Leikarar Tom Hanks og Thomas Horn ná vel saman í myndinni.
Leikarar Tom Hanks og Thomas Horn ná vel saman í myndinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Stephen Daldry. Handrit: Eric Roth. Aðalhlutverk: Thomas Horn, Tom Hanks, Sandra Bullock og Max von Sydow. 129 mín. Bandaríkin, 2011. ***½-

Kvikmyndin, sem er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Jonathan Safran Foer frá árinu 2005, var tilnefnd til tvennra verðlauna á nýliðinni Óskarsverðlaunahátíð. Myndin segir frá Oskari Schell (Thomas Horn), ungum dreng sem missir föður sinn, Thomas Schell (Tom Hanks), í árásunum á tvíburaturnana í New York árið 2001. Fyrir tilviljun finnur hann lykil í fataskáp föður síns og leggur af stað í leiðangur til að finna þann lás sem lykillinn gengur að.

Til að byrja með er frásögnin fremur ólínuleg og áhorfandinn þarf að vera einbeittur til að átta sig á gangi mála. Klipping og myndataka er á köflum vel útfærð og ýmsum aðferðum þar beitt. Meðal annars má nefna hraða klippingu og skerputækni sem er notuð til að leggja áherslu á kvíða Oskars. Innskot af því fólki sem Oskar heimsækir eru áhugaverð og myndfléttan gefur skemmtilega mynd af margbreytileika íbúa New York-borgar. Sagan, sem er ansi hjartnæm, verður á köflum heldur væmin og fremur ódýrum aðferðum er beitt til að væta augu áhorfenda. Frammistaða Thomas Horns er ágæt og skilar hann hlutverki hins þrasgjarna og furðulega Oskars vel. Sömu sögu er að segja af Söndru Bullock og Tom Hanks. Sá aðili sem stendur þó upp úr í huga undirritaðs að loknu áhorfi er Max von Sydow.

Hann er frábær í hlutverki sínu sem „Leigjandinn“ og algjör synd hvað þessi sænski stórleikari fær lítið svigrúm til að láta ljós sitt skína.

Það má velta því fyrir sér hvort einhver dýpri hugsun liggi á bak við söguna. Saga um strák sem leitar að réttu skráargati til að stinga lykli sínum í til að sanna sig fyrir föður sínum sem lést í hrynjandi turni hefur mögulega tvíræða merkingu. Hvort sem þetta tengslanet býr einvörðungu í huga undirritaðs eður ei þá er skemmtilegt að velta þessu fyrir sér.

Davíð Már Stefánsson