Bentey fæddist á Dynjanda í Jökulfjörðum 9. maí 1925. Hún lést 9. mars 2012 á Hjúkrunarheimilinu Skjóli.

Útför Benteyjar fór fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík 9. mars 2012.

Þann 4. mars síðastliðinn fórstu frá mér, elsku amma mín.

Mér finnst erfitt að trúa því að þú sért farin frá okkur, en eftir allt sem þú hefur gengið í gegnum held ég að þetta hafi verið best fyrir þig. Það er erfitt að sætta sig við það en maður situr þó eftir með allar þessar yndislegu minningar um stundir sem við áttum saman.

Ég man sérstaklega vel eftir tímabili þar sem ég fór til þín á hverjum degi eftir skóla og alltaf talaðar þú um að þú ættir engar kökur fyrir mig en sjaldan var það svo. Ég á líka margar fleiri yndislegar minningar. Þú varst besta fyrirmynd sem hægt var að eiga. Ég vildi stundum vera engill á himnum, þá myndi ég vera með þér og mömmu. Lífið verður aldrei eins án þín, amma mín.

Þín

Adda

Nokkur kveðjuorð til elskulegrar vinkonu minnar sem kvaddi okkur þann 4. mars síðastliðinn. Við hittumst fyrst fyrir 77 árum í Bolungarvík. Bentey kom þangað norðan úr Jökulfjörðum til að fara í barnaskóla, þá 10 ára að aldri. Ég var stödd á brimbrjótnum þegar ég sá hana fyrst. Frænka hennar sem bjó í næsta húsi þar sem ég ólst upp kom og tók á móti henni. Bentey dvaldist síðan hjá henni þegar hún var í Bolungarvík. Mér er Bentey enn minnisstæð þar sem hún stóð með hvíta pokann sinn undir hendinni. Við höfum verið vinkonur síðan og átt samleið í gegnum lífið. Það kom aldrei snurða á vinskapinn öll þessi ár. Bentey var alltaf svo ljúf og góð. Þegar við urðum fullorðnar og eignuðumst fjölskyldur bjuggum við báðar í Eskihlíðinni. Það hefur alltaf verið stutt á milli okkar. Bentey eignaðist stóra og yndislega fjölskyldu og hef ég alla tíð verið eins og ein úr fjölskyldunni.

Er við lítum um öxl

til ljúfustu daga

liðinnar ævi,

þá voru það stundir

í vinahópi

sem veittu okkur

mesta gleði.

(Nico)

Elsku Bentey, við Emil þökkum þér hjartanlega fyrir allar góðu stundirnar sem við höfum átt saman og sendum fjölskyldu þinni innilegar samúðarkveðjur.

Kristín

Sveinsdóttir.