Grétar Haraldsson
Grétar Haraldsson
Eftir Grétar Haraldsson: "Alltaf hefur vinstrimönnum gengið verr að stjórna en aldrei eins og nú þegar þeir eru einir..."

Frá því að ég var ungur maður hef ég fylgst með pólitík og hef margoft farið á fundi hér í kjördæminu hjá hinum ýmsu flokkum. Af því hef ég myndað mér skoðun sem ég er alltaf að endurskoða en kemst alltaf að sömu niðurstöðu og er þekktur af henni og finnst hún því réttari sem ég reyni að vera réttsýnn og meta hina stjórnmálaflokkana líka. Þetta hefur varað áratugum saman og vitanlega hefur á þeim tíma oft verið skipt um ríkisstjórn. Alltaf hefur vinstrimönnum gengið verr að stjórna en aldrei eins og nú þegar þeir eru einir, alltaf hefur þeirra höfuðandstæðingur verið Sjálfstæðisflokkurinn, flokkurinn sem ég hef aðhyllst.

Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur allra stétta og Ólafur Thors sagði að atvinnurekendur græddu mest á að borga verkafólkinu vel, Sjálfstæðisflokkurinn veit að atvinnurekendur þurfa að geta rekið fyrirtæki sín ekki síst til að geta búið fólkinu vinnu. Þannig fer saman hagur fólksins, vinstrimenn virðast ekki átta sig á því, þess vegna hefur þeim ekki gengið vel í stjórn. Vinstrimenn finnst mér harðari í öllum sínum dómum um andstæðingana en sjálfstæðismenn, og nú er tíska að tala um að öllu stjórnkerfinu verði að breyta. Þegar Kristján Eldjárn forseti var settur í embætti þá talaði hann einmitt um þetta að stjórnkerfið væri umdeilt. En hann sagði sem ég man ekki orðrétt að ekkert stjórnkerfi hefði verið fundið upp sem væri betra en það sem hér væri.

Mikið finnst gömlum manni að langskólagengið fólk þykist vita og geta, mennirnir eru í raun alltaf eins, vilja svo mikið hafa að segja og langar svo mikið til að geta haft réttara fyrir sér en viðmælandinn. Hitt finnst mér þó verra að það eru svo margir samviskulitlir og meta of lítið góðan vilja og réttsýni til samferðamannanna. Ég get ekki orða bundist hvernig komið er fram við góðan kunningja minn, Geir H. Haarde, ég veit svo vel að hann vill öllum vel og hefur gert allt eins og best hann gat. Mér finnst beinlínis vera af mannskemmandi hvötum tilburðirnir til að ákæra hann. Við munum öll umræðurnar fyrir bankahrunið, ef ráðamenn hefðu þá gripið inn í þá hefði þeim verið kennt um hrunið og ætti þá öllum að vera ljóst að um það snerust umræðurnar nú. Því miður lifum við ekki dóm sögunnar.

Já efalaust það vitum vér

þó vilji ei allir þekkja,

að sannur Geir og saklaus er

og síst vill nokkurn blekkja.

Höfundur var bóndi í Miðey í Austur-Landeyjum.