Skemmtilegt Fannar Karvel leggur mikið upp úr því að gaman sé á námskeiðinu og segist viðhafa fíflagang og sprell til að svo megi verða.
Skemmtilegt Fannar Karvel leggur mikið upp úr því að gaman sé á námskeiðinu og segist viðhafa fíflagang og sprell til að svo megi verða. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Með aukinni tölvunotkun hefur kyrrseta barna og unglinga aukist undanfarin ár og matarvenjur margra unglinga einkennast af sykruðum drykkjum og sætindum. Íþróttafræðingurinn Fannar Karvel hefur brugðist við þessu með námskeiði fyrir unglinga þar sem hreyfing er skemmtileg og ekki tengd keppni.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Offita er meiri heilbrigðisvá en fólk gerir sér grein fyrir. Ég hef eins og aðrir tekið eftir þeirri þróun að íslensk börn og unglingar eru að þyngjast. Þegar ég var í grunnskóla þá löbbuðum við krakkarnir allt sem við fórum, hvort sem það var í skólann eða á æfingar, en núna er krökkum skutlað allt sem þau þurfa að fara,“ segir Fannar Karvel íþróttafræðingur en hann hefur verið með námskeið fyrir unglinga í Sporthúsinu þar sem áhersla er lögð á að kenna krökkunum að hreyfing getur verið skemmtileg og þarf ekki að vera tengd keppnum. „Ég haga mér mátulega mikið eins og fífl og fæ þau með mér í það, reyni að brjóta þessa múra sem fólk byggir upp í kringum sig. Þegar foreldrarnir mæta með krökkunum í tíma þá verða þeir að vera með og taka þátt í öllum fíflalátunum og leikjunum, hvort sem þau eru á pinnahælum eða í jakkafötum. Stressið er þá fljótt að fara af öllum. Þetta er liður í því að gera hreyfinguna skemmtilega. Við förum í gegnum ákveðnar grunnhreyfingar eins og hnébeygjur og armbeygjur og förum í gamla leiki og gerum allskonar skemmtilegt.“

Foreldrarnir bera ábyrgð

Fannar segir að foreldrar séu í raun aðalvandamálið þegar börn þeirra eru komin í lélegt líkamlegt form eða orðin of þung. „Við foreldrarnir kaupum inn matinn og ráðum hvað er til í skápunum heima. Við erum þau sem skutla þeim út um allar trissur. Á námskeiðinu hjá mér verða foreldrar krakkanna að vera með í prógramminu, annars gengur þetta ekki upp. Sömu reglur verða að gilda um alla í fjölskyldunni þegar kemur að mataræði og hreyfingu. Ég hvet krakkana til að draga foreldrana með sér út að leika og ég hvet þau líka til að skipta sér af hvað er keypt í matinn.“

Fannar segir að margir krakkar og unglingar haldi að hollur matur sé alltaf bragðlaus eða vondur. „Ég reyni að brjóta niður þá fordóma með því að kynna þeim góðum hollum mat. Ef við bjóðum unglingi að velja á milli þess að fá hamborgara að borða eða salat, þá er næsta víst að hann velur hamborgarann, af því unglingurinn trúir því að hamborgarinn sé bragðbetri. Ég geri þeim grein fyrir að það er hægt að útbúa hamborgara sem er mjög hollur og að kjúklingasalat getur verið mjög gott á bragðið.“

Ekki hlamma sér í sófann

Fannar segir það skipta öllu máli að foreldrar leiði með góðu fordæmi þegar til stendur að unglingurinn tileinki sér heilbrigðari lífsstíl. „Það gengur ekki að foreldrar komi heim úr vinnu og hlammi sér í sófann og ætlist svo til að afkvæmin fari út að hreyfa sig. Fordæmi felst ekki í því að fara í ræktina og skilja börnin eftir heima, heldur verða foreldrar að vera þátttakendur. Fara til dæmis út að hjóla með krökkunum, öll fjölskyldan fari saman út að hlaupa eða leika, bara hvað sem er sem inniheldur hreyfingu. Lykilatriði er að virkja krakkana sjálfa, ekki mata þau á því sem þau eiga að gera. Þau þurfa að taka þátt í að ákveða hvað skuli gera, spyrja hvort þau vilji fara út að hjóla, klífa fjöll, synda eða gera eitthvað annað. Og sama er að segja með matinn, leyfa þeim að velja hvort þau vilja frekar samloku með eggjum og tómötum eða með osti og gúrku. Um leið og tekist hefur að virkja þau þá eru þau miklu duglegri.“

Slökkva á tölvunni í tvo daga

Eitt af þeim heimaverkefnum sem krakkarnir fá á námskeiðinu er að slökkva á sjónvarpinu og tölvunni í tvo heila daga. „Þeim finnst það ofsalega erfitt en foreldrarnir segja að þá verði krakkarnir virkari á heimilinu. Ég mæli því hiklaust með því að foreldrar setji kvóta á þann tíma sem krakkarnir mega vera í tölvunni. Ég geri mér alveg grein fyrir að krakkar þurfa að nota tölvur mikið, en þau verða að standa upp frá henni. Svo má líka hafa þannig fyrirkomulag að barnið verði að hreyfa sig visst mikið fyrir hvern klukkutíma sem það er í tölvunni.“ Fannar er með hvatningarkerfi þar sem krakkarnir safna stigum. „Þau þurfa til dæmis að labba í skólann til að safna stigum, drekka vatn, draga mömmu og pabba út að labba og fleira í þeim dúr.“ Hann segir námskeiðið ekki eingöngu ætlað krökkum sem eru í yfirþyngd, heldur fyrir alla krakka sem vilja hreyfa sig meira. Á námskeiðinu sem stendur yfir núna eru krakkarnir á aldrinum 12-15 ára en ég er að hugsa um að færa mig aðeins út á næsta námskeiði, vera bæði með yngri krakka og eldri, því ég hef fengið svo margar fyrirspurnir.“

Námskeiðið stendur yfir í sex vikur og næsta námskeið hefst þann 24. apríl.