Ljúffengt Auður Ingibjörg Konráðsdóttir er potturinn og pannan í Heilsukokki.com. Hún segir einfaldasta mál að hafa hollustu í fyrirrúmi í fermingarveislunni og gefur lesendum hér úrval spennandi uppskrifta.
Ljúffengt Auður Ingibjörg Konráðsdóttir er potturinn og pannan í Heilsukokki.com. Hún segir einfaldasta mál að hafa hollustu í fyrirrúmi í fermingarveislunni og gefur lesendum hér úrval spennandi uppskrifta. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er enginn vandi að reiða fram veisluborð hlaðið ljúffengu og hollu góðgæti, segir Auður Ingibjörg Konráðsdóttir hjá Heilsukokkur.is

Margir kannast við Fésbókarsíðuna Heilsukokkur.com en þar birtast reglulega allra handa uppskriftir og ábendingar um hollan mat og mataræði. Í fermingarveislum er jafnan boðið upp á ýmsar gómsætar krásir og er þá hollustan oft lögð til hliðar um stund á meðan hvítur sykur, transfita og annað síður hollt fær að eiga sviðið í einn dag. Auður Ingibjörg er hins vegar á því að veisluborðið megi búa með hollum mat sem um leið sé fullt eins ljúffengur - ef ekki ljúffengari.

Tók slaginn í kreppunni

Upphaf Heilsukokksins má rekja til hinnar margnefndu kreppu. „Ég vann hjá Maður lifandi um það leyti sem bankahrunið varð og kreppan skall á í kjölfarið. Ég missti vinnuna eins og svo margir og það varð til þess að ég tók stökkið út í djúpu laugina og stofnaði Heilsukokkinn. Ég hafði gengið með hugmyndina í maganum í 2 til 3 ár og kreppan varð til þess að ég lét verða af því,“ segir Auður. „Ég fann að það var ákveðið gat á markaðnum, ákveðin þörf í þjóðfélaginu fyrir eitthvað í líkingu við þetta. Ég sá fólk endalaust að leita að hollari mat og leiðum til að verða sér úti um hann. Ég hafði þá þegar þróað, samið og margprófað heilsuuppskriftir í 20 ár. Ég átti því feikinóg af efni og hafði öll færi á hendi til að taka slaginn.“ Auður hófst handa á því að setja upp fésbókarsíðu og viðtökurnar reyndust framar öllum vonum. „Það varð bara hálfgerð sprenging,“ segir Auður en fésbókarsíðan hennar er ein sú vinsælasta hér á landi með rúmlega 22.000 vini. Þá gaf Auður út bók fyrir jólin sem kallast einfaldlega Heilsudrykkir. Skemmst er frá því að segja að bókin var rifin út og seldist á endanum upp. Þá hefur Auður haldið námskeið í matreiðslu hollra rétta en er að eigin sögn að færa sig í auknum mæli inn á netið. „ Ég er komin í samstarf við Siggu Lund og nýr vefur fer í loftið þann 1. apríl. Þar mun ég birta ýmiss konar pistla um hollan mat ásamt vídeóinnslögum.“

Auðvelt að breyta yfir í hollt

Sem fyrr segir er háborin hollusta ekki alltaf leiðarljósið þegar kemur að því að matbúa fyrir fermingarveislurnar. En Auður minnir á að það sé alls ekki svo að velja þurfi á milli þess að hafa bragðgott og hollt. „Það er svo auðvelt að breyta tilteknum réttum til hollari vegar,“ segir hún með áherslu. „Sem dæmi má nefna að bara með því að skipta hvítu hveiti út fyrir spelt er tekið stórt stökk í átt að hollari mat, sem eftir sem áður er alveg jafn bragðgóður,“ bætir hún við. „Það er einmitt eitt það skemmtilegasta við matseldina, að breyta gömlum og klassískum réttum til hollari vegar með því að nota hollari innihaldsefni, og það án þess að nokkur einasti gikkur af gamla skólanum verði þess var,“ segir Auður og hlær við. „Ágætt dæmi um þetta er súkkulaði- og döðlukakan, sem alla jafna er stútfull af hvítum sykri. Hana má gera transfitulausa, sleppa hvítum sykri og meira að segja gera eggjalausa líka. Svo er hún þakin ljúffengu súkkulaðikremi, alveg hreint meinhollu. Þetta er mjög lýsandi dæmi þess hvernig gera má sígilt hnossgæti að hollum mat með því að velta innihaldinu aðeins fyrir sér,“ segir Auður. Hún gefur hér lesendum nokkrar gómsætar uppskriftir sem allar sóma sér prýðilega á hvaða fermingarhlaðborði sem er, ljúffengar og hollar í senn.

jonagnar@mbl.is

Melónu- og jarðarberjatryllir

250 g vatnsmelóna

100 g frosin jarðarber

2 dl eplasafi

1 msk. fersk minta

Allt maukað vel í blandara og borið fram ískalt og svalandi.

Fylltir tómatar með ítölsku sólblómapaté

1 dl sólblómafræ

100 g grænar linsubaunir, soðnar

50 g lífrænar maísbaunir, frosnar

5 sólþurrkaðir tómatar

1 hvítlauksrif

1 msk. ólífuolía

2 msk. ferskt basil

3 greinar ferskt timjan

1/6 ferskur chilipipar

½ tsk Himalaya-salt

6 tómatar

Leggið sólþurrkaða tómata og sólblómafræ í bleyti yfir nótt. Hellið vatninu af. Sneiðið rúnnaða hlutann á tómötunum af þannig að þeir geti staðið á stilkhliðinni. Takið innan úr tómötunum með skeið og maukið í matvinnsluvél ásamt öllu nema maísbaunum. Smakkið til með Himalaya-salti og cayenne-pipar. Fyllið tómatana með maukinu, leggið sneiðina sem var skorin af á ská yfir og bakið við 180°C í ca. 25 mínútur.

Döðlur með reyktu cashew-mauki

2 dl cashew-hnetur

2 msk. ólífuolía

½ tsk. reykt paprika

1 msk. næringarger

Safi úr 1 límónu

¼ ferskur chilipipar

½ tsk Himalaya-salt

1 hvítlauksgeiri

2 msk. fersk steinselja

25 ferskar döðlur

Leggið cashew-hnetur í bleyti í a.m.k. 2 klst. Maukið í matvinnsluvél ásamt öllu nema döðlum og steinselju. Skerið í döðlurnar eftir endilöngu og fjarlægið steininn. Setjið maukið í sprautupoka og fyllið döðlurnar. Saxið steinselju fínt og stráið yfir rétt áður en borið er fram.

Kókosmakkarónur heilsukokksins

2 dl lífrænar möndlur

4 dl kókosmjöl

2 msk. agave-síróp

30 g kakósmjör

4 döðlur

¼ tsk. Himalaya-salt

½ tsk. lífrænir vanilludropar

Leggið möndlur í bleyti yfir nótt. Sigtið vatnið frá og malið í korn í matvinnsluvél. Setjið restina af hráefnunum í matvinnsluvélina og maukið í deig. Mótið kúlur og þrýstið á bökunarplötu með bökunarpappír. Stillið ofninn á 60°C og þurrkið í ofni yfir nótt með skeið í falsinu á ofninum. Bræðið 70% súkkulaði yfir vatnsbaði og dýfið hluta af kökunum í súkkulaði. Þessi uppskrift gefur 25 kökur.

Crème caramel heilsukokksins

5 dl rísmjólk

2 msk. hrásykur

¼ tsk. Himalaya-salt

1 tsk. lífræn vanilla

1 tsk. agar agar

½ dl hreint hlynsíróp

Setjið rísmjólk, hrásykur, salt og vanillu í pott og látið suðuna koma upp. Hrærið agar agar með 1 msk. af vatni og þeytið út í sjóðandi mjólkina. Hellið í gler- eða postulínsmót og kælið. Hvolfið á disk og hellið hlynsírópi yfir rétt áður en borið er fram.

Sunnlensk súkkulaðikaka

180 g fínt spelt

100 g hrásykur

30 g kakó

1 msk. vínsteinslyftiduft

150 g 70% súkkulaði

150 g döðlur

¼ tsk Himalaya-salt

½ dl ólífuolía

2 msk. „No-Egg“-duft

1 vel þroskaður banani

¾ dl rísmjólk eða sojamjólk

2 tsk. lífræn vanilla

Skerið súkkulaði og döðlur í litla bita. Hrærið saman spelt, hrásykur, lyftiduft, salt, döðlur og súkkulaði. Hrærið „No-Egg“-duft í ½ dl af vatni. Blandið olíu, banana, mjólk og vanillu saman við og hrærið vel. Hrærið blautefni saman við þurrefnin. Bakið við 175°C í ca. 30 mínútur eða þar til kakan losnar frá köntunum og gaffall sem stungið er í kökuna kemur þurr til baka. Kælið og þekið með sunnlensku kremi. Skreytið með ávöxtum og berið fram með rísrjóma eða venjulegum rjóma.

Sunnlenskt krem

2 dl kókosmjólk

2 msk. agave-síróp

175 g 70% súkkulaði

Látið suðuna koma upp á kókosmjólk og agave-sírópi, hellið yfir saxað súkkulaði og blandið vel saman.