Benedikt Guðmundsson
Benedikt Guðmundsson
Nýliðarnir í Þór Þorlákshöfn slá hvergi af í Iceland Express-deild karla í körfuknattleik og eru nú í 2. sæti þegar einungis þrjá umferðir eru eftir af deildakeppninni.

Nýliðarnir í Þór Þorlákshöfn slá hvergi af í Iceland Express-deild karla í körfuknattleik og eru nú í 2. sæti þegar einungis þrjá umferðir eru eftir af deildakeppninni. Þórsarar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu topplið Grindavíkur í Þorlákshöfn í gærkvöldi 79:69. Þór er eina liðið sem unnið hefur Grindavík í deildinni því toppliðið hefur tapað tveimur leikjum, báðum á móti Þór.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, vildi nú ekki skrifa undir að nýliðarnir væru með tak á toppliðinu þegar Morgunblaðið spurði hann að því. „Ég veit það nú ekki. Við erum svo sem búnir að vinna báða leikina gegn þeim og þetta eru víst einu leikirnir sem þeir hafa tapað í deildinni. Okkur hefur gengið vel á móti þeim og það er bara gott. Þar eru fjögur góð stig sem sjá kannski til þess að við erum í toppbaráttunni. Þetta voru kærkomin tvö stig, ég neita því. Ef við ætlum að vera í toppbaráttunni þá þurftum við á þessu að halda,“ sagði Benedikt og gat nú ekki neitað því að það yrði merkileg niðurstaða ef Þór tækist að ná 2. sæti í deildakeppninni.

„Jú, ég held að það yrði alveg ásættanlegt fyrir nýliða að hirða annað sætið,“ sagði Benedikt léttur og sagðist ætla að leggja áherslu á að hans menn misstu ekki einbeitinguna nú þegar úrslitakeppnin væri handan við hornið. „Það er nánast sama á móti hverjum við höfum spilað því þetta hafa allt verið hörkuleikir. Við verðum að passa okkur á því að ofmetnast ekki núna. Það er mjög auðvelt að missa sig í velgengni rétt eins og það er auðvelt að brotna í mótlæti. Fyrir mér er ekki síður erfitt að höndla smá velgengni og ætla að reyna að sjá til þess að mínir menn falli ekki í þá gryfju að ofmetnast,“ sagði Benedikt ennfremur við Morgunblaðið. Í hans liði var Darrin Govens stigahæstur með 27 stig en hjá Grindavík var Nathan Bullock atkvæðamestur með 18 stig.

Snæfell þurfti heldur betur að hafa fyrir sigrinum á Fjölni 89:86 þó að Snæfell hafi verið með gott forskot framan af leik. Fjölnir var yfir á lokamínútunum og fékk tækifæri til að tryggja sér sigurinn í síðustu sókninni en Calvin O'Neal brást bogalistin. kris@mbl.is