitt af vandamálum íslensku bankanna fyrir hrun hefði verið hve eigið fé þeirra var sveiflukennt í takt við gengi íslensku krónunnar. Það hefði því verið gagnlegt að heimila þeim að gera upp reikninga sína í erlendri mynt.

Jón Þór fór ásamt Björgvini G. Sigurðssyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra og fleirum til fundar við Alistair Darling, þáverandi fjármálaráðherra Bretlands, í september 2008. Fundarefnið var Icesave-reikningar Landsbankans og möguleikar á að flytja þá í dótturfélag. Jón Þór sagði að sér virtist sem Darling hefði ekki hlustað á Íslendingana á fundinum. Viðbrögð hans hefðu verið sérkennileg. Jón Þór sagðist hafa haft á tilfinningu að Darling væri með hugann við vandamál sem voru að hrannast upp heima fyrir. Bretar hefðu aukið kröfur sínar í málinu þegar kom fram á sumarið og haustið 2008.

Jón Þór sagði að íslensk stjórnvöld hefðu verið í þröngri stöðu og gæta hefði þurft að því að aðgerðir stjórnvalda á þessum tíma hefðu getað verið skaðlegar fyrir bankakerfið. Ákveðið hefði verið að vandlega athuguðu máli að grípa ekki til aðgerða.

Jóhanna og Össur koma fyrir Landsdóm í dag

Vitnalisti dagsins í dag, á fimmta degi Landsdómsmálsins, er sá lengsti hingað til. Alls eru 13 einstaklingar boðaðir fyrir dóminn í dag. Meðal þeirra eru Jóhanna Sigurðardóttir, sem var félagsmálaráðherra í október 2008, og Össur Skarphéðinsson, sem var iðnaðarráðherra á þeim tíma.

Vitnalistinn er þessi:

09.00 Sigurður Sturla Pálsson, fv. settur framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands.

09.30 Tryggvi Þór Herbertsson, fv. efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Íslands.

10.15 Vilhelm Már Þorsteinsson, fv. forstöðumaður fjárstýringar Glitnis.

11.00 Heimir V. Haraldsson, fv. nefndarmaður í skilanefnd Glitnis.

11.20 Jóhannes Rúnar Jóhannsson, fv. nefndarmaður í slitastjórn Kaupþings.

11.40 Jón Guðni Ómarsson, fv. starfsmaður Glitnis.

13.00 Kristján Óskarsson, fv. starfsmaður Glitnis og starfsmaður skilanefndar Glitnis.

13.20 Lárentsínus Kristjánsson, fv. formaður skilanefndar Landsbankans.

13.50 Vignir Rafn Gíslason, löggiltur endurskoðandi PWC.

14.00 Kristján Andri Stefánsson, fv. skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.

14.15 Sylvía Kristín Ólafsdóttir, fv. forstöðumaður viðbúnaðardeildar á fjármálasviði Seðlabanka Íslands(símaskýrsla).

15:00 Össur Skarphéðinsson.

15:40 Jóhanna Sigurðardóttir.

Fullyrðir að Kaupþing hefði staðist kröfur fjármálaeftirlits annarra ríkja

• Fv. forstjóri Kaupþings vísar því á bug að eignasafnið hafi verið of veikt fyrir flutning bankans

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Forystumenn Kaupþings töldu sig hafa fundið leið til að koma bankanum í var snemma árs 2008 en þegar stjórnvöld settu neyðarlögin varð það bankanum um megn og hann fór í þrot þrátt fyrir um margt góða eiginfjárstöðu.

Á þennan veg má draga saman sýn Hreiðars Más Sigurðssonar, fv. forstjóra Kaupþings, á stöðu bankans á árinu 2008 er hann svaraði spurningum við skýrslugjöf í málinu á hendur Geir H. Haarde fyrir Landsdómi í gær.

Meðal ákæruatriða á hendur Geir er meint vanræksla við að grípa til aðgerða til að minnka bankakerfið og snerist fyrsti hluti spurninga Helga Magnúsar Gunnarssonar varasaksóknara um aðdragandann að falli Kaupþings og hvort Hreiðar Már mæti það svo að svigrúm hefði verið til að minnka umsvifin og flytja hluta starfseminnar úr landi.

Undirbjuggu flutning bankans

Hreiðar Már rifjaði þá upp hraðan vöxt bankans og hvernig hann hefði tvöfaldað efnahagsreikninginn á árunum þegar hann tók yfir FIH í Danmörku og Singer & Friedlander í Bretlandi. „Sjónarmið okkar var að við myndum eflast og styrkjast með því að vaxa, að vera ekki háð litla Íslandi. Ég held að þessu hafi almennt verið vel tekið af stjórnvöldum,“ sagði Hreiðar Már og lýsti því hvernig ástandið á mörkuðum hefði svo tekið að versna 2007. Bankinn hefði brugðist við því með því að draga úr útlánum á 3. og 4. fjórðungi sama árs og með því að hefja söfnun innlána á Kaupthing Edge reikninga erlendis.

Kaupþing hefði jafnframt smíðað aðgerðaáætlun sem hann vísaði til sem „Project Hans“, eða „Aðgerð Hans“, um flutning starfseminnar úr landi; annars vegar starfsemi bankans á Norðurlöndum undir dótturbankann FIH í Danmörku og hins vegar aðra alþjóðlega starfsemi undir dótturbankann Singer & Friedlander.

Samhliða þessu hefði Kaupþing smíðað aðra aðgerðaáætlun, „Project Einar“, eða „Aðgerð Einar“, um flutning höfuðstöðva bankans til erlendrar borgar. Sex borgir komu til greina og kom London best út. Helgi Magnús spurði Hreiðar Má þá hvaða áhrif „Project Hans“ hefði haft á getu íslenskra stjórnvalda til að styðja við íslenska bankakerfið í heild sinni. „Það hefði þýtt að við hefðum fært eignir úr móðurfélaginu. Og með þeim hætti hefði móðurfélagið staðið í skilum við sínar skuldabréfaeigendur og móðurfélagið minnkað,“ sagði Hreiðar Már.

Hefðu átt að flytja fyrr

Helgi Magnús setti áformin í samhengi við slæmar horfur á mörkuðum og spurði hvers vegna undirbúningur að þessum flutningi hefði ekki hafist fyrr. „Við hefðum átt að byrja fyrr. Það er alveg ljóst,“ sagði Hreiðar Már.

Spurði Helgi Magnús þá hvort Hreiðar Már liti svo á að erlend fjármálaeftirlit hefðu samþykkt flutninginn og bætti því svo við hvort ekkert í eignasafninu hefði komið í veg fyrir slíka tilfærslu, þ.e. hvort í eignasafninu hefðu verið lakar eignir sem hefðu stöðvað áformin.

Vísaði Hreiðar Már síðari hluta spurningarinnar afdráttarlaust á bug og lýsti því yfir að hann teldi fullvíst að fjármálaeftirlitin í Danmörku og Bretlandi hefðu fallist á áformin.

Hreiðar Már hækkaði svo róminn og sagði sér „blöskra“ vitnisburðir þeirra Davíðs Oddssonar, fv. seðlabankastjóra og ritstjóra Morgunblaðsins, og Arnórs Sighvatssonar, fv. aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands. Sú greining þeirra að bankakerfið hefði rambað á barmi þrots talsvert fyrir hrun ætti ekki við þegar Kaupþing væri annars vegar. Til marks um sterka eiginfjárstöðu bankans væri að tekist hefði að greiða 80% af kröfum til kröfuhafa.

„[Þ]að eru ekki margir alþjóðlegir bankar sem hefðu gert það... að vitna til Kaupþings sem vonds banka er rangt,“ sagði Hreiðar Már ákveðinn og kom bankanum til varnar.

Hann rökstuddi svo mál sitt frekar með því að fullyrða að neyðarlögin hefðu stefnt Kaupþingi í þrot þrátt fyrir góða eiginfjárstöðu, enda hefði starfseminni verið sjálfhætt með mismunum kröfuhafa í lögunum. „Við töldum okkur vera búnir að finna leiðina fyrir Kaupþing út úr þessari krísu,“ sagði hann.

SKÝRSLA FYRRVERANDI STJÓRNARFORMANNS GLITNIS

Unnu að því að minnka bankann

„Eftir að ég kom í bankann var það mín skoðun að draga þyrfti úr kostnaði við rekstur bankans,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, fv. stjórnarformaður Glitnis, í vitnaleiðslu fyrir Landsdómi í gær og tiltók hvernig gripið hefði verið til uppsagna og unnið að undirbúningi að sölu eigna.

Helgi Magnús Gunnarsson varasaksóknari spurði Þorstein Má hvort hann hefði orðið var við utanaðkomandi þrýsting um að minnka bankann.

Sagði Þorsteinn Már þá að það hefði ekki verið „þrýstingur frá einum eða neinum um þau mál“ og fullyrti svo að „unnið hafi verið að því af heilindum af stjórn bankans“ að rifa seglin og minnka umsvifin á árinu 2008.

Helgi Magnús spurði því næst um fund Þorsteins Más með Tryggva Þór Herbertssyni, þáverandi efnahagsráðgjafa Geirs H. Haarde forsætisráðherra. Kvaðst Þorsteinn Már þá muna eftir fundinum sem Björgólfur Guðmundsson hefði einnig setið. Rætt hefði verið um að kostnaður við íslenska bankakerfið hefði verið of hár en Landsbankamenn tekið fálega í hugmyndir um sameiningu.

Stjórnvöld vel búin undir að takast á við hrunið

• Neyðarlögin voru endanlega tilbúin helgina fyrir hrun

Hjörtur J. Guðmundsson

hjorturj@mbl.is

Fram kom í máli Jónínu S. Lárusdóttur, fyrrverandi ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins, fyrir Landsdómi í gær að hún hefði orðið fyrir áfalli vegna stöðu fjármálakerfisins þegar hún kom aftur til starfa í ágúst 2008 að loknu fæðingarorlofi. Hún hafði þá verið frá störfum frá því í desember árið á undan. Staðan hefði þá verið orðin mun verri en hún hefði gert sér í hugarlund.

Jónína átti sæti í samráðshópnum sem myndaður hafði verið vegna stöðunnar í fjármálalífinu en hún sat hins vegar aðeins einn fund í hópnum áður en hún fór í leyfi. Hún sagðist ekki alltaf hafa verið sátt við það hvernig vinnunni í hópnum var stjórnað en það hefði þó ekki verið vegna skorts á pólitískri stefnumótun. Allir í hópnum hefðu engu að síður verið að vinna af heilindum að hennar mati.

Ráðherrann upplýstur

Jónína sagði að engin viðbúnaðaráætlun hefði verið til á pappír en undirbúningsvinnan í samráðshópnum hefði þýtt að nægar upplýsingar lágu fyrir þegar bankahrunið varð til þess að leggja mat á stöðuna. Hún sagði neyðarlögin hafa verið endanlega tilbúin helgina fyrir hrun en þau hafi byggst á vinnu nokkurra hópa. Þá sagðist hún hafa haldið Björgvini G. Sigurðssyni, þáverandi viðskiptaráðherra og yfirmanni sínum, upplýstum um stöðuna innan samráðshópsins. Ennfremur sagðist hún ekki hafa talið valdheimildir til annars en að beita bankana þrýstingi.

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, sagðist aðspurður fyrir Landsdómi ekki kannast við að þrýstingur hefði verið frá stjórnvöldum um að minnka umfang bankanna en á hinn bóginn hefðu slíkar hugmyndir ekki komið inn á borð samtakanna. Hefðu stjórnvöld viljað minnka umfang bankanna hefðu þau væntanlega talað beint við forsvarsmenn þeirra.

Guðjón sagði umfjöllun um bankana hafa verið mjög neikvæða. Þá ekki síst af hálfu keppinauta þeirra erlendis.

Norræn samvinna kom sér vel

Samkvæmt framburði Rúnars Guðmundssonar, sviðsstjóra vátryggingasviðs Fjármálaeftirlitsins, skipti þátttaka stofnunarinnar í norrænni viðbúnaðaráætlun á árunum 2006-2007 sköpum þegar hrunið varð. Settar voru á svið ýmsar aðstæður sem gætu komið upp og kom ýmislegt í ljós við það sem betur mætti fara. Þessar æfingar voru hins vegar ekki kláraðar en það mundi hafa komið sér vel.

Þá sagði hann að skrifleg viðbragðsáætlun hefði ekki legið fyrir þegar hrunið skall á en stjórnvöld hefðu engu að síður verið vel undirbúin. Vikuna fyrir hrun hefði verið farið yfir það hvað stjórnvöld gætu gert ef sú staða kæmi upp að bankarnir gætu ekki fjármagnað sig. Sagðist hann telja að stofnanirnar sem komu að þeirri vinnu að setja saman neyðarlögin hefðu lyft grettistaki.

„Þetta er allavega góð frétt“

dómsorð

Pétur Blöndal

pebl@mbl.is

Ekki er örgrannt um, svo notað sé hátíðlegt orðalag Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi stjórnarformanns FME, fyrir Landsdómi í fyrradag, að lítillátum blaðamanni verði svolítið hverft við þegar gengið er upp stigann í Þjóðmenningarhúsinu að morgni og beint í flasið á þvögu ljósmyndara og tökumanna sem bíða með vélarnar á lofti. Ljósmyndarinn Ragnar Axelsson stenst ekki mátið, smellir af og segir: „Ævilangt!“

Það er annar geimur fyrir utan réttarsalinn, þar heilsa ljósmyndarar vitnum með ljósabaði. Á hverjum morgni gengur Geir H. Haarde í gegnum steypibaðið eins og saksóknarinn og verjandinn. „Þið myndið og myndið. Er þetta ekki alltaf sama myndin?“ spyr hann brosandi. Þegar dyrnar lokast sitja ljósmyndararnir uppi hver með annan. Það hefur sjálfsagt ekki verið að tilefnislausu að blaðamaður heyrði dómvörðinn segja: „Þetta kalla ég nú gúrkutíð. Eruð bara að taka myndir hver af öðrum!“

Spennan vex í húsinu þegar von er á þekktum vitnum. Það er eins og andrúmsloftið þéttist. Þannig var það þegar Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, bar vitni í gær. Og þarf engan að undra þegar litið er til vitnisburðar Jónasar Fr. Jónssonar, fyrrverandi forstjóra FME, um morguninn, sem tók undir það með verjandanum að lengi vel hefði verið óvinsælt á Íslandi að gagnrýna bankana og stjórnendur þeirra. „Þeir voru eins og kvikmyndastjörnur,“ sagði Jónas.

Þegar Hreiðar gekk í salinn hafði hann vissulega fylgdarlið, eins og kvikmyndastjörnur í útlandinu, nema í hans tilviki voru það starfsmenn sérstaks saksóknara sem fylgdu í kjölfarið og hurfu snarlega á braut eftir vitnisburðinn. Hreiðar er öllu vanur, sýndi engin svipbrigði frammi fyrir ljósmyndurunum, og fór síðan út bakdyramegin. Þar mætti hann raunar tökuliði Stöðvar 2 á harðahlaupum. Allt eftir formúlunni.

Smám saman myndast nánari og um leið léttari stemmning meðal þeirra sem fylgjast með réttarhöldunum á degi hverjum. Kannski af því umræðan er svo fjarri því sem tíðkast í sakamálum. Og nær ómögulegt að ráða í það af vitnaleiðslunum hver hinn alvarlegi glæpur á að hafa verið eða hvenær hann var framinn. En vitnaleiðslurnar eru þrátt fyrir það greinargóðar og skýra atburðarásina árið 2008. „Þetta er allavega góð frétt,“ sagði einn blaðamanna í gær.

„Nú eru neyðarlögin sú Lilja sem allir vildu kveðið hafa,“ sagði Jónína S. Lárusdóttir, fyrrverandi ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins, í gær, og þakkaði þau vinnu samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika, sem hún átti sæti í. Þannig er vitnað í höfuðrit þjóðarinnar í gamla lestrarsalnum á Landsbókasafninu.