Áhugavert „Deila hugmyndum og sýn á heiminn,“ segir Ingibjörg Jóhannsdóttir skólastjóri Myndlistaskóla Reykjavíkur.
Áhugavert „Deila hugmyndum og sýn á heiminn,“ segir Ingibjörg Jóhannsdóttir skólastjóri Myndlistaskóla Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Kristinn
Á námskeiðunum í Myndlistaskólanum verður kennt í mislöngum vinnutörnum á nokkrum vikum. Kostað verður kapps um að þeir tólf nemendur sem á námskeiðið komast starfi sjálfstætt en mikil áhersla verður lögð á sjálfstæð vinnubrögð.

Á námskeiðunum í Myndlistaskólanum verður kennt í mislöngum vinnutörnum á nokkrum vikum. Kostað verður kapps um að þeir tólf nemendur sem á námskeiðið komast starfi sjálfstætt en mikil áhersla verður lögð á sjálfstæð vinnubrögð. Munu nemendur skila af sér verkefnum á netinu, vinna á skapandi hátt með netmiðla og nýta sér t.d. stafrænar myndavélar og síma og vinna með þeim ljósmyndir og myndbönd ásamt því að vinna hópverkefni í spjallformi og texta.

Vinna að áhugaverðum verkefnum

„Skólinn fékk styrk frá Reykjavíkurborg í gegnum átaksverkefnið Ódýrari frístundir til að bjóða upp á skemmtilegt námskeið fyrir ungt fólk sem er í þeirri stöðu að það er hvorki skráð í skóla né með vinnu. Okkur fannst mikilvægt að þessi hópur fengi að vinna saman að áhugaverðum verkefnum og að þau fengju að deila hugmyndum og sýn sinni á heiminn. Að þarna væru ónýttir kraftar og önnur sjónarhorn sem nýta mætti til góðra verka,“ segir Ingibjörg Jóhannsdóttir skólastjóri í samtali við blaðið.

Áhersla verður lögð á að skoða þekkt umhverfi út frá mismunandi forsendum og sjá nýja möguleika í hversdagsleikanum. Á námskeiðinu vinna þátttakendur bæði einstaklingsverkefni og hópverkefni. Í kennslustundum gera nemendur ýmsar verklegar æfingar og farið verður í vettvangsferðir. Í tímum eiga nemendur kost á einkaviðtölum þar sem verkefni hvers og eins verða þróuð frekar. Nemendur þurfa ekki að hafa neinn bakgrunn í listum, einungis áhuga á skapandi vinnubrögðum. Verkefnið er styrkt af framtakinu Ódýrar frístundir á vegum Reykjavíkurborgar og er námskeiðið því ókeypis fyrir þátttakendur.

Neikvæð ímynd netmiðla

„Ætlunin er að vinna á skapandi hátt með netmiðla sem stundum hafa fengið neikvæða ímynd í daglegri umræðu. Notaðar verða ýmsar stafrænar aðferðir við að skrásetja umhverfið, til dæmis með myndavélum, símum, vídeóvélum og hljóðupptökutækjum. Námskeið er stutt og snarpt. Nemendur fá tækifæri til að kynnast annarri starfsemi skólans meðan á námskeiðistendur,“ segir Ingibjörg. sbs@mbl.is

myndlistaskolinn.is