Ragnheiður Einarsdóttir fæddist á Víðilæk í Skriðdal 27. september 1922. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum 26. febrúar sl. Foreldrar hennar voru hjónin Katrín Einarsdóttir, f. 1. ágúst 1884, d. 17. maí 1971, og Einar Björgvin Björnsson, f. 11. nóvember 1890, d. 6. júní 1976. Systkini Ragnheiðar voru: Hjörtur, f. 16. mars 1913, d. 27. febrúar 1979, Kristín, f. 9. október 1915, d. 29. júní 2004, Björn, f. 18. desember 1919, d. 12. júní 1981, Unnar Sigurbjörn, f. 26. maí 1921, d. 2. júlí 1948, Jón Einar, f. 8. janúar 1925, d. 14. júní 1997, Halldór Jóhann, f. 2. júlí 1927.

Eiginmaður Ragnheiðar var Árni Bjarnason frá Borg í Skriðdal, f. 7. ágúst 1915, d. 2. júlí 2009. Þau giftust hinn 13. desember 1940. Þau eignuðust fjóra syni: 1) Sigurður, f. 3. desember 1941, kvæntur Sigvarðínu Guðmundsdóttur, f. 10. mars 1942, þau eiga þrjú börn og átta barnabörn. 2) Bjarni, f. 3. desember 1941, kvæntur Jónu G. Guðmundsdóttur, f. 2. ágúst 1946, þau eignuðust fimm börn, eitt er látið, þau eiga tíu barnabörn. 3) Einar Birkir, f. 17. febrúar 1947, kvæntur Sigríði Pálsdóttur, f. 9. febrúar 1956, þau eiga fjögur börn og níu barnabörn. Einar á tvö börn og sex barnabörn frá fyrra hjónabandi. 4) Sigurbjörn, f. 7. febrúar 1954, kvæntur Ástu S. Sigurðardóttur, f. 2. október 1957, þau eiga fimm börn og þrjú barnabörn.

Ragnheiður ólst upp í Skriðdal frá 1922 til 1936 en þá flutti hún ásamt foreldrum sínum að Eyjum í Breiðdal. Árið 1939 fluttist hún að Birkihlíð ásamt unnusta sínum, Árna Bjarnasyni, en þar bjuggu þau til ársins 1947 þegar þau fluttu í Hátún. Þar bjuggu þau í 14 ár eða til 1961 er þau fluttu að Litla Sandfelli og bjuggu þar til ársins 1973. Árið 1968 hættu þau hjónin búskap en Ragnheiður fór að vinna við ýmiss konar störf, m.a. sem matráðskona í vegagerð og við Grunnskólann á Hallormsstað. Árið 1973 flytjast Ragnheiður og Árni að Múlastekk og eru þar til ársins 1976 er þau flytja að Hryggstekk. Síðustu árin, eða frá árinu 1994, bjuggu þau á Miðvangi 22 á Egilsstöðum. Ragnheiður dvaldi á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum síðustu árin.

Útför Ragnheiðar fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 9. mars 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Í dag kveðjum við Ragnheiði ömmu eins og hún var alltaf kölluð af okkur systkinunum. Amma var stór hluti af lífi okkar enda bjó fjölskyldan ásamt ömmu og afa á Hryggstekk í átján ár svo óhjákvæmilega urðu tengslin sterk.

Amma var aldrei langt undan þegar við vorum að alast upp, við gátum alltaf leitað til hennar og treyst, enda var henni umhugað um að okkur liði vel. Margar góðar minningar koma upp þegar við horfum til baka en notalegast af öllu var nærvera ömmu í skólanum þegar við vorum í heimavist á Hallormsstað. Þau voru ófá skiptin sem við fengum að skríða upp í rúm til ömmu og kúra enda hjartað oft lítið og fæturnir kaldir þegar langt var heim til mömmu og pabba.

Amma var alla tíð mikil handavinnukona og einstaklega vandvirk við verk sín. Mörg handverk eru til eftir hana og prýða fallegu hekluðu teppin hennar nú heimili flestra í fjölskyldunni ásamt rúmfötum, dúkum, peysum og sokkum. Þessi hlutir eru okkur dýrmætir og varðveita góðar minningar um ömmu.

Amma var listakokkur og lagði mikið upp úr góðum veitingum og vel var þess gætt að enginn færi svangur af hennar heimili. Við systkinin vorum svo heppin að vera áskrifendur að pönnukökunum hennar og kepptumst oft við að borða eins margar og við gátum og reyndum þar með að slá gömul met pabba og bræðra hans. Þegar fram liðu stundir og við fullorðnuðumst sóttu okkar börn í pönnukökurnar hennar ömmu og reyndu líkt og foreldrarnir að slá gömul met, ömmu til mikillar gleði.

Nú í seinni tíð fylgdist amma vel með því sem við krakkarnir tókum okkur fyrir hendur, hvort sem við vorum í námi eða vinnu hér heima eða úti í hinum stóra heimi. Hún hvatti okkur ávallt til að fylgja sannfæringu okkar og láta drauma okkar rætast, hvar í heiminum sem við enduðum, þó henni liði sennilega alltaf best þegar hún vissi af okkur sem næst sér.

Síðastu árin dvaldi amma á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum og viljum við þakka sérstaklega þann hlýhug og þá góðu umönnun sem hún fékk hjá starfsfólkinu þar.

Við búum vel að því góða veganesti sem amma hefur gefið okkur með sinni nærveru í gegnum árin.

Við biðjum ömmu blessunar og kveðjum hana með þökk og virðingu.

Amma kær, ert horfin okkur hér,

en hlýjar bjartar minningar streyma

um hjörtu þau er heitast unnu þér,

og hafa mest að þakka, muna og geyma.

Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.

Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Árni Páll, Ragnhildur Íris,

Birna Kristín og

Eyrún Björk Einarsbörn.

Það var langt austur á land þegar ég, höfuðborgarstelpan, var að alast upp og föðurfólkið mitt sem bjó þar var nú ekki að sækja til Reykjavíkur að óþörfu. Ég hitti Ragnheiði föðursystur mína fyrst 1987 þegar þau Árni bjuggu í Hryggstekk í nábýli við Einar son sinn og fjölskyldu hans. Það var skemmtileg og afslöppuð heimsókn og mér er afar minnisstæð sú snyrtimennska sem blasti við utan húss sem innan. Það hefði verið hægt að leggja sig úti í fjósi og engu líkara en hlöðin væru ryksuguð daglega.

Seinna þegar ég fór að flakka um landið í erindrekstri nýtti ég hvert tækifæri til að heimsækja Ragnheiði og Árna sem þá voru flutt í fallega íbúð á Egilsstöðum. Þau tóku mér opnum örmum, hlýjan hennar Ragnheiðar umvafði mig og gáskafullar athugasemdir Árna krydduðu samtölin.

Oft hitti ég á Ragnheiði eina, þegar Árni var fjarverandi vegna veikinda. Þá skoðaði ég myndir af frændfólki mínu og fræddist um hvað barnabörnin hennar höfðu fyrir stafni. Ragnheiður var stolt af fólkinu sínu og fylgdist vel með ört stækkandi hópi afkomenda. Fyrir lifandi frásagnir hennar lærði ég smám saman að þekkja frændgarðinn og ættarmótin í seinni tíð styrkja þann grunn.

Hún sagði mér líka sitthvað úr bernsku sinni, uppvexti og búskap sem lýstu þeim aðstæðum sem konur af hennar kynslóð þurftu að búa við. Án efa gerði frænka mín sitt besta til að láta fólkinu sínu líða vel, hún setti sjálfa sig ekki í forgang frekar en margar mæður fyrr og síðar. Seinna fór hún að vinna utan heimilis, m.a. í eldhúsinu í grunnskólanum á Hallormsstað og ég var stolt af frændseminni þegar ég heyrði hrósyrðin um hana frá kennurum þar sem ég hitti á námskeiði. Ég dáðist líka að fallegu handavinnunni hennar, útsaumi og prjónaskap og geymi góðar ullarhosur sem Árni prjónaði á níræðisaldri.

Síðustu árin dvöldu þau hjónin á heilbrigðisstofnun á Egilsstöðum og þar hitti ég Ragnheiði síðast fyrir u.þ.b. ári. Hún var að venju glöð að sjá mig en ég skynjaði að nú var tilveran eiginlega bara bið, fátt sem stytti henni stundirnar og langur hver dagurinn.

Ég sakna þessarar góðu og hlýju frænku minnar og þeirra tengsla við föðurfólkið mitt sem sköpuðust í heimsóknum til hennar. Ég get þó vel unnt henni hvíldar að loknu löngu og farsælu dagsverki og veit að tveir Árnar taka fagnandi á móti henni á strönd hins eilífa friðar.

Ég sendi frændum mínum og þeirra fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur og bið góðan Guð að blessa minningu Ragnheiðar Einarsdóttur.

Unnur Halldórsdóttir.

Elsku Ragnheiður mín. Traustasta og besta vinkona.

Mig langar með fáeinum orðum að þakka þér fyrir allar samverustundirnar og hjálpina í gegnum árin. Til ykkar Árna var alltaf gott að koma. Það var sama hvar þið bjugguð, þið voruð svo samtaka með að gera heimilið ykkar fínt og fallegt og fullt af „hlýju“.

Meðan við bjuggum báðar í dalnum okkar varst þú sú manneskja sem ég leitaði mest til ef einhver vandamál voru hjá mér. Það var sama hvað var að, þú varst alltaf tilbúin að hjálpa. Ef ég klúðraði saumaskapnum þá bara henti ég því út í bíl og keyrði til þín og þú gast allt lagað. Ef ærnar okkar þurftu hjálp í sauðburði varst þú sótt, jafnt á nóttu sem degi. Alltaf var allt sjálfsagt. En síðast en ekki síst vil ég þakka þér fyrir öll skiptin sem þú hjálpaðir mér þegar ég var veik, það var eiginlega „ekkert mál“ að vera veik, það var sama hvort ég lá heima eða að heiman, þú varst komin og tókst heimilið mitt og annaðist það eins og þú ættir það. Og fyrir það erum við Kjartan óendanlega þakklát.

Þegar við vorum báðar fluttar á Egilsstaði áttum við margar góðar stundir, spjölluðum saman, sögðum hvor annarri leyndarmál, fórum í gönguferðir og kíktum í búðir sem okkur fannst mjög gaman að gera.

Elsku Ragnheiður. Ég sakna þín óskaplega, en ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér og þér líður vel þar sem þú ert nú, þú átt það skilið. Öllum aðstandendum votta ég dýpstu samúð.

Þín vinkona,

Jóna Vilborg Friðriksdóttir.