Nunna Kertin sen nunnurnar mála eru sérstaklega falleg og tæpast hefur nokkur maður sig í að bera eld að kveiknum og bræða þau niður.
Nunna Kertin sen nunnurnar mála eru sérstaklega falleg og tæpast hefur nokkur maður sig í að bera eld að kveiknum og bræða þau niður. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kertin eru handmáluð og skreytt. Hugleiða í Hafnarfirði. Margir leita til okkar, segir systir Agnes í Karmelklaustrinu

Fallegustu gjafarvörurnar fyrir ferminguna fást í Karmelklaustrinu við Ölduslóð í Hafnarfirði. Kertin sem þar fást eru handmáluð og skreytt auk þess sem þar fást falleg skrautrituð kort og fleira. Raunar fást gjafavörur fyrir flest tilefni í klaustrinu, svo sem skírnir, brúðkaup sem og helstu viðburði kirkjuársins.

„Handavinnan er stór þáttur í okkar starfi,“ segir móðir Agnes í Karmelklaustrinu. „Hér iðkum við hugleiðslu og biðjum og á meðan er gott að fást við einhverskonar föndur eða handavinnu. Við fáum kertin frá kertasmiðjunni Heimaey í Eyjum en hér málum við þau með fallegu letri og litum. Sama má segja um aðra handvinnu. Við leggjum alúð í hlutina.“

Verslunin í klaustrinu er opin alla daga frá klukkan 10:00 til 19:30 auk þess sem hægt er að skoða þær vörur sem fást og panta yfir netið. En fyrst og síðast snýst líf Karmelsystra um tilbeiðslu og bænalíf. Sungnar eru messur í klaustrinu klukkan átta á hverjum morgni auk þess sem Karmelsystrum berast bænaefni frá fólki víða að. „Ástandið í þjóðfélaginu er þannig að margir leita til okkar. Til dæmis varð maður í Reykjavík fyrir hnífstungu á mánudaginn og síðustu daga hafa margir komið með bænaefni vegna þess manns og fjölskyldu hans. Við erfiðar aðstæður leita margir til okkar,“ segir Agnes.

sbs@mbl.is