Fermingarhálsmen frá Jens, 2000-2012.
Fermingarhálsmen frá Jens, 2000-2012.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölskyldufyrirtækið Jens ehf. hefur starfað í 47 ár og hefur frá upphafi verið þekkt fyrir vandað handverk og skemmtilega notkun steina og blöndun málma.

Allt er breytingum, tísku og tíðaranda háð. Skartgripirnir frá Jens eru þar ekki undanskildir og hafa þeir þróast með og hönnunin hefur tekið stakkaskiptum í gegnum tíðina.

„Skartgripur frá Jens ehf. hefur í gegnum tíðina verið vinsæl fermingargjöf,“ segir Ingibjörg Snorradóttir hjá Jens ehf. „Við lítum svo á að fyrirtækið hafi alltaf verið brautryðjandi í íslenskri skartgripahönnun og hefur hönnunin notið mikilla vinsælda. Hágæða skartgripur og falleg hönnun lifir lengi,“ segir hún og bætir við að margir noti enn skartgripi sem þeir fengu í fermingargjöf fyrir um 40 árum, og hafa þá komið með skartgripina á verkstæðið og látið pússa þá upp og gera aftur eins og nýja.

Skart í gegnum tíðina

Spurð um breytingarnar segir Ingibjörg greinileg sérkenni á skarti milli tímabila. „Fermingarskartgripirnir frá 1965-1989 voru mun stærri en þeir skartgripir sem fermingarbörn fá í dag. Þetta má jafnvel rekja til þess að áður fyrr var hugsunin á bakvið fermingarskartgrip sú að viðkomandi ætti að nota hlutinn þegar hann yrði eldri, en í dag er viðhorfið breytt og vill fólk gefa eithvað sem fermingarbarnið notar strax,“ útskýrir hún. „Þessi breyting kemur til vegna þess að ungt fólk í dag er mun gjarnara á að bera skartgripi en hér áður fyrr.“

Saga fermingargjafa er því áhugaverð og gaman að velta því fyrir sér hvernig þróun á formi, stærð og litum skartgripa hefur verið í gegnum tíðina.

Gullsmíðaverkstæði Jens Guðjónssonar var stofnað árið 1965, Jens Guðjónsson og Jón Snorri Sigurðsson unnu hlið við hlið og hófu smíð á skartgripum sem höfðu alveg nýjan stíl sem var mjög ólíkur því sem áður hafði verið.

„Það sem helst einkenndi skartgripi þessa tímabils, frá 1965-1969, var brennd áferð, litur silfursins og óreglulegt form skartgripanna sem minnti á hraunið í náttúru Íslands. Í hringum var óreglulega formið oft rammað inn í klassískri skál,“ segir Ingibjörg. „Hálsmenin voru gjarnan römmuð inn með skarpri, háglansandi umgjörð sem var skemmtilegur kontrast á móti grófri áferð gripsins sjálfs.“

Frjálslegur áttundi áratugur

Á árunum 1970 til 1979 þróuðust skartgripirnir áfram og var hönnunin farin að breytast þannig að formin voru orðin frjálsari, að sögn Ingibjargar. „Skálarnar og rammarnir sem áður höfðu verið sem umgjörð voru nú leyst upp í óreglulegri form sem minntu oft á rós. Umgjörðin var ekki lengur háglansandi og klassísk heldur fékk hún sömu brenndu áferðina sem fyrirtækið var orðið þekkt fyrir. Ramminn var því orðinn hluti af óreglulegu formi verksins. Litirnir í skartgripunum urðu á þessum tíma sívinsælli og skartgripirnir urðu mun stærri og vogaðri en áður.“

Eitís og íslenskir steinar

Á árunum frá 1980-1989 eru formin farin að þróast enn meira í aðrar áttir. „Formin voru enn frjálslegri og gripirnir stækkuðu,“ bendir Ingibjörg á. „Notkun íslenskra steina hafði slegið í gegn og því einkenndust fermingarskartgripirnir af verkum sem voru skreytt með þessum steinum. Liturinn í silfrinu vék fyrir svartri oxiteringu sem ýkti dýpt, skugga og grófleika hönnunarinnar.“

Eftir 1990 fóru gullsmiðir Jens ehf. að blanda messing og kopar með silfrinu. Fermingarskartgripirnir voru gjarnan steinalausir en þó voru íslenskir steinar líka notaðir.

„Seinni hluta tímabilsins slógu litaðir steinar í gegn. Þetta voru steinar á borð við rauðan rúbín, bláan safír og grænan emerald.

Litagleðin jókst á þessum árum, bæði var blandað ólíkum lit í málmum og steinum en almennt minnkuðu skartgripir á þessum árum vegna mikilla verðhækkana á hráefni.“

Útlitið frá aldamótum

Frá aldamótum hefur hönnun fermingarskartgripa breyst töluvert, að mati Ingibjargar. Skartgipirnir eru gjarnan steinlausir en mikil glit-tíska hefur haldið við litagleðinni, litríkir zirkon-steinar sem eru með glitrandi skurði hafa því verið mjög vinsælir í fermingarskartgripum. „Vegna aukinnar eftirspurnar eftir skartgripum sem krefjast minna viðhalds hafa rhodiumhúðaðir skartgripir verið mjög vinsælir í fermingargjafir. Rhodiumhúðin gefur silfrinu skarpan, bjartan lit og hefur þann eiginleika að síður fellur á silfrið,“ útskýrir Ingibjörg.

Hin langa saga fyrirtækisins endurspeglast svo í Uppsteyt, nýjustu línu Jens ehf. „Þrátt fyrir nýstárlega hönnun Uppsteyts má segja að löng saga fyrirtækisins hafi fest í sessi ákveðinn stíl skartgripa. Íslensku steinarnir eru sívinsælir og gróf áferð og voguð hönnun heldur áfram að vera vinsæl fermingargjöf,“ segir Ingibjörg Snorradóttir hjá Jens ehf. að lokum.

jonagnar@mbl.is