9. mars 1950 Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir í Austurbæjarbíói í Reykjavík, undir stjórn Róberts Abrahams Ottóssonar. Í umsögn í Þjóðviljanum var sagt að hljómsveitin hefði „þegar náð ótrúlegri samstillingu“.

9. mars 1950

Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir í Austurbæjarbíói í Reykjavík, undir stjórn Róberts Abrahams Ottóssonar. Í umsögn í Þjóðviljanum var sagt að hljómsveitin hefði „þegar náð ótrúlegri samstillingu“. Telst þetta stofndagur hljómsveitarinnar.

9. mars 1961

Séra Friðrik Friðriksson æskulýðsleiðtogi lést, 92 ára. Sigurður Nordal sagði hann hafa verið „mesta mann íslenskrar kristni sem mér hefur auðnast að hafa kynni af“.

9. mars 1966

Hljómplötufyrirtækið EMI gaf út tveggja laga plötu með Hljómum, sem á erlendum markaði nefndust Thorshammers. „Hljómar komnir á heimsmælikvarða,“ sagði á baksíðu Vísis.

9. mars 1997

Flutningaskipið Dísarfell sökk um eitt hundrað sjómílur suðaustur af Hornafirði. Skipverjarnir höfðust við í sjónum í flotgöllum í tvær stundir og bjargaði þyrla Landhelgisgæslunnar, Líf, tíu þeirra en tveir létust.

9. mars 2004

Fjölveiðiskipið Baldvin Þorsteinsson strandaði á Meðallandsfjöru í Vestur-Skaftafellssýslu. Þyrla frá Landhelgisgæslunni bjargaði sextán manna áhöfn skipsins. Skipið náðist á flot átta dögum síðar. „Frækileg björgun,“ sagði Morgunblaðið.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.