Eftirlýstur Joseph Kony, stríðsglæpamaður frá Úganda.
Eftirlýstur Joseph Kony, stríðsglæpamaður frá Úganda. — Reuters
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Nafn úganska stríðsglæpamannsins Josephs Konys hefur verið á allra vörum síðustu daga eftir að myndband um voðaverk hans birtist á netinu í vikunni.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Nafn úganska stríðsglæpamannsins Josephs Konys hefur verið á allra vörum síðustu daga eftir að myndband um voðaverk hans birtist á netinu í vikunni. Þegar hafa tugir milljóna manna horft á myndbandið, sem er hálftíma langt, og fjölmargir lagt orð í belg á samskiptasíðum eins og Twitter og Facebook.

Hafa rænt þúsundum barna

Kony er leiðtogi Andspyrnuhers Drottins sem hóf vopnaða baráttu fyrir ríki sem byggðist á lögmálum Biblíunnar og réttindum Acholi-ættbálksins í Norður-Úganda árið 1986.

Hersveitir hans eru alræmdar fyrir að ræna börnum, neyða drengi til þess að gerast hermenn og nota stúlkurnar sem kynlífsþræla. Hefur Kony verið eftirlýstur af Alþjóðastríðsglæpadómstólnum frá árinu 2005 vegna glæpa gegn mannkyninu í Úganda, Kongó, Suður-Súdan og Mið-Afríkulýðveldinu. Talið er að hersveitir Konys hafi myrt tugi þúsunda manna í átökunum.

Í október í fyrra samþykkti Barack Obama Bandaríkjaforseti að senda hundrað sérsveitarmenn til þess að ráðleggja og aðstoða her Úganda við að koma böndum yfir Kony.

Fyrir utan að vekja athygli heimsbyggðarinnar á voðaverkum Konys er markmið myndbandsins sem Ósýnilegu börnin birti að þrýsta á bandarísk stjórnvöld um að halda þessari aðstoð áfram til að hægt sé að binda enda á grimmdarverk hans.

Úrelt baráttumál

Eftir að myndband samtakanna vakti heimsathygli hófu gagnrýnisraddir að heyrast um framsetningu þess og samtökin sjálf.

Þannig bendir blaðamaðurinn Michael Wilkerson, sem hefur búið í Úganda og skrifað um málefni landsins, á það í grein á vef Foreign Policy að Kony er alls ekki í Úganda og hefur ekki verið í sex ár. Líklegast hafist hann við í Mið-Afríkulýðveldinu.

Þá telji andspyrnuher hans aðeins nokkur hundruð manns í mesta lagi en ekki tugi þúsunda barnahermanna eins og látið sé í veðri vaka í myndbandinu, þó að það sé sá heildarfjöldi barna sem hann er sagður hafa rænt í gegnum tíðina. Í því ljósi er hægt að segja að herferðin gegn Kony hefði verið tilvalin fyrir tæpum áratug en í dag sé hún úrelt.

Þá hafa aðrir bent á að stjórnarher Úganda, sem Ósýnilegu börnin vilja styðja, hafi sjálfur gerst sekur um gróf mannréttindabrot. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segjast hafa skráð tilfelli um að herinn hafi myrt fjölda óvopnaðra mótmælenda og saklausra sjónarvotta á undanförnum þremur árum og stundað pyntingar.

Ennfremur bendir Wilkerson á að lýðræði þekkist vart í Úganda þar sem Yoweri Museveni forseti hafi verið við völd í á þriðja áratug, spilling sé landlæg og opinber þjónusta nánast engin. Það sé gott og þarft að handsama Kony en það breyti ekki ástandinu í landinu. Verði Museveni fengið frekara fjármagn og vopn geti vandamál landsins þvert á móti versnað.