Samvera Fjölskyldan saman á fermingardaginn. María, maður hennar Adolf Þórsson og börnin fjögur. María er ættuð frá Fáskrúðsfirði en kom til Vestmannaeyja á eina vertíð 1986 og hefur verið þar síðan.
Samvera Fjölskyldan saman á fermingardaginn. María, maður hennar Adolf Þórsson og börnin fjögur. María er ættuð frá Fáskrúðsfirði en kom til Vestmannaeyja á eina vertíð 1986 og hefur verið þar síðan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjó þannig um hnútana að matseldin truflaði ekki fermingardaginn. Súpur og heimilislegur bakstur einfaldaði vinnuna til muna

Hvort sem það er kreppa eða góðæri, börnin á heimilinu ótal mörg eða aðeins eitt, þá getur aldeilis borgað sig að halda fermingarveisluna með hagkvæmum hætti.

María Sigurbjörnsdóttir er hagsýn húsmóðir í Vestmannaeyjum. Hún kann ýmis brögð í eldhúsinu enda einn af forkólfum Kvenfélagsins Líknar sem þekkt er fyrir gott bakkelsi. María lét á síðasta ári ferma barn númer tvö og eru þá tvö eftir sem verða fermd á næstu árum. Hún náði síðast að útbúa veislu sem féll mjög vel í kramið hjá gestunum án þess að kosta nein ósköp, og líka án þess að kosta mikla vinnu.

„Það eina sem fermingardrengurinn vildi ráða var valið á tertunni. Honum leist best á ístertu frá Kjörís. Tertan var mjög flott á veisluborðinu og ekki dýr. Síðan keyptum við humarsúpu frá Grími kokki. Grímur gerir afskaplega góða súpu, en við gerðum hana ögn að okkar, bættum við rjóma, kryddjurtum, smjörsteiktum humar og öðru góðgæti. Handa þeim sem ekki vildu humarsúpu útbjuggum við síðan koníaksbætta sveppasúpu,“ segir María. „Hjá Vilbergsbakaríi lét ég baka fyrir mig svokallað partíbrauð, mjög gott súpubrauð úr mörgum litlum kúlum sem mynda hring. Hvert brauð kostar svo lítið að það tekur því ekki að baka það sjálfur. Við höfðum svo salat sem meðlæti.“

Með ístertunni var framreiddur heimagerður ís, dóttirin á heimilinu bakaði súkkulaðitertur og fjölskylduvinur útbjó Rice Crispies-bita. María gerði litlar vatnsdeigsbollur með fyllingu og kransakökumola. Drykkjarföngin voru gos og kaffi. „Ég fékk svo góða vinkonu mína til að standa vaktina í eldhúsinu, svo ég gæti notið veislunnar með gestunum. Ég kem svo til með að gjalda greiðan þegar hún fermir næst eða heldur veislu. Útkoman af þessu öllu varð ósköp ljúf veisla og allir kvöddu mjög sáttir.“

Eldað með góðum fyrirvara

Matseldin var líka þannig að María gat haft flestallt klárt daginn áður. „Við vorum með súpurnar klárar en þurftum bara að gæta þess að láta humarinn ekki út í fyrr en skömmu fyrir veisluna svo hann yrði ekki seigur. Einnig þurfti að geyma sveppasúpuna rétt svo hún myndi ekki súrna,“ útskýrir María og segir það gott ráð að halla sveppasúpupottinum agnarögn í kælinum og loka ekki pottinum alveg með pottlokinu. „Umgjörðin var frjálsleg og þægileg og í stað þess að þurfa að sitja yfir margréttuðu veisluborði gátu gestir verið á hreyfingu og skrafað við fjölda fólks. Utanumhaldið var svo einfalt að við fjölskyldan gátum verið allan tímann með gestunum og notið dagsins.“

Veislan var í stærra lagi og telst Maríu til að um hundrað manns hafi komið í félagsheimili björgunarfélagsins þennan daginn. „Ég reiknaði vandlega útgjöldin við matarinnkaupin og fékk það út að veitingarnar kostuðu í kringum 80.000 kr. eða um 800 kr. á hvern gest.“

Skammtastærðir flæktust ekki mikið fyrir og María var óhrædd við að eiga afganga. „Við héldum nefnilega annað 40 manna matarboð fyrir nánustu fjölskyldumeðlimi næsta dag og komu umframsúpur og -kökur úr fermingarveislunni þá í góðar þarfir.“

Um það hvort næsta ferming verður með sama sniði getur María engu lofað. Hún kveðst hafa sloppið mjög vel þegar hún fermdi fyrsta barnið, en þá vantaði tíu daga í að fjölgaði í fjölskyldunni svo vinkvennahópurinn hljóp undir bagga og tók að sér matseldina og baksturinn. „Það er auðvitað margt gott við að halda einfalda súpu- og kökuveislu, en ég get líka alveg séð að það er ekki amalegur kostur hreinlega að kaupa alla veisluna og láta fagmenn um allt skipulagið og matseldina.“

ai@mbl.is

Hátíðarpottréttur

Pottréttir eru alltaf vinsælir og úr mörgu að velja í þeim efnum. Hér er einn sem fljótlegt er að matbúa, auk þess sem hann smakkast mjög vel.

Fyrir 8 manns.

Hráefni

1 kg lamba- eða nautakjöt, beinlaust

300 g perlulaukur

½ dós sveppir ásamt vökva

3 msk. matarolía

2 msk. smjör

2 tsk. salt

1 tsk. pipar

1 tsk. karrí, milt

1 tsk. hvítlauksduft, má sleppa

1 tsk. paprikuduft

1 dós tómatmauk

2 dl vatn

2 dl rauðvín eða 4 dl vatn (gjarnan með kjötkrafti í)

2 grænar paprikur

3-4 dl rjómi

Aðferð Kjötið skorið í teninga og brúnað létt á pönnu í heitri olíunni. Kjötið fært yfir í pott.

Smjörinu bætt á pönnuna og laukur mýktur þar í. Settur saman við kjötið. Vatni og rauðvíni hellt í pottinn ásamt kryddi, tómatmauki og sveppum bætt út í. Látið malla í 20 mín. (lamb) eða 30 mín. (naut).

Paprikurnar skornar í ræmur og settar út í ásamt rjómanum og látið malla í 10-15 mínútur í viðbót. Smakkað til með salti og pipar.

Borinn fram með soðnum hrísgrjónum, salati og smábrauði eða hvítlauksbrauði. Í stað niðursoðinna sveppa má að sjálfsögðu nota ferska, ca. 1 bakka og nota aðeins meira vatn í soðið. Pottréttinn má frysta.

Fljótgerð hvítlauksbrauð

Fyrir átta manns.

2 snittubrauð

100 g smjör

2-3 hvítlauksgeirar, marðir

1 dl steinselja, fínt söxuð

1 msk. timjan, fínt saxað

Smjör, hvítlaukur og krydd hrært vel saman. Skurður gerður í snittubrauðin langsum, samt ekki í gegn. Kryddsmjörinu jafnað þar í.

Brauðin bökuð við 225°C í ca. 10 mínútur. Borin fram heit.

Hægt að útbúa brauðin daginn áður, pakka vel inn og geyma í kæli.

Gefa ómetanleg ráð við matseldina

Kvenfélagasamband Íslands starfrækir Leiðbeiningastöð heimilanna og veitir þar faglega ráðgjöf um allt sem viðkemur matseld og heimilishaldi. Á vefnum www.leidbeiningastod.is hefur verið safnað saman alls kyns hagnýtum upplýsingum en einnig má hringja í gjaldfrjálsa símaþjónustu mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga milli kl. 10 og 14, í síma 552-1135.

Uppskriftirnar hér til hliðar eru fengnar úr safni Eyglóar Guðjónsdóttur, forstöðumanns Leiðbeiningastöðvarinnar, en að auki tók Eygló saman nokkur hollráð fyrir fermingarveisluna:

Góð veisla undirbúin

„Að mörgu þarf að huga þegar ferming er framundan í fjölskyldunni. Hvernig veislu skal halda? Á hvaða tíma dagsins? Verður veislan í heimahúsi eða að heiman? Áætla þarf svo fjölda veislugesta og senda út boðskort,“ segir Eygló. „Úr mörgu er að velja og fer tegund og umgjörð veislunnar eftir því hvað fjölskyldunni hentar best. Það eru ekkert endilega bestu veislurnar þar sem mestu er kostað til. Tilgangurinn er fyrst og fremst að koma saman og njóta dagsins með fermingarbarninu, fjölskyldu og vinum. Og umfram allt á fermingarbarnið sjálft að vera með í ráðum, sérstaklega þegar velja skal veitingarnar.“

Eygló segir mikilvægt að skipuleggja undirbúning veislunnar með góðum fyrirvara, t.d. gera einn innkaupalista yfir það sem hægt er að kaupa og vinna fyrirfram og annan yfir það sem þarf að kaupa þegar nær dregur. „Margt er hægt að útbúa með góðum fyrirvara og frysta, s.s. baka kökur, brauð og útbúa pottrétti. Gera þarf lista yfir borðbúnað og annað sem hægt er að fá að láni til veislunnar ef hún er haldin heima, ákveða borðskreytingar og panta servíettur og kerti. Ekki sakar að fá fjölskyldu og vini með sér í undirbúninginn því margar hendur vinna létt verk.“

Tímasetning veislunnar segir Eygló að fari svo eftir því hvaða tegund veislu verður fyrir valinu. Dögurður (brunch) er á bilinu kl. 11-13, hádegisverður kl. 12-14, eftirmiðdagskaffiboð kl. 13-17, smáréttahlaðborð kl. 17-19 og kvöldverðarboð kl. 18-21.

ai@mbl.is