Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir sérstökum vaxtabótum ekki hafa verið ætlað að koma sérstaklega til móts við þá sem verst væru settir hvað skuldsetningu varðaði.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir sérstökum vaxtabótum ekki hafa verið ætlað að koma sérstaklega til móts við þá sem verst væru settir hvað skuldsetningu varðaði. Þvert á móti hefði þeim verið ætlað að koma til móts við þá sem voru hóflega skuldsettir og nutu ekki annarra úrræða sem stjórnvöld höfðu gripið til í kjölfar fjármálakreppunnar.

Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra ritaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hún sagði m.a. að úthlutun almennra vaxtabóta hefði verið breytt þannig að þær kæmu í auknum mæli til móts við heimili með þunga skuldabyrði og lágar tekjur.

„Við vorum fyrst og fremst að benda á að þarna var verið að efna til aðgerða fyrir þá sem höfðu vissulega lent í þyngri greiðslubyrði en voru ekki að glíma við óviðráðanlegar skuldir,“ segir Gylfi.

Réttur þessa fólks hefði hins vegar verið skertur á móti með lækkun á eignamörkum, þ.e. frá byrjun árs 2011 hefðu vaxtabætur hjóna fallið niður við 10,4 milljóna króna hreina eign í stað 18,2 milljóna áður.

Í grein sinni segir Oddný að útreikningar ASÍ, sem fjallað var um í Morgunblaðinu á mánudag, ættu aðeins við um 500 fjölskyldur skv. álagningarskrám Ríkisskattstjóra en Gylfi segir það myndu koma sér á óvart ef þetta væri rétt.

„Það eru sem betur fer margar fjölskyldur millitekjufólks sem eiga hreina eign á bilinu 40-50%,“ segir Gylfi. Háir vextir vegna ónýtrar krónu kalli hins vegar á vaxtabætur til handa þessu fólki ekki síður en öðrum.

„Vegna ofurvaxta þurfum við að hafa opinbera aðstoð fyrir meðalfjölskyldur vegna kaupa á meðalhúsnæði,“ segir Gylfi. holmfridur@mbl.is